Sunnudaginn 12. nóvember, 2006 – Ritstjórnargreinar

Dagur helgaður feðrum

Í fyrsta skipti er dagur helgaður feðrum í dag, sunnudaginn 12. nóvember. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka upp feðradag, að tillögu félagsmálaráðherra, hefur verið tilkynnt Almanaki Háskólans, sem hefur staðfest að nýtt dagsheiti, feðradagur, verði formlega skráð í Almanakið fyrir árið 2008.

Eflaust heyrast þær raddir að upptaka feðradags skipti engu máli í jafnréttisumræðunni, ekki frekar en að maðurinn í gönguljósinu verði kona í pilsi. Þetta hafi jafnvel aðeins þýðingu fyrir blómabúðir. En formlegar breytingar hafa mikið að segja þrátt fyrir allt, þær gefa ákveðin skilaboð til samfélagsins og bera nýjum tíðaranda vitni. Er það ekki tímanna tákn að feðradagur sé tekinn upp hér á landi í fyrsta skipti árið 2006 þegar slíkur dagur hefur verið haldinn hátíðlegur víða erlendis frá upphafi síðustu aldar?

Mæðradagur hefur verið fastur liður í tilverunni á Íslandi annan sunnudag í maí frá árinu 1934. Þá hafa börn á öllum aldri verið minnt á að þau eigi móður og að nú sé ástæða til að gera eitthvað fyrir hana. Það hefur auðvitað verið undarlegt fyrir börnin að á hverju ári rynni upp mæðradagur, en það væri aldrei nein sérstök ástæða til að minnast pabba síns. Enda voru feður lengst af í hlutverki fyrirvinnunnar, jafnvel tugi eða hundruð sjómílna frá landi, dögum eða mánuðum saman, og fylgdust lítt með því sem fram fór innan veggja heimilisins; móðirin sinnti um börnin. Eftirminnilegt er ljóð Jóns úr Vör:

Og manstu
gleði þína á miðri nóttu,
er þú vaknaðir við, að á koll þinn
var lagður vinnuharður lófi
og um vanga þinn
strokið mjúku og hlýju handarbaki.

Fóstri þinn var kominn
– og kyssti þig, er þú lagðir hendur um háls hans.
Og það var enn kul í sjóvotu yfirskegginu.
Og næsta morgun var blár steinbítur
á héluðum hlaðvarpasteini,
og sól sindraði í silfri ýsuhreisturs, –
og hamingja hins fátæka manns.

En flestir feður tóku auðvitað virkan þátt í uppeldi barna sinna, eða eins og aðstæður leyfðu, og þegar þeir voru heima voru þeir nálægir. Þeir sýndu jafnvel tilfinningar. Þannig lýsir Guðjón Friðriksson heimkomu Einars Benediktssonar árið 1887 eftir nær þriggja ára útivist í Kaupmannahöfn: “Benedikt Sveinsson tekur á móti syni sínum á bryggju í Reykjavík, faðmar hann að sér, þrýstir fast og fellir tár.”

Auðvitað er það ekki þannig að börn bíði feðradagsins til að gleðja pabba sinn eða að karlmenn verði aðeins föðurlegir þennan dag. En ber ekki að fagna öllum tilefnum sem þjappa fjölskyldum saman? Og það er ekki aðeins formið sem mótar efnið, heldur mótast það af efninu.

Kjarni málsins er sá að tímarnir hafa breyst. Karlmenn taka meiri þátt í heimilisstörfum og uppeldi barna en áður, ekki síst yngri kynslóðin. Það óraði engan fyrir því að nánast allir feður myndu nýta sér fæðingarorlof eftir að því var komið á. Sú löggjöf er ef til vill stærsta skref í þágu karlmanns sem föður sem stigið hefur verið hér á landi. Feður fá þá kærkomið tækifæri til að vera hjá börnum sínum og tengjast þeim tilfinningaböndum. Eftir því sem þau bönd eru þéttofnari, þeim mun betur halda þau. Og feður verða líklegri til að verja enn meiri tíma með börnum sínum. Ekki síður er þetta mikilvægur áfangi fyrir feður sem eiga fá tækifæri til að vera með börnum sínum, hvort sem það er vegna vinnu eða fjölskylduaðstæðna.

Það var lofsvert framtak hjá Margréti Blöndal og Inger Önnu Aikman að hafa frumkvæði að því að óska eftir því við félagsmálaráðherra að sérstakur dagur yrði helgaður feðrum hér á landi. Nú geta íslenskir pabbar hlakkað til feðradagsins. Þá verður börnunum hugsað til þeirra – og eigendum blómabúða.

www.mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0