Eftir Hildi Friðriksdóttur: “Aldraðir og foreldrar sem ráða menntað fólk á sviði heimaþjónustu eiga að geta gengið að því vísu að það fólk búi yfir ákveðinni færni í stað þess að hafa litla sem enga tryggingu fyrir því ráði þeir fólk eftir almennri auglýsingu.”
 
Er einhver hér sem hefur áhuga á námi fyrir fólk sem getur bæði farið í heimahús til að annast aldraða og börn útivinnandi foreldra?” spurði finnskur kollegi á samráðsfundi Nordplus Voksen í Kaupmannahöfn í janúar fyrir ári. Markmið fundarins var að finna samstarfsaðila á Norðurlöndum í fullorðinsfræðslu til að vinna að ýmsum verkefnum.
Þar sem þörfin fyrir starfsfólk á þessu sviði er mjög vaxandi á Íslandi fannst mér ástæða til að kanna þetta mál þó svo að ekki væri beinlínis hægt að halda því fram að þetta væri á verksviði fullorðinsfræðslu Verzlunarskóla Íslands.

Mismunandi markmið
Sótt var um styrk til Nordplus Voksen til samráðsfundar vegna verkefnisins. Í ljós kom á fundinum sem haldinn var í Finnlandi í nóvember sl. að hugmyndir Finnanna frá Koulutuskeskus Tavastia (Tavastia Further Education College) og mín voru nokkuð svipaðar en dönsku fulltrúarnir frá Social- og sundhedsskolerne á Fjóni einblíndu á heimahjálp aldraðra eingöngu innan félagsþjónustunnar og horfðu einungis til barnafjölskyldna með fötluð eða langveik börn. Í Danmörku hafa sjúkraliðar sinnt þessum störfum að hluta en þeir hafa kosið að sjá ekki um þrif og innkaup. Aftur á móti hefur Tavastia hafið nám á sviði heimilishjálpar og eldamennsku sem gæti orðið vísir að slíku námi.
Þrátt fyrir að við sem mættum til fundarins höfum verið með of ólíkar hugmyndir til að af framhaldsverkefni gæti orðið strax í kjölfarið finnst mér grunnhugmyndin þess virði að hún sé skoðuð af skólum og sveitarfélögum hér á landi. Því varpa ég fram hugmynd sem vonandi einhver er tilbúinn að útfæra öldruðum og barnafjölskyldum til hagsbóta.

Vantar stöðugleika
Hugmyndin að þessu námi kemur til vegna reynslu Finna og Íslendinga þess efnis að venjulega koma margir einstaklingar að umönnun hvers og eins aldraðs sem þarf á þjónustu að halda í heimahúsum. Dæmi eru um að einn sjái um þrif, annar skammti lyf og hjálpi til við böðun, þriðji komi með mat, fjórði (oft fjölskyldumeðlimur) fer í banka og gerir innkaup og jafnvel sá fimmti kemur frá sjálfboðaliðasamtökum til að uppfylla þarfir fyrir félagsskap. Að auki eru mannaskipti oft tíð í þessum störfum sem getur valdið óöryggi og vanlíðan hjá hinum aldraða sem hefur þörf fyrir reglu og stöðugleika í umhverfi sínu.
Einnig kjósa stöðugt fleiri foreldrar að vera útivinnandi og margir þeirra hafa efni á að fá manneskju til að koma heim og gæta barna ýmist eftir skóla eða leikskóla auk þess að sjá um létt heimilisstörf. Í þriðja lagi búa því miður margir við langvarandi veikindi barna sinna eða fötlunar af ýmsu tagi og gætu vel þegið aðstoð.

Hugsunin á bak við menntun þessa starfsfólks er sú að einn starfsmaður geti séð um víðtækari aðstoð en nú þekkist. Miðað yrði við að viðkomandi gæti að mestu leyti séð einn um annaðhvort þann aldraða eða heimili og börn. Í báðum tilvikum gæti þessi starfsmaður t.d. þrifið, eldað, séð um innkaup, sinnt félagslegri þörf/uppeldisstörfum og fleira. Þar sem hjúkrunar er þörf þyrfti sérmenntað fólk áfram til þeirra starfa.

Rammi námsins
Aðrir skólar þar sem svipaðar námsgreinar eru kenndar fyrir eru betur í stakk búnir að taka upp þetta nám en Verzlunarskólinn þannig að um samnýtingu námsgreina og kennara gæti verið að ræða. Vel mætti hugsa sér að þetta nám yrði sambland af félagsliða- og sjúkraliðanámi þar sem einnig yrði lögð áhersla á þrif og matreiðslu. Yrðu námsgreinar m.a. næringarfræði, sálfræði, skyndihjálp, uppeldisfræði, öldrunarfræði, líkamsbeiting, hreinlæti, matseld og fleira. Einnig mætti hugsa sér sameiginlegt grunnnám í hálft til eitt ár og síðan sérfræðiskiptingu í umönnun aldraðra, umönnun barna og umönnun fatlaðra.
Starfsvettvangur þessa fólks gæti hvort sem er verið hjá einstaklingum, öldruðum eða foreldrum, sem vilja nýta sér þjónustu af þessu tagi en eru ekki metnir þurfandi af félagsþjónustunni, sem og þeim sem hafa fengið mat um að þeir þurfi ýmsa aðstoð. Starfsfólkið gæti einnig unnið sjálfstætt, í gegnum einkarekin fyrirtæki sem sæju um þessa þjónustu, eða unnið hjá sveitarfélögum og ríki.

Í bæjarfélaginu Hämeenlinna í Finnlandi hefur verið rætt um að koma upp miðakerfi fyrir öldrunarþjónustu. Hver miði er að verðgildi ákveðinnar upphæðar þannig að hinir öldruðu sem hafa fengið mat á að þeir þurfi ákveðna þjónustu geta ýmist leitað til einkarekinna fyrirtækja eða sveitarfélagsins.

Raunfærni metin
Í Finnlandi er starfsnám byggt þannig upp að í stað þess að kenna fullorðnum það sem þeir kunna nú þegar tekur fólk verklegt stöðupróf þegar það telur sig tilbúið til þess jafnvel án þess að hafa lært til þess í skóla. Litið er svo á að færnin skipti mestu máli, ekki hvort nemandinn sé sjálflærður eða hafi skólanám að baki. Standist hann ekki prófið er nýr prófdagur ákveðinn sem hentar nemandanum og undirbúningur heldur áfram þar til hann þreytir prófið að nýju.
Vel mætti hugsa sér að fullorðið fólk hér á landi sem vill leggja þetta nám fyrir sig geti tekið stöðupróf t.d. varðandi uppeldisþætti, þrif og aðra þekkingu sem það hefur aflað sér á lífsleiðinni og krafist er í náminu.

Á að kenna fólki að skúra?
Fyrir Íslendinga er það ný hugsun að kenna þrif í skóla, þ.e. ef horft er framhjá húsmæðraskólunum sem að sumu leyti er verið að vekja upp að nýju með þessu nýja námi. Sjálf féll ég í þá gryfju að brosa út í annað þegar ég heyrði að fullorðnar konur í Finnlandi sætu á skólabekk í þeim tilgangi að læra þrif. Mér var hins vegar bent á að ekki væri sjálfgefið að allir vissu hvernig meðhöndla ætti húsgögn með mismunandi efnum, pússa silfur, meðhöndla flíkur í þvotti og þrífa þannig að vel væri að verki staðið.
Í heimsókn í finnskan verkmenntaskóla fylgdumst við með próftöku í stofnanaþrifum. Viðkomandi þurfti ekki einungis að sýna fram á að hún gæti notað tækin eins og til var ætlast heldur varð hún að sýna fram á vinnubrögð sem sköðuðu ekki stoðkerfi hennar. Í annað sinn komum við í tíma þar sem um 20 konur fræddust um ýmislegt sem viðkom efnafræði og meðhöndlun efna.

Þó svo að hugsunin um að kenna þrif og umönnun sé að mörgu leyti framandi get ég einnig ímyndað mér að stöðugt fleira ungt fólk kunni lítt til slíkra verka þar sem margt sleppur við þrif á eigin heimilum og skortir e.t.v. fyrirmyndina frá degi til dags. Og heyrst hefur að íslenskir foreldrar hafi óskað sérstaklega eftir því að fá almenna uppeldisfræðslu svo þeir séu betur í stakk búnir að sinna foreldrahlutverkinu.

Tækifæri nýbúa til að aðlagast
Vel mætti hugsa sér að fólk af erlendum uppruna sem flytti hingað til lands og gæti hugsað sér að taka slíkt nám fengi sérstaka kennslu í íslensku sem það þyrfti að nota í verklegum greinum á námstímanum. Það myndi auðvelda því að aðlagast þjóðfélaginu og íslenskum hugsunarhætti bæði í gegnum tungumál og starf.

Ávinningur námsins
Mörgum finnst mjög gefandi að vinna í samskiptum við fólk. Reynslan af verslunarfagnámi sem Verzlunarskóli Íslands býður fullorðnu starfsfólki verslana sýnir að áhugi þess á starfinu eykst til muna þegar það fær menntun á sínu sviði. Á sama hátt er líklegt að áhuginn aukist meðal starfsfólks í heimaþjónustu læri það til fagsins. Þar með yrði starfsfólkið væntanlega stöðugri vinnukraftur en hinir sem taka störfin að sér tímabundið. Samhliða eykst virðingin fyrir sjálfum sér og starfinu því þeir sem hafa rétta menntun ganga fyrir um vinnu.
Aldraðir og foreldrar sem ráða menntað fólk á sviði heimaþjónustu eiga að geta gengið að því vísu að það fólk búi yfir ákveðinni færni í stað þess að hafa litla sem enga tryggingu fyrir því ráði þeir fólk eftir almennri auglýsingu.

Hér er gott tækifæri fyrir ómenntað fólk af erlendum uppruna að komast í nám og starf sem leiðir það inn í samfélagið hvort sem er fyrsta skref í starfi eða til frambúðar.

Hér er einnig tækifæri fyrir fullorðnar konur sem hafa reynslu á einhverju þessara sviða að fá færni sína metna að verðleikum án þess að þurfa að leggja á sig langt nám.

Menntað fólk ætti einnig að hafa möguleika á hærri launum en ófagmenntaðir.

Hildur Friðriksdóttir
Höfundur er verkefnastjóri fullorðinsfræðslu í Verzlunarskóla Íslands.

hildur@verslo.is, http://www.kktavastia.fi/portal/briefly_in_english, http://www.ask.hi.is/id/1003281

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0