Hrafn Franklín Friðbjörnsson fjallar um forræðismál: “Foreldrar þurfa að komast að samkomulagi um forsjá barna sinna og er mjög þýðingarmikið að foreldrar nái sáttum á friðsaman hátt.”
Í HINUM vestræna heimi eru skilnaðir mjög tíðir og þegar börn eru til staðar þarf að ákveða hvort foreldrið fær forræði eða foreldrar skipta með sér forræði en í því felst að börn eru álíka mikið hjá báðum foreldrum. Þótt enn sé algengara að konan fari með forræði barna þegar hjón eða par í sambúð skilja færist það í aukana að foreldrar séu með sameiginlegt forræði eftir skilnaðinn.
Foreldrar þurfa að komast að samkomulagi um forsjá barna sinna og er mjög þýðingarmikið að foreldrar nái sáttum á friðsaman hátt. Þegar foreldrar eiga í erfiðleikum með að ákvarða um forsjá og jafnvel deila um forsjá og umgengnisrétt getur það skapað mikil átök og streitu hjá börnunum sjálfum. Mikilvægt er að foreldrar stilli ekki börnum sínum upp við vegg og láti þau velja, heldur er það foreldranna að finna og velja skynsamlega sáttaleið.

Í flestum tilvikum fær annað foreldrið forræðisréttinn en ef barnið hefur náð 12 ára aldri verður að taka tillit til óska barnsins. Það foreldri sem ekki hefur forræðisréttinn hefur umgengnisrétt við barnið sitt og á barnið fullan rétt á að umgangast það foreldri sitt. Samkvæmt 28. gr. barnalaga, felst meðal annars í forsjá að foreldrum beri að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum eins og best hentar með hag og þarfir barnsins í fyrirrúmi. Afstaða barns á að fá aukið vægi eftir því sem það eldist og þroskast. Barnalögin hljóma og líta vel út en þeim er því miður illa framfylgt í skilnaði foreldra. Þreytt eru gömul mæli að allir fráskildir feður séu afskiptalitlir af börnum sínum, borgi ekki meðlögin sín og hugsi bara um sjálfa sig. Á dögum jafnréttisbaráttu þar sem bæði konur og karlar berjast fyrir betri réttarstöðu hafa viss mál sem snerta karlmenn og föðurhlutverkið ekki náð að koma inn í umræðuna og er ekkert jafnrétti í. Jafnréttisumræðan hefur stundum snúist of mikið um að sýna konur sem fórnarlömb og karlmenn sem kúgara þeirra. Það er löngu kominn tími til að lögin tali í verki og að báðir foreldrar geti verið virkir í lífi barna sinna eftir skilnað. Vegna sterks móðurréttar verða börn alltof oft vopn í hendi reiðrar, eða biturrar móður sem notar börnin sín í stríði við föðurinn því þar veit hún að hún er með mjög særanlegt vopn. Ef börn eru með skráð lögheimili hjá móður eru þau gagnvart hinu opinbera eign hennar og oft, því miður, beitir hún þeim sem vopni. Fráskildir feður upplifa ákveðinn tómleika, og það er ekki af því þeir missa allt samband sitt við börnin, því vanalega eru einhverjar fastar helgarheimsóknir. En það má ekki gleymast að einstaka helgar eru ekki boðleg uppbót fyrir föður sem vill fylgjast með lífi barna sinna. Feður sakna hluta sem voru svo sjálfgefnir áður, sjá þau í daglegum leik og starfi. Sjá barnið sitt fara á fætur, fara í skólann, læra heima, leika með félögum og fl. Í þessu felst ákveðinn sorg, söknuðurinn að vera með barninu þínu hér og nú. Aldrei líður sá dagur sem verður endurtekinn eða þú færð til baka. Þegar faðir deyr, reyna mæður yfirleitt að halda minningu hans uppi, en þegar foreldrar skilja og faðir fer burt af heimilinu reyna mæður oft að gera lítið úr hlutverki hans, gleyma honum eða vinna í því að beita barninu sem vopni í hatursfullri baráttu.

Þegar skilnaður á sér stað þá högum við okkur eins og fjölskyldan fyrirfinnist ekki lengur, annað foreldrið er aflimað af kjarnanum og svo búumst við því að barnið vaxi og dafni eðlilega. Gamall hugsunargangur lítur ennþá svo á að mæður séu kokkabækur í uppeldinu og feðurnir gömlu ávísanaheftin. Til allrar óhamingju, gerir samfélag okkar sér ekki grein fyrir þeim sterku tilfinningum sem feður bera til barna sinna. Þegar við heyrum úti í þjóðfélaginu að móðir hafi misst forsjána yfir börnum sínum, grípum við andann á lofti, og tilfinningar okkar eru hlaðnar samúð og reiði. En þegar við heyrum að maður hafi misst börnin sín koma þessar sömu tilfinningar ekki upp og þegar feður kvarta um söknuð sinn og vanlíðan vegna þess að börnum þeirra er haldið frá þeim er algengt svar frá samborgurum “hvað hittir þú ekki barnið/börnin aðra hverja helgi?” eins og það sé einhver sjálfsögð lausn á vandanum. Móðurhlutverkið er heiðrað hvívetna þó svo að við vitum að ekki eru allar mæður góðar frekar en allir feður. Dr. Judith Wallerstein er bandarískur sálfræðingur og síðan í byrjun sjöunda áratugarins hefur hún rannsakað langtíma áhrif af völdum skilnaða. Hennar vinna hefur verið mikil, unnin mjög faglega og ber vott um mikla reynslu og þekkingu á viðfangsefni sínu. Eftir áratugastarf hefur dr. Wallerstein fundið í rannsóknum sínum að milli 20 til 50% af mæðrum með forræði hafa gagngert gert tilraunir til þess að eyðileggja og skaða umgengni sem feður eiga við börn sín með því að senda börnin burt er von er á föður í heimsókn, segja að barnið sé veikt þegar það er það ekki og listinn heldur áfram. Mæður geta gert ýmislegt og eyðilagt margt í sambandi barns og föður en eitt geta þær aldrei eyðilagt því þú verður alltaf faðir barnsins í fjarlægð eða nálægð. Það er ekki alltaf auðvelt, og ekki sú leið sem flestir feður kjósa, en faðir ertu samt og verður alltaf. Auðvitað koma dagar hjálparleysis, vonleysis og örvæntingar en leið feðra verður að vera lituð af þeirri hugsun að gefast aldrei upp.

Með von um að við færum börnum fráskilinna foreldra vonir um bætt samskipti foreldranna á nýju ári og tökum undir orð Jakobínu Sigurðardóttur skálds er hún kvað:

ekkert stríð – aðeins frið

dreymir saklaust barn með bros í augum.

Hrafn Franklín Friðbjörnsson
Höfundur er M.Sc. í klínískri sálfræði.
www.mbl.is Þriðjudaginn 24. janúar, 2006 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0