Á Íslandi þykir orðið svo sjálfsagt að feður taki fæðingarorlof, að það þótti ekki ástæða til að gefa þessa bók út á íslensku,” segir Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri hjá Jafnréttisstofu, um bókina MEN DO IT! sem nýlega kom út á ensku, dönsku og litháísku.
 
Bók þessi geymir frásagnir feðra í fæðingarorlofi í fjórum löndum, Íslandi, Danmörku, Litháen og Möltu. “Þessi bók er hluti af samevrópsku verkefni sem Jafnréttisstofa tók þátt í fyrir Íslands hönd og heitir “Modern Men in Enlarged Europe”. Skoðaðir voru möguleikar og hindranir fyrir karla til að taka þátt í umhyggju eigin barna. Tekin voru viðtöl við atvinnurekendur og stjórnmálamenn auk viðtalanna við feðurna.
Eftir útgáfu bókarinnar eru íslensku feðurnir í henni eiginlega orðnir alþjóðlega frægir pabbar, þeir Dagur B. Eggertsson, Guðmundur Steingrímsson, Kristján Kristjánsson, Guðni Indriðason og Þórhallur Árni Ingason.”

Svipuð upplifun
Ingólfur segir upplifun feðranna af því að vera í fæðingarorlofi vera mjög svipaða í öllum fjórum löndunum. “Þeir lýsa þessu sem jákvæðri reynslu og mjög gefandi tímabili. Þeir uppgötvuðu nýjar hliðar á sjálfum sér og áttuðu sig betur á því hvað heimilis- og umönnunarstörf eru gríðarlega tímafrek. Íslensku og dönsku feðurnir upplifðu jákvæð viðbrögð samfélagsins við því að þeir fóru í feðraorlof en á Möltu og í Litháen þá þurftu menn bæði að takast á við mjög neikvæð viðbrögð atvinnulífsins og taka við þeim skilaboðum í kringum sig að þeir væru nú ekki merkilegir karlar að vera heima og skipta um bleiur.”

Feður fórna vinnu fyrir orlof
Ingólfur segir mikinn mun vera á þessum fjórum löndum í möguleikum og hindrunum feðra til að taka þátt í umönnun barna sinna. “Á Íslandi taka tæp 90% feðra fæðingarorlof og flestum finnst það alveg eðlilegt og sjálfsagt, en á Möltu er það til dæmis algjör undantekning. Þar er samfélagið mjög kaþólskt og litið svo á að hlutverk konunnar sé að sjá um börnin. Þeir feður á Möltu, sem taka sér fæðingarorlof, þurfa að gera það á eigin kostnað og fórna jafnvel vinnunni. Þeir verða fyrir vikið oft heimavinnandi í nokkur ár eftir að hafa farið í feðraorlof. Malta og Litháen eiga verulega langt í land í þessum málum en vilja bæta úr þessu því yfirvöld hafa virkilegar áhyggjur af því hversu mikið hefur dregið úr barneignum.”

Kynjajafnrétti þýðir fleiri börn
“Það er háfgert Lísiströtu-verkfall í gangi í stærstum hluta Evrópu, því þar sem konur eru í raun þvingaðar til að velja á milli barneigna og þátttöku á vinnumarkaðinum, þá velja æ fleiri konur að eignast ekki börn. Og feðraorlof skiptir miklu máli í þessum efnum, vegna þess að aðalatriðið í ákvörðun kvenna um að eignast barn númer tvö eða þrjú, er hversu virkur faðirinn er í barnaumönnun og inni á heimilinu. Þetta er auðvitað spurning um kynjajafnrétti, því það helst í hendur við barneignir, sem sést á því að Norðurlöndin sem standa sig best í kynjajafnrétti, þau eru líka með skárstu tölurnar í fæðingartíðni.”

Fjölskyldufjandsamleg fyrirtæki
Kynjajafnrétti á Norðurlöndunum felst meðal annars í því að fólki er gefinn kostur á því að sameina það að vera foreldri og vera á vinnumarkaðinum. “Á Norðurlöndunum eru konur líka að verða betur menntaðar heldur en karlar, þannig að ef fyrirtæki þorir ekki að ráða konu af því að hún er á barneignaraldri, þá er fyrirtækið að útiloka stóran hóp af best menntaða fólkinu. Í þeim fyrirtækjum þar sem er mikil samkeppni milli starfsmanna, þar er minnst um nýtingu á fæðingarorlofi, bæði hjá körlum og konum. Þetta eru oft fjármálafyrirtæki enda sagði
Bjarni Ármannsson á Karlaráðstefnunni um daginn að fjármálafyrirtæki væru fjölskyldufjandsamleg.”

Verður að nýta mannauð kvenna
Ingólfur segir það hafa komið sér mest á óvart í þessari rannsókn, hvað íslenskir atvinnurekendur virðast hafa sætt sig vel við og aðlagast feðraorlofi frá upphafi og tekist á við það á jákvæðan hátt. “Vonandi er þetta vegna þess að atvinnurekendur hafa áttað sig á að kynjastaðan er gjörbreytt frá því sem var fyrir tuttugu árum. Ef Evrópa ætlar að halda sinni forystu, þá gerist það ekki öðruvísi en að nýta mannauð kvenna ekki síður en karla. Evrópa deyr út ef konur hætta að eiga börn og þess vegna verða samfélög að gera allt til að bæði konur og karlar geti með góðu móti átt börn og lifað fjölskyldulífi en verið á sama tíma þátttakendur á vinnumarkaðinum.
Þetta skiptir mjög miklu máli, því það er ekki hægt að halda uppi velferðarkerfi þegar kominn er öfugur aldurspíramídi, þar sem færri og færri eru á vinnumarkaði. Eitt af stærstu áhyggjuefnunum hjá Evrópusambandinu núna, er hvernig á að ná upp barneignatíðninni.”

mbl.is 14.01.2006
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0