Miðvikudaginn 11. október, 2006 – Aðsent efni

Orð móður duga ekki í Hæstarétti

Dögg Pálsdóttir skrifar um dóm Hæstaréttar í barnsfaðernismáli sem hún hefur til meðferðar

Dögg Pálsdóttir skrifar um dóm Hæstaréttar í barnsfaðernismáli sem hún hefur til meðferðar: “Hæstiréttur hefur nú í tvígang dæmt að orð móður við barn sitt um faðerni þess duga ekki.”

Orð móður duga ekki í Hæstarétti - mynd

Dögg Pálsdóttir

FYRIR réttum tveimur árum leitaði til mín maður á áttræðisaldri. Erindið var einfalt. Hann hafði orð móður sinnar fyrir því að eiginmaður hennar væri ekki faðir hans heldur annar nafngreindur maður. Úr þessu vildi hann fá skorið. Honum fannst það skipta miklu fyrir sig og afkomendur sína að hið sanna kæmi fram í málinu.

Í 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 er lögfestur réttur barns til að þekkja báða foreldra sína. Ákvæðið var nýmæli og byggist m.a. á ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Litið er svo á að í ákvæðinu felist skýlaus réttur einstaklings, óháð aldri, til að vita um uppruna sinn. Til samræmis voru málshöfðunarfrestir eldri barnalaga í vefengingarmálum felldir niður við gildistöku barnalaganna frá 2003. Rökin voru þau að vandséð væri hvað réttlætti slíka tímafresti, ekki síst í ljósi 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómstóli og að rannsóknir nútímans geta veitt óyggjandi niðurstöður um faðerni barns.

Umbjóðandi minn höfðaði vefengingarmál og leiddi blóðrannsókn í ljós að eiginmaður móður hans var ekki faðirinn. Eftir dóm í málinu er umbjóðandi minn ófeðraður. Niðurstaðan renndi traustum stoðum undir orð móður mannsins um faðerni hans.

Næsta skref var að höfða barnsfaðernismál á hendur afkomendum hins meinta föður. Lögum samkvæmt ber að höfða barnsfaðernismál gegn þeim manni eða mönnum sem eru taldir hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns. Umbjóðandi minn hafði orð móður sinnar fyrir því að umræddur maður væri faðir hans. Frá þessu var skýrt greint í stefnu.

Eins og venja er í barnsfaðernismálum úrskurðaði dómari að mannerfðafræðileg rannsókn skyldi gerð á blóðsýnum úr móður umbjóðanda míns, meintum föður og umbjóðanda mínum. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar af afkomendum hins meinta föður. Síðan hefur mál þetta þróast á hinn ótrúlegasta veg svo sem lesa má um í dómum Hæstaréttar nr. 174/2005, 426/2005 og 224/2006. Í síðastgreinda dómnum hafnaði Hæstiréttur því að umbjóðandi minn fengi hina mannerfðafræðilegu rannsókn framkvæmda. Tveir dómarar skiluðu minnihlutaatkvæði um gagnstæða niðurstöðu.

Í tvígang hefur Hæstiréttur fellt úr gildi úrskurð um að mannerfðafræðilega rannsókn skuli framkvæma til að fá úr því skorið hvort maður sá sem móðir umbjóðanda míns nafngreindi við hann sem föður hans sé það í raun. Jafnoft hefur Hæstiréttur vikið að því að í málatilbúnaðinum komi hvergi skýrt fram að móðir hans og hinn meinti faðir hafi haft samfarir á getnaðartíma hans. Segir þó skýrt í stefnunni að umbjóðandi minn hafi haft orð móður sinnar fyrir því að þessi tilgreindi maður væri faðir hans. Það er hins vegar rétt hjá Hæstarétti að látið var vera að lýsa því nákvæmlega í stefnunni hvað í því fælist þegar kona segði tiltekinn karlmann föður að barni sínu. Talið var að allir sem kunna grundvallaratriði í líffræði viti að segi kona mann vera föður barns síns felist í þeim orðum hennar, að hún hafi haft samfarir við manninn á getnaðartíma barnsins.

Flest ef ekki öll mál sem börn höfða og sem tengjast faðerni þeirra byggjast einvörðungu á upplýsingum sem barnið hefur frá móður sinni. Að getnaði barna eru sjaldnast vitni. Móðirin er því yfirleitt ein um að vita hvaða karlmenn koma til greina sem hugsanlegir feður barns sem hún hefur alið. Hingað til hafa orð móður við barn sitt dugað til að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram til sönnunarfærslu í barnsfaðernismáli. Hæstiréttur hefur nú í tvígang dæmt að orð móður við barn sitt um faðerni þess duga ekki.

Á meðan er umbjóðandi minn áfram föðurlaus, þótt hann eigi lögvarinn rétt, eins og landsmenn allir, á að þekkja foreldra sína.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og rekur lögmannsstofuna DP lögmenn í Reykjavík

mbl.is 11.10.06

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0