ÁRIÐ 2001 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar sem flutt var af þingmönnum úr öllum flokkum þar sem ríkisstjórninni var falið að undirbúa heildstæða stefnu í málefnum barna og unglinga. Á grundvelli stefnumótunarinnar átti að gera fimm ára framkvæmda- og aðgerðaráætlun sem leggja átti fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi árið 2002.

Viljaleysi forsætisráðherra
Það tók fjögur ár að vinna skýrsluna, sem lögð var fyrir Alþingi fyrir einu ári síðan. Engin framkvæmda- eða aðgerðaráætlun fylgdi eins og Alþingi hafði kallað eftir. Forsætisráðherra upplýsti bara að eftir 4 ár starf nefndar að skýrslugerð, sem að komu 130 einstaklingar, m.a. helstu sérfræðingar á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu um málefni barna, yrði málið sett aftur í nefnd. Og nú í svokallaða fjölskyldunefnd forsætisráðherra. Á Alþingi nú í vikunni var svo staðfest að það að setja málið aftur í nefnd var bara leið forsætisráðherra til að drepa málið. Fjölskyldunefndin, sem enga aðgerðaráætlun hefur undirbúið og ekkert gert í málinu er undir forystu Björns Inga Hrafnssonar aðstoðarmanns forsætisráðherra og oddvita framsóknarmanna í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum. Björn Ingi auglýsir nú grimmt í fjölmiðlum, sem enginn veit hver borgar, að hann ætli allt að gera fyrir barnafjölskyldur. Þessar auglýsingar geta ekki verið marktækar nú þegar enn einu sinni er staðfest að börn og fjölskyldur eru bara í fyrirrúmi hjá Framsóknarflokknum í auglýsingum rétt fyrir kosningar og í hátíðarræðum forsætisráðherra. Þarf nokkurn að furða að Framsóknarflokkurinn sé að koðna niður.
Heildarstefnumótun og framkvæmdaáætlun í málefnum barna og unglinga hefur verið í gildi í áratugi hjá hinum Norðurlandaþjóðunum og umboðsmaður barna hefur árlega í á annan áratug kallað eftir slíkri stefnumótun hér á landi, en án árangurs. Í skýrslunni sem áður var nefnd er að finna upplýsingar um mikla brotalöm í málefnum barna og unglinga hér á landi en þessum hópi tilheyra um 80 þúsund landsmenn. Gagnrýni er mikil í skýrslunni á óskilvirkni kerfisins og að alla heildarsýn vanti í málaflokknum og skortur sé á samhæfingu og pólitískri stefnumótun. Kallað er einnig eftir endurskoðun á verkaskiptingu milli ráðuneyta og stofnana, sem sé orðin úrelt óskýr og óhagkvæm. Miklum agnúum er líka lýst á bóta- og velferðarkerfinu varðandi hag barna m.a. að bætur velferðarkerfisins séu svo naumt skammtaðar að þær hrökkvi ekki fyrir lágmarksframfærslukostnaði – og skorti þar mikið á, enda væri fátækt fólk oft fast í svonefndri fátækragildru. Sérstaklega er nefnt að úrbóta sé þörf í málefnum fátækra barna, nýbúa, barna með geðraskanir og barna og ungmenna í vímuefnavanda. Einnig kemur fram hve fljótt dregur úr skólasókn ungmenna því einungis innan við helmingur tvítugra ungmenna stundar nám.

Grafalvarleg staða
Það er líka grafalvarlegt að í skýrslunni kemur fram að kynferðisleg misnotkun barna sé stórum útbreiddari en álitið hefur verið hingað til og nærri fimmta hvert barn sem nær átján ára aldri orðið fyrir henni, auk þess sem stór hópur barna eða 5-10% verði reglulega fyrir einelti í skóla. Nefnt er einnig að slys á börnum og unglingum sem leita á slysadeild séu tíðust á Íslandi í Norðurlandasamanburði og hlutfallslega slasist helmingi fleiri börn á Ísland en t.d. í Svíþjóð. Allt þetta sýnir að þörf er á skipulagðri aðgerða- og framkvæmdaáætlun í málefnum barna og ungmenna hér á landi ekki síður en á hinum Norðurlöndunum. Til að styrkja hag ungbarnafjölskyldna er líka eitt brýnasta verkefnið að brúa bilið frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til börn komast á leikskóla m.a. með lengra fæðingarorlofi og að vinna skipulega að því að gera leikskólann gjaldfrjálsan. En ekkert hefur verið gert með þær tillögur til úrbóta sem liggja fyrir í skýrslunni og engin aðgerðaráætlun í undirbúningi í þessum málaflokki sem framsóknarmenn tala svo mikið um rétt fyrir kosningar.

Álitshnekkir fyrir Íslendinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna
Það dugar greinilega ekki bara fyrir forsætisráðherra að hunsa Alþingi og gefa því langt nef. Heldur er viljaleysi ráðherrans á góðri leið með að gera Íslendinga ómerkilega á alþjóðavettvangi. Í skýrslu Íslands til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna á árinu 2003, kom fram að í undirbúningi væri á grundvelli ályktunar frá Alþingi heildarstefnumótun í málefnum barna og ungmenna með gerð framkvæmdaáætlunar til 5 ára sem væri að ljúka. Þessi barnaréttarnefnd starfar á grunni barnasáttmála SÞ og hefur það hlutverk að hafa eftirlit með því að aðildarríkin virði barnasáttmálann. Á þeim vettvangi var Íslendingum hrósað fyrir þessa framtakssemi á árinu 2003. Á Alþingi í gær staðfesti forsætisráðherra að ekkert hefði verið að marka þessa skýrslugjöf Íslendinga til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra er nú ber að því að hafa bara brugðið sér í nýju fötin keisarans og með því platað þjóð sína. Hvílík hneisa.

Jóhanna Sigurðardóttir Höfundur er alþingismaður.

mbl.is Fimmtudaginn 13. apríl, 2006 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0