“Ég get ekki annað en tekið undir með þeim sjónarmiðum sem þarna koma fram,” segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, þegar borin er undir hann gagnrýni Helga Áss Grétarssonar á langa málsmeðferð umgengnismála sem var til umfjöllunar hér á síðum blaðsins á fimmtudag.

Bragi bendir á að umsagnir barnaverndarnefnda í umgengnisréttardeilum eru ekki eitt af meginverkefnum barnaverndarnefnda samkvæmt gildandi lögum. “Heldur er þeim falið þetta sem eins konar hliðarverkefni. Aðstæður hafa verið með þeim hætti á Íslandi að barnaverndarnefndir eiga fullt í fangi með að axla sínar frumskyldur varðandi barnavernd í landinu, þannig að að mörgu leyti má segja að þetta sé óhjákvæmileg niðurstaða af því. Engu að síður er það alvarlegt mál að ekki sé unnt að sinna þessum málaflokki, þ.e. umgengnisréttarágreiningi, með þeim hætti sem þarf að vera. Málin taka allt of langan tíma og því fer víðsfjarri að lögð sé næg rækt við það að leysa úr ágreiningi,” segir Bragi og bendir í því samhengi á að mjög skorti t.d. á að skilnaðar- og fjölskylduráðgjöf sé í boði sem og stuðningur við þau börn sem upplifa skilnað foreldra sinna.

Vangeta kerfisins til að taka á þessum málum

Meðal þess sem Helgi Áss benti á er að litlu máli geti skipt að hvaða efnislegri niðurstöðu menn komast að við meðferð umgengnismála þegar meðferð málsins hefur jafnvel tekið mörg ár án neinnar umgengni á þeim tíma. Aðspurður segist Bragi sammála þeirri niðurstöðu Helga Áss að hinn langi málsmeðferðartími geti haft óbætanleg áhrif á samband barns og foreldris sem það býr ekki hjá. “Þetta er alveg hárrétt niðurstaða sem hann kemst þarna að. Vangeta kerfisins til þess að leysa úr þessum málum veldur því oft á tíðum að þegar loksins er kveðinn upp úrskurður þá er einfaldlega orðið vonlaust að framfylgja honum og þetta á við í mörgum tilfellum.”

Aðspurður segist Bragi sammála því að bagalegt sé að umgengnismál falli undir tvo aðila, þ.e. ríki og sveitarfélög. “Augljóslega eru hnökrar í þessari framkvæmd og brýnt að bæta þar úr.” Spurður hvernig megi bæta þar úr segir Bragi margar leiðir koma til greina. “Mér finnst sú leið sem Helgi Áss nefnir [um aukna samvinnu fagaðila, þ.e. lögfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa, innan sýslumannsembættisins í stað þess að senda mál til umsagnar hjá barnaverndarnefndum] mjög vel koma til álita. Einnig mætti hugsa sér jafnvel enn þá róttækari útfærslu sem tengdist ekki einvörðungu umgengnismálum heldur jafnframt forsjárágreiningi og úrlausn þeirra fyrir dómstólum. Mér finnst það þess virði að skoða hvort unnt er að endurskoða þau mál í einu lagi, því oft á tíðum eru forsjárdeilur og umgengnismál tvær hliðar á sama pening. Ég tel því nauðsynlegt að líta á hvoru tveggja þegar menn endurskoða fyrirkomulagið á þessu,” segir Bragi og bætir við að ljóst megi vera að núverandi ástand mála sé allsendis ófullnægjandi og hafi verið lengi.

Bragi Guðbrandsson
mbl.is 01.10.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0