Elín Þorgeirsdóttir er stjórnandi Mentor-verkefnisins Vinátta sem hefur verið starfrækt í fimm ár.

Mentorverkefnið Vinátta hefur verið í gangi í fimm ár. Á þeim tíma hafa 800 nemendur á þremur skólastigum tekið þátt í því.
“Verkefnið var stofnað af Valgerði Ólafsdóttur og það hóf göngu sína í samvinnu við Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og tvo grunnskóla í Reykjavík, Austurbæjarskóla og Háteigsskóla. Hið mikilvægasta við verkefnið er að vera góð fyrirmynd fyrir börn,” segir Elín Þorgeirsdóttir, stjórnandi verkefnisins.

Hún hefur starfað að verkefninu frá upphafi og var til að byrja með umsjónarmaður 13 mentora, sem hún veitti handleiðslu.

Flestir mentoranna konur
Flestir mentoranna eru konur, eða um 75-80 prósent.
“Þetta verkefni virðist höfða meira til kvenna en karla. Það þarf að sannfæra strákana um gildi þess, meðan stelpurnar bjóða sig fram sjálfviljugar.”

Fyrirmynd verkefnisins er eiginlega frá Ísrael og hófst þar fyrir um það bil 35 árum. Þaðan barst það svo til Málmeyjar í Svíþjóð og svo hingað.

“Ég heimsótti þau í Málmey fyrir um ári síðan og svo virðist sem Ísland sé komið lengra en þau, þótt styttra sé síðan við byrjuðum. Reyndar er það nú svo að hvert land lagar verkefnið að sínum aðstæðum. Aðalmunurinn er að við höfum ekki eins mikla stéttaskiptingu og magn innflytjenda eins og Svíarnir,” segir Elín.

Flestir mentoranna eru framhaldsskólanemendur og aðstandendur verkefnisins eru að vonast til að fleiri vilji taka þátt í starfinu og að hægt sé að breiða það út um allt land.

“Þeir sem taka þátt geta tengt það félagsfræði og er það metið til þriggja eininga,” segir Elín.

Ekki úrlausn vandamála
Mentorverkefnið beinist ekki að börnum sem eiga við félagsleg eða önnur vandamál að stríða.
“Þetta hefur gefist ofboðslega vel, ég er búin að vinna við þetta í fimm ár og hef jafn brennandi áhuga fyrir þessu eins og þegar ég byrjaði,” segir Elín.

Hún segir að mentorarnir geri ýmislegt skemmtilegt með börnunum, sem venjulega eru á aldrinum 7-10 ára.

“Það er farið í bíó, göngutúr, fjöruferðir eða bara einfaldlega setið og spjallað saman,” segir Elín.

Hún segir að mentorinn eigi að vera þroskaður einstaklingur og að barnið eigi að fá óskipta athygli í að minnsta kosti þrjá tíma á viku.

“Mentorarnir eru venjulega á aldrinum 19-25 ára gamlir og aðalmálið með verkefninu er samvera, það að börnin læri jákvæða hluti og eigi góðar stundir með eldra og þroskaðra fólki. Ég held að það sé hollt fyrir börn að eiga fullorðna að sem ekki eru náskyldir þeim, fullorðna sem þau treysta og geta skemmt sér með. En aðalatriðið er sem sagt að mentorarnir séu góðar fyrirmyndir.”

Farið eftir áhugamálum
Allir á aldrinum 19-25 ára geta sótt um á þar til gerðum eyðublöðum. Verðandi mentorar þurfa að hafa þrjá meðmælendur og eru kallaðir inn til einstaklingsviðtals.
“Á haustin sendum við út eyðublöð í skólana fyrir börnin sem æskja þess að vera með í verkefninu og svo sækja foreldrarnir um fyrir þau. Foreldrarnir þurfa líka að veita ákveðnar upplýsingar um barnið. Síðan eru mentorarnir og börnin pöruð saman eftir áhugamálum til þess að sem best gangi í verkefninu,” segir Elín.

Elín segir að alvanalegt sé að börn séu of skipulögð og að þau hafi allt of mikið að gera.

“Eins er hitt að fullorðnir eru stöðugt í skipulögðu starfi og félagslífi þar sem börnin geta ekki verið með.”

Elín segir að allur gangur sé á því hversu náið sambandið milli mentors og barns verði.

“Það er líka mikilvægt að læra að kveðja og mikilvægur lærdómur bæði fyrir barnið og þann fullorðna. Mentorunum er líka kennt að kveðja börnin, en venjulega lýkur verkefninu eftir eitt skólaár, það er að segja að verkefnið stendur frá september til maí.”

Þakkar stuðninginn
Fjórar konur vinna við verkefnið. Auk Elínar eru það þær Björk Þorgeirsdóttir við Kvennaskóla Íslands sem sér um framhaldsskólastigið, Alma Oddgeirsdóttir á Akureyri sem sér um landsbyggðina og Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir sem annast grunnskólastigið.
“Við erum í tengslum við skóla í Reykjavík, Hafnarfirði, á Suðurnesjum og Akureyri, í Mosfellsbæ og á Álftanesi. Við reynum að taka inn fjóra nýja skóla á hverju ári, en það er auðvitað háð peningum,” segir Elín. Það er Velferðarsjóður barna á Íslandi sem rekur verkefnið, en hann var stofnaður árið 2000 af Íslenskri erfðagreiningu og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Markmið sjóðsins er að hlúa að hagsmunamálum og velferð barna á Íslandi.

“Við viljum gjarnan þakka öllum sem hafa verið okkur innan handar og stutt starfsemi okkar og get ég þar nefnt meðal annarra Vífilfell, SS, Nóa & Síríus og Akureyrarbæ.

Öll aðstoð sem við fáum, hvort heldur er afsláttur eða annar stuðningur, er mjög kærkomin,” segir Elín.

mbl.is Laugardaginn 7. janúar, 2006 – Blaðaukar
Morgunblaðið/Brynjar Gauti

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0