Jón Gunnar Hannesson skrifar um formannskjör Samfylkingarinnar: “Og ég kýs að sá stjórni sem hefur fallegt hjartalag.”

Sá er réttur okkar að hafa áhrif á hverjir veljast til forystu í stjórnmálum. Gildir einu hvaða flokka við höfum kosið áður. Og ég kýs að sá stjórni sem hefur fallegt hjartalag.

Össur Skarphéðinsson er sá stjórnmálamaður sem hefur sýnt baráttu Félags ábyrgra feðra fyrir jafnrétti mestan áhuga. Hann hefur mætt á fundi hjá okkur og ráðstefnur og stappað í okkur stálinu. Staða feðra er oft veik og virðist hreint ótrúlegt hversu lengi kynferðið eitt dugir þegar forsjá barna er ákvörðuð.

Einhver teikn eru þó á lofti um að þar kunni að verða bót á. Forsjárnefnd skilaði nýverið tillögum sínum þar sem m.a. er talað um að forsjá barna skuli vera sameiginleg og ábyrgð á börnunum þannig á hendi beggja foreldranna. Jafnframt er gert ráð fyrir því að tálmun á samskiptum foreldra og barna sé glæpur sem refsa beri fyrir.

Það þarf að taka ákvörðun á Alþingi og breyta þarf lögum. Stjórnmálamenn ráða þar öllu um.

Össur hefur sýnt feðrum skilning og samúð. Á fundi eitt sinn sagði Össur: Ef Birta væri tekin úr lífi mínu yrði svart myrkur eftir. Össur sagðist ekki skilja hvernig við sem ekki höfum séð börnin okkar um lengri tíma, stundum svo árum skiptir, gætum lifað það af. Svo sagði Össur: Þið eruð hetjur.
Þessi orð voru mér mikil huggun og hvatning. Svo er um fleiri.

Höfundur er læknir og starfar í Félagi ábyrgra feðra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0