Árni Magnússon félagsmálaráðherra boðar til karlaráðstefnu um jafnréttismál
Nauðsynlegt er fyrir karla að koma saman stöku sinnum saman til umræðna um jafnréttismál “án þess að vera undir vökulu auga kvenna,” segir Árni Magnússon félagsmálaráðherra.
 
Hann hefur boðað til ráðstefnu um jafnréttismál sem eingöngu er ætluð körlum, en hún verður haldin í Salnum í Kópavogi á morgun. Árni segir helsta tilgang ráðstefnunnar þann að karlar komi saman og ræði jafnréttismál út frá sínum sjónarhóli.
“Eins og dagskráin ber með sér er hann nokkuð víður,” segir hann. Rætt verði um jafnréttismál út frá menntakerfi, atvinnurekendum og verkalýðsforystu svo dæmi séu nefnd. Þá fari fram pallborðsumræður þar sem sérfræðingar muni velta fyrir sér stöðu stráka í skólum, stöðu karla í samfélaginu. Í pallborðinu taki einnig þátt yngri menn sem séu að hasla sér völl í stjórnmálum.

Vigdís átti hugmyndina
Árni segir að þau mál sem brenni á körlum snúist ekki bara um jafnrétti karla eða kvenna, heldur jafnréttismál almennt. “Kveikjan að því að halda ráðstefnu sem eingöngu er ætluð körlum er í raun hugmynd sem Vigdís Finnbogadóttir setti fram opinberlega þegar haldið var upp á 30 ára afmæli norrænnar jafnréttisbaráttu í Borgarleikhúsinu í fyrra,” segir Árni. Hann segir nauðsynlegt að kynin geti rætt um jafnréttismál, bæði í sameiningu og hvort í sínu lagi. Konum finnist á stundum gott að koma saman og ræða þessi mál “án þess að verða fyrir einhverri truflun af hálfu karla og það er okkur nauðsynlegt líka.”

Körlum gefið tækifæri til að taka þátt í jafnréttisumræðunni
Árni segir að í einhverjum tilvikum hafi körlum fundist þegar þeir hafi mætt til þess að ræða og hafa afskipti af jafnréttismálum “að þeir beri persónulega ábyrgð á stöðu jafnréttismála og það sé í einhverjum tilvikum talað þannig til þeirra. Við erum þarna að gefa körlum tækifæri til þess að koma og hlusta og taka þátt í umræðunni án þess að upplifa þær tilfinningar,” segir hann. Árni bætir við að í framtíðinni geti karlar og konur vonandi rætt þessi mál saman og óskandi sé að karlarnir sæki í meira mæli í að taka þátt í jafnréttisumræðunni. Þeir hafi hingað til ekki verið sérstaklega duglegir við að mæta og taka þátt þegar jafnréttismál eru rædd. Spurður hverju hann telji mikilvægast fyrir karla að huga að í jafnréttismálum segir Árni að launamunur kynjanna sé það sem standi upp úr í baráttunni um þessar mundir. “Ég held að mikilvægast fyrir okkur sé að taka þátt í baráttunni fyrir jöfnum launum kynjanna,” segir hann.

MBL 30/11/2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0