Ekki er langt síðan að þúsundir íslenskra barna komust í fyrstu kynni við stofnun sem á eftir að vera drjúgur hluti af veruleika þeirra mörg komandi ár. Sex ára börn eiga ekki auðvelt með að sjá fram í tímann og átta sig á því hverju grunnskólinn mun skila þeim eftir tíu ára vist. Þess vegna þarf samfélagið að búa í haginn svo að reynsla þeirra af skólanum verði þægileg og gefandi.

Nú á dögum þurfa íslensk börn verja bróðurparti ævi sinnar í skólanum. Skólaár og skóladagar eru orðin fleiri og lengri en áður var. Skólinn er hluti af lífi þeirra — ekki bara undirbúningur fyrir lífið.

Ef við segjum að hlutverk grunnskóla í íslensku nútímasamfélagi sé eitthvað annað en að vera geymslustofnun fyrir foreldra sem þurfa daggæslu, þá er mikilvægasta verkefni hans að veita börnum innihaldsríka og góða menntun og kenna þeim ákveðna þekkingu og tækni við að tileinka sér þekkingu. Sú menntun nýtist þeim einnig sem þegnar í lýðræðissamfélagi.

Lýðræðissamfélag snýst um það að allir eiga sama rétt. Þess vegna er það eitt mikilvægasta hlutverk grunnskóla að bjóða öllum börnum jöfn tækifæri til náms. Að skólinn sé ekki upphaf dilkadráttar sem síðan heldur áfram allt lífið — hvað þá dilkadráttar sem byggist á því hvaða börn eiga efnuðustu foreldrana.

Hvert barn er auðlind og miklu skiptir að í skólanum sé laðaður fram styrkur barnsins. Ekkert mismunar jafnmikið og sama kennsla fyrir öll börn. Þetta er hugsunin á bak við svo kallað einstaklingsmiðað nám. En til þess að það verði annað en bara fallegur frasi þá þarf að brjóta upp stóra hópa og skipta þeim niður í smærri einingar. Þannig er betur hægt að sinna þörfum hvers og eins. En það kostar víst ögn meira en að hitt, að troða frösum um einstaklingsmiðað nám inn í aðalnámskrá.

Íslensk skólakerfi ber ennþá að ýmsu lagi of rík merki kerfishugsunar þar sem steypa á þetta unga fólk í sama mót. Þess vegna ætti aðalnámskrá grunnskóla að hverfa. Í staðinn ætti að koma réttindaskrá barna. Er ekki eðlilegt að veita börnum rétt til að tileinka sér ákveðna þekkingu og þjálfun í tilteknum grunnfögum sem skilgreindur sé í Réttindaskrá barna? Síðan má veita kennurum og öðru fagfólki frjálsar hendur við að móta skólastarf og meta hvernig hægt sé að laða fram það besta í hverju barni í samráði við börn, foreldra og forráðamenn.

Engum mundi detta það í hug að skilgreina störf neinna einstaklinga í samfélaginu þannig að einungis sé minnst á skyldur en ekki réttindi. Hið sama á að eiga við um börnin.

mbl.14.09.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0