Hvernig er meðlagsgreiðslum háttað? Vegna hvers er meðlagið og hvernig er það reiknað? Sem mótframlag vegna framfærslu barna. Hver er framfærslukostnaður barna? Ég er ekki með það á hreinu, ríkisstjórnin er ekki með það á hreinu, ráðgjafarstofa heimilanna er ekki með það á hreinu.

Út frá hverju eigum við þá að reikna þann kostnað? Fæði og heimili? Virkar sanngjarnt. En tómstundir, gæsla, fatnaður og fleira? Hvaða liðir tilheyra framfærslu barna, hvers vegna og hvað skal notast við?

Þetta eru spurningar sem brenna á allmörgum. Margir meðlagsgreiðendur spyrja: Er kostnaðurinn virkilega þetta lítill? Aftur á móti spyrja margir meðlagsþiggjendur af hverju meðlagið er ekki hærra.

Í mörgum tilvikum er meðlagið of mikið að greiða, en of lítið að fá. Í öðrum tilvikum er um að ræða passlega upphæð.

17.249 virkar ekki há upphæð, 34.498 er hins vegar hærri tala og 51.747 enn hærri. Þetta er greiðslubyrði meðlagsgreiðanda, hvort sem hann hefur 110 eða 900 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur. Þessar upphæðir fær meðlagsþiggjandi, hvort sem tekjur heimilisins eru 110 þúsund eða 900 þúsund.

Aukameðlag fæst úrskurðað ef foreldri valdi sér tekjuháan maka sem nær viðmiðunarmörkum sýslumanns á aukameðlagi. Ótengt tekjum þiggjanda. Foreldrar með forsjá barna, í láglaunastörfum, sem eiga tekjulágan fyrrverandi maka eða fráfallinn maka eiga ekki kost á að sækja um hærra meðlag þó svo að þörfin á því heimili kunni að vera margföld á við þeirra sem fengið hafa úrskurðað aukameðlag.

Þátttaka stjúpforeldra í uppeldi barna felur í sér lagalega skyldu til uppeldis og framfærslu barna. En engar breytingar á meðlagi þó svo að tekjumunur á heimilum meðlagsgreiðanda og meðlagsþiggjanda geti verið nokkrar milljónir á hvorn veginn sem er.

Mitt álit er að þörf sé á endurskoðun meðlags frá grunni, tekjutengingu við tekjur greiðanda og þiggjanda og aðild ríkisins til að brúa bil þeirra tekjulægstu. Nauðsynlegt er að meta aukameðlag út frá þörf þess heimilis sem barn býr á, óháð tekjum meðlagsgreiðanda, nema sérstaklega standi á, auk þess sem ríkið verður að koma til móts við hina tekjuminni og brúa bilið sé þörf á aukameðlagi þar sem meðlagsgreiðandi er ekki til staðar eða með of lágar tekjur.

Ég tel að aukameðlag eigi að meta vegna þarfa og nauðsynja en ekki einungis vegna tekna greiðanda.

Árlega eru afskrifaðar tugmilljóna meðlagsskuldir hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga sem meðlagsgreiðendur hafa safnað upp vegna mikillar greiðslubyrði. Rétt væri að meðlagsgreiðendum væri í upphafi sett greiðslubyrði miðað við tekjur og að ríki brúaði bilið á meðlagi til þiggjenda.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0