Tálmun umgengni milli barns og forsjárlauss foreldris (föður) er ein tegund ofbeldis gegn börnum. Tilgangur forsjárforeldrisins er þó ekki sá að sýna barninu ofbeldi heldur að koma föðurnum eða forsjárlausa foreldrinu í slæma stöðu, að ná sér niðri á honum eða stjórna lífi hans.
 
Forsjárforeldrið (móðirin) virðist telja sig geta nota barnið sem hvert annað valdatæki til að vinna að allt öðrum og persónulegri hagsmunum heldur en hagsmunum barnsins. Tengt þessu ofbeldi er sú misbeiting valds sem forsjárforeldri (móðirin) sýnir með því að innræta barninu margvíslega galla hins foreldrisins, þ.e. tala illa um föðurinn ekki aðeins í áheyrn barnsins heldur beinlínis við barnið. Hvorttveggja er grein af þeim meiði að tálma umgengni.

Bein tálmun er auðvitað það að hindra umgengni milli föður og barns með beinum boðum og bönnum, þ.e. að leggja blátt bann við því að barnið sjái eða hitti föður sinn. Þessi aðferð móðurinnar er kölluð föðursvipting enda er það tilgangur þessa ofbeldis. Eins og sést í greininni „Föðurleysi“ eru afleiðingar þess að svipta barn föður sínum mjög alvarlegar og afdrifaríkar fyrir börnin.

Börn í þessari stöðu eru líklegri en börn sem alast upp í góðu sambandi við föður sinn (þ.e. báða foreldra) til að leiðast út í margvíslega ógæfu, afbrot, vímuefnanotkun og ekki síður alls konar ofbeldi. Ástæðurnar eru kannski flóknar en augljóst hlýtur að teljast að föðursviptingin sjálf og það ofbeldi sem henni fylgir brenglar sjálfsmynd barnsins og kennir því fyrst og fremst að eðlilegt sé að beita aðra ofbeldi.

Tálmun á umgengni, misbeiting, innræting og föðursvipting eru því aðferðir til að brjóta niður sjálfsmynd barnsins og skemma með því það samfélag sem við lifum í. Þetta ofbeldi er því samfélagsmein sem full ástæða er til að uppræta. Foreldri sem elur barn sitt upp í slíku ofbeldi er á sama hátt ekki vert þeirrar samfélagslegu viðurkenningar sem felst í forsjá og allsendis vanhæft til að skila uppeldishlutverki sínu á þann hátt sem samfélagið óskar.

Af þessum sökum telur Félag ábyrgra feðra að sýslumönnum og öðrum yfirvöldum beri samfélagsleg og lagaleg skylda til að svipta viðkomandi forsjárforeldri því valdi sem forsjáin felur í sér, þ.e. svipta það forsjá með barninu.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0