Mikið hefur verið rætt um misrétti í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Hafa þær umræður einkum snúist um samanburð á launakjörum karla og kvenna. Nokkrir kvenskörungar hafa verið iðnir við að rifja upp og minna á hve konur hafa staðið höllum fæti hvað kaupgreiðslur og launakjör snertir og hvatt þær til samstöðu og sóknar á vinnumarkaði.
 
Sú barátta hefur vissulega skilað lofsverðum árangri sem meira hefði mátt hampa á góðum stundum en gert hefur verið, því launamunur hefur farið minnkandi ár frá ári og nú hafa lengi verið í gildi lög frá Alþingi um að konum skuli greidd sömu laun og körlum fyrir hliðstæða vinnu, þ.e. þegar framlegð kynjanna til verksins er jöfn. Þetta er stóri sigurinn í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna sem allir hljóta að gleðjast yfir.

Samt sem áður viðgengst þó ýmiss konar misrétti á Íslandi enn í dag og það róttækasta er nýlega komið til skjalanna og er, merkilegt nokk, ekki kynbundið. Hér er átt við greiðslu fæðingarorlofs til foreldra, sem er í sjálfu sér þarft og ágætt mál því að margir foreldrar eru af ýmsum ástæðum illa staddir fjárhagslega og þurfa því á samhjálp og stuðningi að halda. En það var útdeiling fæðingarorlofsins sem fór í handaskolum því að í stað þess að greiða öllum jafnt, 200.000-300.000 krónur, falla alþingismenn í þá gryfju að flækja málin og skipta þjóðinni í fylkingar, ríka og fátæka, þar sem þeir fátæku eru hýrudregnir en þeim ríku hyglað eins og þeir þurfi á sérstökum stuðningi að halda. Þetta er stórslys því að þannig hefur misréttið hlotið löggildingu. Það er ótrúlegt að svona ranglæti skuli framið í upphafi 21. aldar. Mismunurinn er slíkur að hátekjumaðurinn getur fengið allt að hálfri milljón króna í fæðingarorlof eða því nær fimmfaldar greiðslur láglaunamannsins.

Hvernig er hægt að rökstyðja slíka lagagerð? Er framlegð auðmannsins meiri til þjóðfélagsins en hins almenna launþega í þessu efni? Verður afkvæmi ríku hjónanna e.t.v. 5 sinnum þýðingarmeira fyrir Ísland en barn öryrkjanna í þorpinu? Vissulega ekki. Framlegð þeirra er sú sama: Hvert eitt barn sem fæðist er jafn verðmætt, – og þess vegna eiga allir að fá jafnt. Og reyndar eru einu rökin sem heyrst hafa fyrir þessu makalausa misrétti þau að hátekjumennirnir myndu ekki treysta sér til að taka fæðingarorlof ef jafnaðarreglan væri látin gilda. Þeir misstu þá of stóran spón úr aski sínum. Samúð löggjafans er greinilega öll með þeim. Þeir áttu fullan rétt á að taka fæðingarorlof og umgangast afkvæmi sín eins og aðrir. En það er ekki von að þeir sjái sér það fært aumingjarnir nema að við hyglum þeim dálítið. Þvílík hræsni. Það er áreiðanlegt að menn sem hafa hálfa milljón á mánuði eða meira eru sjaldan háðir því að þurfa að taka fæðingarorlof til að eiga þess kost að umgangast barnið sitt. Miklum peningum fylgja gjarnan mikil völd og þá líka tækifæri til að ráðstafa tíma sínum að vild. Það er því ástæðulaust að gera slíkum mönnum hærra undir höfði en öðrum.

Þessi hugmynd, að ganga á snið við heilbrigða skynsemi með því að mismuna mönnum með greiðslum fæðingarorlofs, hefur skapað mörg vandamál og flækjur.

Eitt er það að byggja greiðslur á tekjum fyrri ára, en það kemur sér illa fyrir ungt fólk sem litlar tekjur hefur haft á skólaárum sínum og ennfremur fyrir þá sem misst hafa af tekjum vegna veikinda. Og hvað með heimavinnandi húsmæður sem ekki hafa verið á launaskrá? Þannig ber allt að sama brunni. Og því nánar sem málið er skoðað því ljósari verða þau mistök sem hér hafa orðið. Mistök ber að leiðrétta og lögin um fæðingarorlof þarf að lagfæra við fyrsta tækifæri. Það er auðvelt ef farið er eftir formúlunni um framlegð. Forsætisráðherra og dyravörður hafa misjöfn laun enda er framlegð þeirra misjöfn. En hvað fæðingarorlof snertir eiga greiðslur til þeirra að vera jafnar því að þar er framlegðin sú sama hjá báðum.

Torfi Guðbrandsson er fv. kennari og skólastjóri.

mbl.is 31.08.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0