Samfélagið hefur á skömmum tíma breyst úr stórfjölskyldu í kjarnafjölskyldu og úr kjarnafjölskyldu í einstæða feður og mæður sem eru oft með nýjan maka (fjöltengslafjölskyldur). Samhliða þessari breytingu hefur skólakerfið í æ ríkara mæli tekið við uppeldishlutverkinu. Í stuttu máli það sem áður gerðist með aðstoð ættingja og vina innan veggja heimilisins gerist nú með aðkeyptri þjónustu óskyldra út í bæ. Að sama skapi minnkar sá tími sem skyldmenni eyða með börnum.

 

Óhikað er hægt að segja að þessi þróun hafi leitt til þess að fjölskyldubönd margra fjölskyldna hafa trosnað. Þetta kemur ekki síst niður á tengslamyndun barna við foreldra sína sem og afa og ömmu. Ekki er óalgengt að barnið eyði meira en helmingi af vökutíma sínum í umsjá annarra en foreldra. Það hefur aftur þau áhrif að helstu fyrirmyndir hætta að vera nánustu ættingjar og þess í stað taka einstaklingar í menntakerfinu sem og ofurhetjur það hlutverk að sér. Föðurímyndir pilta eru kannski eitthvað sem þarf að huga að. Innan skólakerfisins er uppistaða starfsfólks konur. Ég hef heyrt dæmi þess að piltar hafi ekki haft karlkyns kennara (ef íþróttir eru undanskyldar) fyrr en þeir  hófu nám í framhaldsskóla.

Mikilvægi góðrar tengslamyndunar pilta við feður sína er ótvíræð. Frank Pittman, bandarískur geðlæknir og fjölskyldu meðferðaraðili, hefur látið þessa tegund tengslamyndun sig miklu varða. Hann vill meina að drengi sem skortir eðlilega tengslamyndun við feður sína séu óöruggari og örvænta frekar þegar kemur að karlmennskuímynd sinni en drengir sem hafa góð tengsl við feður sína. Þeim hættir til að mynda hópa þar sem þeir sýna og sanna karlmennsku sína hver fyrir öðrum, oft á tímum í ýktu atferli sem endað getur með ósköpum (úr bókinni Man Enough frá árinu 1993, kafli 5).

Pittman heldur áfram þegar hann segir að þessir náungar sem vilja þvinga umhverfið til að sjá þá sem MENN – þjáist af hungri eftir föður. Þeir munu fara í gegnum kynþroska rútínuna dag eftir dag í gegnum allt líf sitt, bíða eftir föður sem veitir þeim viðurkenningu og staðfestingu á að þeir eru orðnir menn (úr bókinni Man Enough frá árinu 1993, kafli 6).
Pittman skefur ekki af því og málar heiminn nokkuð svart / hvítan í umræðu sinni. En að mínu mati hefur hann eitthvað til síns máls. Hann vill meina að samfélagið sé orðið firrt, tengsl milli nánustu ættingja hafi vikið fyrir kapphlaupinu um betri bíl, flottara sjónvarpi og stærra húsi. Samhliða þessu efnahagskapphlaupi hefur stórfjölskyldan verið á undanhaldi, kjarnafjölskyldan er ekki lengur normið heldur er fjöltengslafjölskyldur og einstæðir foreldrar að verða eitt algengasta fjölskylduformið. Ekki skilja mig sem svo að eitt fjölskylduform sé betra eða verra heldur en hitt. Það sem er slæmt í þessu er að þeim mun minni tíma sem foreldrar og aðrir ættingjar eyða með börnum þeim mun lakari verða tengsl milli þeirra. Vitaskuld má fara út í umræðuna um magn eða gæði. En það er afarkostur. Við þurfum ekki að velja á milli þess hvort við deilum litlum tíma en “góðum” með börnum okkar eða hvort við deilum miklum tíma “og ekki svo góðum” með þeim. Við höfum alltaf valið að deila “góðum” tíma með þeim.

Við gerum allt of mikið af því að láta vinnu, sjónvarp eða amstur hverstagsleikans taka megin þorra tíma okkar, oft á kostnað samverustunda með börnunum okkar. Hver kannast ekki við að hafa staðið sig að því að gefa barninu sínu einhvern óþarfa til að gleðja það eða sem sárauppbót fyrir svikið loforð? Ágætu foreldrar hættum að bæta við einum yfirvinnutíma á dag til að hafa efni á “syndaaflausninni”, eyðum þessum auka yfirvinnutíma frekar með barninu okkar. Staðreyndin er sú að börnin vilja frekar deila góðri stund með okkur foreldrum heldur en að eignast enn einn action karlinn eða barbí dömuna í viðbót..

Þeir sem hafa áhuga á að lesa meira eftir Frank Pittman er bent á amazon.com<

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0