mbl.is Þriðjudaginn 12. desember, 2006 – Aðsent efni

Nýtt nútímafólk í sifjalaganefnd!

Stefán Guðmundsson fjallar um forsjármál og umfjöllun Kompáss

Stefán Guðmundsson fjallar um forsjármál og umfjöllun Kompáss: “Fjölmargir dómarar hafa lýst því yfir að þeir séu settir í afleita stöðu samkvæmt núgildandi lagaramma.”

Nýtt nútímafólk í sifjalaganefnd! - mynd

Stefán Guðmundsson

ÞAÐ VAR ákaflega fróðlegt að sjá vandaða umfjöllun Kompáss á Stöð 2 síðastliðið sunnudagskvöld um stöðu forsjárlausra feðra og barna. M.a. um dæmigerðar umgengnistálmanir móður gegn föður að því er virtist í einhverskonar hefndarskyni – burtséð frá réttindum, þörfum og vilja barnanna til að umgangast föður sinn. Lögbundnum mannréttindum barnanna til að umgangast föður sinn ríkulega.

Fleiri komu fram í þessum vandaða þætti og þar á meðal Valborg Snævarr hrl. sem er einn af helstu arkitektum þeirra laga og þess kerfis sem þessi málaflokkur býr við. Valborg á sæti í svokallaðri tveggja manna sifjalaganefnd – nefnd innan dómsmálaráðuneytis, sem hefur með lagasmíðar o.fl. að gera í þessum málaflokki forsjármála.

Skemmst er frá því að segja að síðastliðinn vetur flutti dómsmálaráðherra prýðilegt frumvarp á Alþingi til lagabreytingar á barnalögum þar sem sameiginleg forsjá var gerð að meginreglu við skilnað foreldra. Þannig að báðir foreldrar muni áfram fara sameiginlega með forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit. Rísi deilur um þá skipan má leysa slíkar deilur fyrir vanhæfum dómstólum.

Í Morgunblaðinu hinn 12. febrúar á þessu ári lýsti Valborg Snævarr sig andsnúna lagabreytingunni og vildi ekki að sameiginlegt forræði yrði meginregla og er þar með í andstöðu við eðlilegar framfarir og í andstöðu við þingið sem samþykkti lögin síðar. Í Kompásþætti umræddum lýsti Valborg Snævarr sig andvíga þeirri hugmynd, sem mikið hefur verið rædd á þessum vettvangi, að dómarar fengju lagaheimild til þess að dæma fólk í sameiginlega forsjá.

Það eru nákvæmlega þessar yfirlýsingar Valborgar Snævarr sem orka tvímælis og undirritaður telur að Valborg eigi að víkja sæti og í staðinn komi fólk að nefndinni sem ekki hefur yfirlýstar umdeildar skoðanir á málaflokknum; á börn á skólaaldri og hefur ekki beina atvinnu sem hrl. við málaflokkinn. Undirrituðum varð það ljóst fyrir löngu þegar hann fór að vinna í málaflokknum, kynna sér lögin, reglugerðirnar, framkvæmdahlið kerfisins og arkitektúrinn á kerfinu; að það væri stórlega gallað. Svo gallað í heild sinni að stefna verður að róttækri endurskoðun hið fyrsta og þótt fyrr hefði verið… Það er afleitt að kerfið skuli þurfa að vinna eftir lögum og reglugerðum frá árinu 2003 sem innihalda stórkostlega galla, sem aftur endurspegla gamla tíma og úrelt viðmið.

En aftur að kjarnanum og mótþróa Valborgar við þá hugmynd að dómarar fái lagaheimild til að dæma um sameiginlega forsjá foreldra. Félag ábyrgra feðra hefur margsinnis bent á það ósamræmi í íslensku réttarfari að hendur dómara í forsjármálum skuli vera bundnar fyrirfram. Með öðrum orðum ber dómara að svipta annað foreldrið forsjá þegar deilan er til lykta leidd. Fjölmargir dómarar hafa lýst því yfir að þeir séu settir í afleita stöðu samkvæmt núgildandi lagaramma. Þá stöðu að standa frammi fyrir tveimur jafnhæfum foreldrum í væntanlega tímabundinni deilu; vitandi það að til framtíðar væru bestu hagsmunir barnsins að báðir foreldrar færu með forsjá þess; en mega ekki dæma á þann veg sem kæmi barninu best til framtíðar.

Þá er og önnur hlið á þessu máli, jafnvel öllu alvarlegri. Dómari í forræðismáli, þar sem forræði er sameiginlegt, má ekki kveða upp þann dóm að ágreiningurinn sem fyrir hann er lagður sé efnislega enginn; og það sé barninu fyrir bestu að báðir foreldrar axli ábyrgðina. Dómarinn sér að annað foreldrið kann að vera í málaferlum gagngert til að fá fullt forræði – sem það fær nánast undantekningarlaust hafi það lögheimili barnsins í upphafi. Við vitum að fjölmörg slík sýndarmál koma upp þar sem hagsmunir barnsins eru ekki ástæða deilna. Ástæður fyrir slíkum sýndarmálaferlum geta verið af ýmsum toga eins og til dæmis afbrýðisemi vegna tilkomu maka, markviss undirbúningur fyrir beiðni um aukið meðlag og jafnvel til að geta farið úr landi með barnið án samþykkis hins foreldrisins. Þannig verður refsingin oft tvöföld, óréttlátur dómur byggður á allt öðrum forsendum en því sem kemur barninu best og svo gjarnan kröfugerð í kjölfarið.

Þetta hljómar auðvitað afar einkennilega í okkar landi. Við erum að flytja deilur til dómstóla í forsjármálum vegna þess að við eigum að venjast því að dómarar komist að bestu mögulegu niðurstöðu – en dómari má ekki komast að bestu niðurstöðu fyrir barn í forsjármáli?

Slíkur lagarammi er ofar skilningi flestra; einkum og sér í lagi með tilliti til þess gríðarlega fjölda af annarskonar málaflokkum sem rata fyrir dómstóla – þá skuli þetta vera sá einasti sem hefur hendur dómara bundnar fyrirfram. Á meðan þeim lögum er ekki breytt og slíkar breytingar mæta andstöðu Valborgar Snævarr og fleiri – hlýtur það að vera skýr ábending til dómara um að þeim sé alls ekki treystandi til að komast að bestu niðurstöðu í málinu; og það orkar þá auðvitað einnig tvímælis að vera yfirhöfuð að flytja slík deilumál fyrir íslenskum dómstólum í núverandi mynd.

Höfundur er í Félagi ábyrgra feðra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0