“Gerendur í ofbeldismálum gegn börnum eru oftast konur og greina má ýmislegt sammerkt með þeim og þeirra lífi. Þá virðist sem drengir séu frekar þolendur líkamlegs ofbeldis en stúlkur þolendur andlegs ofbeldis. Vanræksla hvers konar birtist jafnt gegn báðum kynjum.”

Lokaverkefni til BA gráðu í félagsráðgjöf, Eyrún Hafþórsdóttir

Verkefnið er hér í heild sinni.

Útdráttur

Þessi ritgerð er lokaverkefni til BA prófs í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hér verður fjallað um birtingarmyndir vanrækslu og líkamlegs, og andlegs ofbeldis gegn börnum. Einnig verður farið yfir einkenni sem börn bera með sér ef þau eru beitt ofbeldi. Sýnt hefur verið fram á að afleiðingar ofbeldis geta verið langvinnar og fylgt börnum út í lífið sem fullorðnum einstaklingum ef ekkert er að gert. Mikilvægt er að grípa fljótt inn í aðstæður barna sem beitt eru ofbeldi og veita þeim og fjölskyldum þeirra viðeigandi hjálp.

Gerendur í ofbeldismálum gegn börnum eru oftast konur og greina má ýmislegt sammerkt með þeim og þeirra lífi. Þá virðist sem drengir séu frekar þolendur líkamlegs ofbeldis en stúlkur þolendur andlegs ofbeldis. Vanræksla hvers konar birtist jafnt gegn báðum kynjum.

Umfang ofbeldis gegn börnum er sláandi þegar skoðaðar eru tilkynningar til barnaverndarnefnda. Hér á landi er boðið upp á eitt úrræði sem ætlað er fyrir börn sem hafa orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið fyrir líkamlegu ofbeldi sjálf. Þetta úrræði er eingöngu hægt að nýta ef ofbeldið er ekki lengur til staðar. Ætla má að umfang ofbeldis gegn börnum sé þó umtalsvert meira en tilkynningar til barnaverndarnefnda gefa til kynna því ekki eru öll mál tilkynnt til barnaverndar. Sérfræðingar sem vinna með börnum telja því brýnt að koma á ákveðnum verklagsreglum í málaflokknum og skapa verði haldgóð úrræði fyrir þessi börn ef þau eiga ekki að skila sér út í samfélagið sem brotnir einstaklingar.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0