Börn hegða sér betur, læra meira og aðlagast betur ef feður þeirra taka virkan þátt í lífi þeirra, samkvæmt niðurstöðum umfangsmikillar athugunar sænskra vísindamanna á fjölmörgum rannsóknum. Í ljós kom, að góð tengsl á milli barna og feðra þeirra höfðu jákvæð áhrif í allt að tvo áratugi.

Ennfremur kom fram, að meðal lágtekjufólks leiddu regluleg samskipti barna og feðra til þess, að börnin leiddust síður út í glæpi.

Vísindamenn við Háskólann í Uppsölum greina frá þessum niðurstöðum sínum í febrúarhefti vísindaritsins Acta Paediatrica. Þeir könnuðu niðurstöður úr 24 rannsóknum sem gerðar voru á árunum 1987-2007 í Svíþjóð, Bandaríkjunum, Bretlandi og Ísrael.

Stjórnandi athugunarinnar, Anna Sarkadi, segir niðurstöðurnar sýna fram á mikilvægi þess að feður séu börnum sínum fyrirmynd frá fæðingu og fram á táningsárin.

„Langtímaáhrifin voru m.a. þau, að 33 ára konur áttu betri samskipti við maka og leið betur, bæði andlega og líkamlega, ef samband þeirra við föður hafði verið gott þegar þær voru 16 ára,“ sagði Sarkadi.

Einnig komust vísindamennirnir að því, að börn sem bjuggu hjá báðum foreldrum áttu síður við hegðunarvanda að etja en börn sem bjuggu hjá einstæðri móður.

„Reyndar er ómögulegt að segja til um hvort það er vegna þess að feðurnir taka virkan þátt í uppeldinu eða vegna þess að móðirin getur betur sinnt uppeldinu ef hún hefur stuðning,“ sagði Sarkadi.

Þessi grein er tekin af mbl.is

Fréttatilkynningin á ensku

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0