Guðlaugur Þór Þórðarson fjallar um rétt til fæðingarorlofs: “Ég trúi ekki öðru en að þeir vinnuveitendur sem haga sér með þessum hætti séu í miklum minnihluta.”
Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því af hálfu hins opinbera að auðvelda fólki að samræma starfsframa og fjölskyldulíf.
 
Það er ekki einfalt en fullyrða má að okkur hafi tekist það betur en flestum þeim löndum er við berum okkur saman við. Eitt stærsta skrefið í þá átt var að lengja fæðingarorlofið og gefa feðrum aukinn rétt til að vera með börnum sínum eftir fæðingu. Lenging fæðingarorlofsins hafði það að markmiði að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og gefa fjölskyldum aukin tækifæri til að njóta samvista eins og alkunna er.

Ísland á og getur verið í fararbroddi í fjölskyldumálum og hér eru betri aðstæður til að ná slíkum markmiðum. Löggjafinn og sveitarfélögin hafa gert sitt til að ná fyrrnefndum markmiðum, en það er til lítils ef atvinnurekendur reyna að koma í veg fyrir að starfsmenn geti nýtt sér réttindi sín. Það var því mjög dapurlegt að fá þær fréttir að forstjóri KEA, sem er svo lánsamur að kona hans er ólétt af tvíburum, hafi neyðst til að segja starfi sínu lausu vegna þess að atvinnurekendur hans töldu það óheppilegt að hann nýtti sér fæðingarorlof sitt! Í kjölfarið komu fréttir af því að slíkt væri ekki einsdæmi á íslenskum vinnumarkaði. Ég trúi ekki öðru en að þeir vinnuveitendur sem haga sér með þessum hætti séu í miklum minnihluta. En því miður koma þeir óorði á þjóðina.

Guðlaugur Þór Þórðarson
Höfundur er alþingismaður og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0