SVO virðist sem of margir karlkyns stjórnendur og forystumenn í atvinnulífinu taki ekki ferðaorlof eða þá að mjög takmörkuðu leyti. Þetta kom fram í máli Rannveigar Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, á ráðstefnunni Hve glöð er vor æska?
“Getur það verið að harkan og samkeppnin í viðskiptalífinu sé svo mikil að það sé einfaldlega of mikil áhætta fyrir þá að fara í fæðingarorlof eða taka tíma frá vinnunni til að sinna fjölskyldunni, t.d. að sækja foreldrafundi eða bekkjarskemmtanir?” spurði Rannveig. Hún benti á að breytingar gætu orðið mjög miklar á stuttum tíma, jafnvel meðan á ferðaorlofi stendur. “Eru stjórnendur í ljósi þessa hræddir um stöðu sína eða treysta þeir jafnvel ekki samstarfsmönnum til að leysa sig af hólmi tímabundið? Eða telja þeir sig kannski of mikilvæga eða vilja þeir að aðrir haldi þá svo mikilvæga að þeir geti ekki verið í burtu í þrjá mánuði?” spurði hún.

Rannveig sagði feðraorlof gera starfsmenn að betri starfskröftum, ekki síst þar sem ábyrgðartilfinning þeirra í starfi og öryggisvitund virtust aukast í samræmi við aukna ábyrgð heima. Mikilvægt væri að stjórnendur færu í fæðingarorlof þar sem þeir væru fyrirmynd annarra starfsmanna.

Vill lengja fæðingarorlofið
Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra og formaður nefndar um stöðu íslensku fjölskyldunnar, sagðist á ráðstefnunni vilja sjá í nálægri framtíð að fæðingarorlofið yrði lengt í allt að 15-16 mánuði, ekki síst til þess að brúa bilið frá því að níu mánaða fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskólanám barna hefst við 18 til 24 mánaða aldur.
Fram kom í máli Jóns Torfa Jónassonar, prófessors, að þróunin bæði hérlendis sem erlendis á síðasta aldarfjórðungi hefði verið í þá átt að sífellt fleiri börn sæktu leikskóla. Benti hann á að 70% íslenskra barna væru meira en átta tíma á leikskólanum og um 30% barna í meira en níu tíma.

mbl.is Sunnudaginn 5. mars, 2006 – Innlendar fréttir
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0