Samkvæmt lögum um mannanöfn ber forsjárforeldrum að skíra barn sitt. Sé um eitt forsjárforeldri að ræða annast það þessa skyldu. Þegar hjón skíra barn sitt gera þau það sameiginlega.

Þegar foreldrar hafa skilið fyrir fæðingu fer móðirin sjálfkrafa með forsjána. Eigi skilnaður sér stað eftir fæðingu barnsins gildir sú regla að forsjárforeldrið ræður nafni barnsins. Sé um sameiginlega forsjá að ræða þurfa foreldrarnir að koma sér saman um nafn og kenninafn barnsins. Þrátt fyrir þessar reglur og lög gerist það stundum að mæður nefna barn, gefa því kenninafn, eða jafnvel breyta nafni eða kenninafni barns gegn vilja föðurins. Þetta geta þær í reynd aðeins gert með því að yfirvöld, prestar og Hagstofa, brjóti lög.

Forsjárforeldri (móðir) getur ekki skírt barn að nýju, t.d. Hulduson án samþykkis föður. Forsjá felur ekki þessa ákvörðun um kenninafnsbreytingu í sér. Forsjárlausa foreldrið (faðirinn) getur einfaldlega neitað þessu, byggt á reglu þeirri sem dómsmálaráðuneytið hefur gefið út (sjá hér á eftir). Hann gæti samt fengið svör um að hér sé um almenna reglu að ræða, en faðirinn verður að standa fast á sínu.

Samkvæmt eftirfarandi reglu getur forsjárforeldrið aðeins breytt nafninu með leyfi dómsmálaráðherra – og þarf að fara lögformlega leið að því að fá slíkt leyfi. Gefst þá föðurnum færi á að mótmæla með formlegum hætti og færa sín rök gegn breytingunni.

Dómsmálaráðuneytið hefur sett á vef sinn eftirfarandi reglur dómsmálaráðuneytisins um mannanöfn (smelltu á tengilinn til að fá reglurnar upp) og þar segir m.a.:

Nafnbreytingar

* Dómsmálaráðherra getur við ýmsar aðstæður sem nefndar eru í VI. kafla mannanafnalaga leyft breytingu á eiginnafni, millinafni og/eða kenninafni (t.d. að barn verði kennt til stjúp- eða fósturforeldris). Slíkar breytingar skulu þó aðeins leyfðar einu sinni nema sérstaklega standi á.
* Það telst ekki nafnbreyting í eiginlegum skilningi þótt fullorðinn einstaklingur leggi niður kenninafn sem hann hefur borið og taki upp annað kenninafn sem hann á rétt á í þess stað. Ekki er því þörf á ráðherraleyfi til slíkrar nafnritunarbreytingar heldur skal hún tilkynnt Hagstofu Íslands, Þjóðskrá. Dæmi: Dóttir Maríu og Guðmundar Karls er nefnd Guðmundsdóttir en má þess í stað nefnast Maríudóttir eða Karlsdóttir.

Sérstöku máli gegnir þó um breytingu á kenninafni barns. [Leturbr. Fáf.] Standi svo á að það foreldri barnsins sem það er kennt til sé breytingunni andvígt verður það foreldrið sem sækir um breytinguna að leita eftir leyfi dómsmálaráðherra fyrir henni.

* Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, getur leyft aðrar breytingar á ritun nafns á þjóðskrá, án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Dæmi: Maður getur óskað eftir að fella eitt eða fleiri af nöfnum sínum úr þjóðskrá eða að skammstafa eitt eða fleiri af nöfnum sínum (t.d. millinafn).
Eyðublöð fyrir umsóknir um nafnbreytingar.

Hægt er að snúa sér beint til dómsmálaráðherra, senda honum póst eða ræða við Hagstofuna, sem annast þessi mál.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0