Mál nr. 325.23 05110077

Faðir (F) og  móðir (M)

 

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Þann 3. nóvember 2005 barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu kæra Daggar Pálsdóttur hrl. f.h.  F  vegna úrskurðar sýslumannsins í Kópavogi frá 16. september s.á.  Með úrskurðinum er kæranda gert að greiða M  eitt og hálft meðlag með barni aðila, frá 1. febrúar 2004 til 18 ára aldurs hennar.

 

Fyrrgreindur úrskurður sýslumannsins í Kópavogi er kærður til ráðuneytisins á grundvelli 78. gr. barnalaga nr. 76/2003 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 1. málsl. sömu greinar.

 

 

I.          Úrskurður sýslumanns og forsaga málsins

 

Í hinum kærða úrskurði og gögnum málsins kemur fram að  F og  M eigi saman barnið  og fari móðir með forsjá barnsins samkvæmt dómsátt gerðri fyrir héraðsdómi Reykjaness 19. desember 2003 en faðir greiði einfalt meðlag með henni samkvæmt ákvæði í leyfisbréfi til skilnaðar að borði og sæng frá 31. júlí 2001.

 

Móðir hafi farið þess á leit við sýslumanninn í Kópavogi í janúar 2004 að föður yrði gert að greiða henni tvöfalt meðlag með stúlkunni en faðir hafi hafnað kröfunni. Málinu hafi lyktað með úrskurði sýslumanns sem hafi verið kærður til ráðuneytisins. Ráðuneytið hafi ógilt úrskurðinn og vísað málinu til frekari gagnaöflunar og löglegrar meðferðar.

 

Fram kemur í úrskurðinum og gögnunum að móðir hafi til stuðnings kröfu sinni vísað til þess að hún hafi krafist slita á sameiginlegri forsjá 2003 m.a. vegna þess að faðir hafi þá um vorið hætt að greiða helming kostnaðar við dægradvöl, matarkostnað í skóla og helming mánaðargjalds vegna fimleikaiðkunar stúlkunnar. Móðir teldi sig eiga litla möguleika á eftirvinnu sem þjónustufulltrúi í banka. Af hálfu móður hafi því verið haldið fram að þótt ekki væri um að ræða neinar sérþarfir hjá stúlkunni dygði einfalt meðlag ekki til að standa undir helmingi framfærslukostnaðar vegna hennar. Móðirin, sem forsjárforeldri, sæi alfarið um fatakaup vegna stúlkunnar en gjafir föður til hennar væru án samráðs við móður. Móður væri ekki kunnugt um að faðir greiddi fyrir tómstundaiðkun stúlkunnar. Hún hafi sérstaklega mótmælt því að faðir þyrfti að sjá fyrir móður sinni og bent á að hann hefði ekki önnur börn á framfæri sínu. Hann hafi fengið í sinn hlut við skipti ca. 2.000.000 auk þess sem hann hefði unnið 6.6 milljónir í lottói.

 

Faðir hafi hafnað kröfu móður með vísan til þess að hann hefði ekki fjárhagslegt svigrúm til greiðslu aukins meðlags, auk þess sem hann teldi sig fullnægja framfærsluskyldu gagnvart barninu með greiðslu einfalds meðlags, því að barnið dveldi mikið hjá honum og því að hann keypti föt og aðrar nauðsynjar fyrir barnið og greiddi fyrir tómstundaiðkun. Þá hafi hann vakið á því athygli að móðir fengi barnabætur með stúlkunni þrátt fyrir að hún dveldi næstum jafnmikið hjá honum og henni. Enn fremur hafi faðir bent á að hann hefði framfærslubyrði vegna aldraðrar móður sinnar og að hann greiddi fyrir dagleg innkaup fyrir hana og önnur dagleg útgjöld, þar sem fjárráð hennar væru lítil. Faðir hafi bent á að þrátt fyrir viðmiðunartöflu ráðuneytisins beri í sérhverju máli að ákvarða fjárhæð meðlags með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum foreldra eins og komi fram í greinargerð með barnalögum. Þá hafi hann mótmælt því að hafa unnið 6.6. milljónir í lottói.

 

Síðan segir í úrskurði sýslumanns:

 

Í 1. mgr. 53. gr. barnalaga segir að foreldrum sé skylt, báðum saman og hvoru um sig, að framfæra barn sitt. Ennfremur að haga skuli framfærslu barns með hliðsjón af þörfum þess og högum foreldra. Fullnægi foreldri ekki framfærsluskyldu sinni, skv. meginreglu 1. mgr. 53. gr. barnalaga, getur sýslumaður úrskurðað það til greiðslu framfærslueyris, sbr. 1. mgr. 57. gr. barnalaga. Við ákvörðun á fjárhæð framfærslueyris skal taka mið af þörfum barnsins og fjárhagsaðstöðu og öðrum högum foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra, sbr. 2. mgr. 57. gr.

 

Í 3. mgr. 57. gr. barnalaga segir þó að aldrei megi í meðlagsúrskurði ákveða lægri meðlagsgreiðslu með barni en nemi fjárhæð barnalífeyris, eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma skv. lögum um almannatryggingar. Þetta þýðir m.ö.o. að öllum meðlagsgreiðendum er gert að greiða a.m.k. lágmarksmeðlag með barni í samræmi við 57. gr. barnalaga, en meðlagsgreiðanda ber að greiða aukið meðlag með barni, hafi hann fjárhagslegt bolmagn til þess og að teknu tilliti til atvika máls að öllu leyti. 

 

Í 1. mgr. 64. gr. laganna segir að sýslumaður geti breytt staðfestum samningi um meðlag eða dómsátt, sbr. 55. gr. ef rökstudd krafa kemur fram um það, ef

1)   aðstæður hafa breyst verulega,

2)      samningur eða dómsátt gengur í berhögg við þarfir barns eða,

3)      samningur eða dómsátt er ekki í samræmi við fjárhagsstöðu foreldra.

 

Nægilegt er að einu skilyrðanna sé fullnægt sbr. orðið “eða”.

 

Þá segir í 65. gr. að sýslumaður getur breytt meðlagsúrskurði stjórnvalds og ákvörðun um meðlag, sem tekin hefur verið með dómi, ef rökstudd krafa kemur fram um það, enda sé sýnt fram á að hagir foreldra eða barns hafi breyst.

 

Eins og áður greinir ber meðlagsgreiðanda skv. meginreglu 1. mgr. 53. gr. barnalaga, sbr. 2. mgr. 57. gr., að greiða meðlag í samræmi við fjárhagsstöðu sína ofl., þ.e. viðkomandi ber að greiða aukið meðlag með barni hafi hann til þess fjárhagslegt bolmagn og leiði ekki annað af atvikum máls að öðru leyti. Greiði meðlagsgreiðandi lágmarksmeðlag með barni, þegar efni standa til að hann greiði aukið meðlag, er almennt litið svo á að samningur um lágmarksmeðlag gangi í berhögg við þarfir barnsins, enda verður almennt að telja að ákvörðun um aukið meðlag sé barni hagfelldari en ákvörðun um lágmarksmeðlag.

 

Komi fram krafa um aukið meðlag með barni metur sýslumaður á grundvelli framlagðra gagna um fjárhagslega og félagslega stöðu aðila, hvort réttmætt sé að gera meðlagsgreiðanda að greiða meðlag umfram hið lögbundna lágmarksmeðlag. Í þessu skyni er hin almenna regla sú að fundið er út hvaða heildartekjur viðkomandi hefur að jafnaði á mánuði og er þá miðað við framreiknaðar tekjur síðustu tveggja ára og tekjur á yfirstandandi ári. Við ákvörðun um meðlagsfjárhæð er almennt lítið tillit tekið til eigna og skulda viðkomandi en slíkt kemur þó einna helst til álita ef eignir eru umtalsverðar eða skuldir óvenjumiklar. Á hinn bóginn er litið til þess hvort viðkomandi hefur fyrir öðrum börnum á meðlagsskyldum aldri að sjá. Almenna reglan er þá sú að til frádráttar heildartekjum viðkomandi meðlagsgreiðanda koma framlög er hann greiðir með öðrum börnum og samsvarandi fjárhæð vegna eigin barna undir 18 ára aldri er hann hefur á framfæri sínu. Félagslegar aðstæður aðila koma allar að öðru leyti til skoðunar.

 

Dómsmálaráðuneytið sendir sýslumönnum árlega viðmiðunartekjur ráðuneytisins til leiðbeiningar við ákvarðanatöku í málum vegna krafna um aukið meðlag. Í leiðbeiningum frá 27. maí 2005 kemur fram að meðlagsgreiðandi verður að hafa u.þ.b. 317.000.- kr. í heildartekjur á mánuði til að geta greitt tvöfalt meðlag með einu barni, u.þ.b. 288.00.- kr. til að geta greitt lágmarksmeðlag og 75% af lágmarksmeðlagi að auki, u.þ.b. 262.000.- til að geta greitt eitt og hálft lágmarksmeðlag, með einu barni. En auk þess er sérstaklega tekið fram í bréfi ráðuneytisins að tölurnar séu til leiðbeiningar, þar sem eftir sem áður beri að ákveða fjárhæð meðlags með hliðsjón af þörfum barns og öðrum högum beggja foreldra, þ. á. m. aflahæfi þeirra.

 

__________________

 

Í máli þessu liggur fyrir að maðurinn greiðir einfalt meðlag með stúlkunni samkvæmt staðfestingu sýslumannsins í Kópavogi, dags. 31. júlí 2001.  Krafa konunnar um tvöfalt meðlag er því krafa um breytingu á fyrri samningi um meðlag og verður því að kanna hvort a.m.k. einu skilyrði 1. mgr. 64. gr. er fullnægt, þ.e. að aðstæður hafi breyst verulega, samningur gangi í berhögg við þarfir barns eða samningur sé ekki í samræmi við fjárhagsstöðu foreldra.

 

Ekki verður séð af gögnum málsins að maðurinn hafi orðið fyrir tekjumissi er hann missti vinnuna um mitt síðasta ár.  Þau laun sem hann nú hefur á hinum nýja vinnustað eru sambærileg þeim sem hann áður var með. Það er því mat sýslumanns við útreikning tekna mannsins skuli litið til síðustu tveggja ára, auk þeirra tekna sem hann hefur á þessu ári.   Tekið er þó sérstakt tillit til þess að manninum var greiddur þriggja mánaða uppsagnarfrestur á árinu 2004, þrátt fyrir að hafa fengið vinnu á því tímabili.  Samkvæmt þessu hefur maðurinn í meðalmánaðarlaun, uppreiknuð miðað við vísitölu neysluverðs, sem er í dag 243,2 stig, um það bil kr. 285.000.  Konan á hinn bóginn hefur um það bil 260.000 kr. í meðalmánaðarlaun.

 

Ljóst er, miðað við ofangreinda viðmiðunartöflu dómsmálaráðuneytisins, að maðurinn á að vera í stakk búinn fjárhagslega til að greiða aukið meðlag, en hann hefur ekki fyrir öðrum börnum að sjá.

 

Á hinn bóginn verður ekki framhjá því litið við ákvörðun fjárhæðar hins aukna meðlags að stúlkan dvelur hjá manninum í umgengni nokkuð umfram hið hefðbundna.   En hún er hjá honum, eins og báðir aðilar hafa bent á, að jafnaði 12 daga og 10 nætur í mánuði.  Þessi viðvera stúlkunnar hjá manninum hlýtur að létta undir framfærslukostnað konunnar, því er bæði eðlilegt og sanngjarnt að taka tillit til þess við ákvörðun meðlags.  Að öðru leyti getur sýslumaðurinn í Kópavogi ekki fallist á sjónarmið mannsins um að hann fullnægi að öllu leyti framfærsluskyldu sinni gagnvart stúlkunni.

 

Með vísun til alls framangreinds, tilvitnaðra lagaákvæða og leiðbeiningarreglna dómsmálaráðuneytisins verður krafa konunnar um aukið meðlag tekin til greina að hluta eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

 

Úrskurðarorð:

 

F, greiði M, meðlag með dóturinni til viðbótar því lágmarksmeðlagi sem hann nú greiðir. Fjárhæð viðbótarmeðlagsins skal nema 50% af einföldum barnalífeyri eins og hann er ákveðinn samkvæmt lögum um almannatryggingar hverju sinni. Viðbótarmeðlagið skal greiðast frá 1. febrúar 2004 til 18 ára aldurs stúlkunnar og skal greiðast mánaðarlega fyrirfram, fyrsta hvers mánaðar. Áfallið meðlag greiðist eigi síðar en 1. desember 2005.“

 

 

II.                Kröfur og rök í kærumálinu og meðferð þess í ráðuneytinu

 

Í kærubréfi lögmanns föður til ráðuneytisins er þess krafist að úrskurður sýslumanns verði felldur úr gildi þar sem skilyrði 1. mgr. 64. gr. barnalaga hafi ekki verið uppfyllt. Þá er „afturvirkni“ úrskurðarins sérstaklega mótmælt. Í kærunni er forsaga málsins fyrst reifuð en síðan segir að meginmálsástæða föður sé að ekki hafi verið heimilt að breyta „staðfestum samningi aðila (þ.e. ákvæði skilnaðarsamnings aðila um meðlag) að teknu tilliti til niðurstöðu dómsmáls milli aðila um forsjá dótturinnar, þar sem ekkert af skilyrðum 1. mgr. 64. gr. barnalaga nr. 76/2003 er uppfyllt.“  Ítrekað er að umgengni sé rúm og að faðir telji sig fæða og klæða dóttur sína að nánast öllu leyti. Hann kaupi fatnað erlendis og í ferðum sínum til Bandaríkjanna og taki þátt í kostnaði vegna áhugamála stúlkunnar og hafi t.d. greitt fyrir hjól, línuskauta, fatnað vegna íþróttaiðkunar o.fl. Þá er vísað til þess að það sé nánast jafnræði með aðilum hvað tekjur varði en þó reiknist sýslumanni til að faðir hafi örlítið hærri tekjur en móðir, með því að reikna sérstaklega inn í tekjur föður að hann hafi gengið greiddan uppsagnarfrest eftir uppsögn en hann hafi byrjað að starfa í nýrri vinnu í frestinum. Í kærunni segir að laun föður séu aðeins rétt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem ráðuneytið setji varðandi 50% viðbótarmeðlag og því sé sérstök ástæða til að huga að öðrum atvikum málsins og er í því sambandi áréttað hve umgengni er mikil og að hún geti ekki annað en haft áhrif á framfærsluskyldu hans og framfærslubyrði móður. Ekki sé hægt að vísa til b-liðar 1. mgr. 64. gr. og halda því fram að samningurinn gangi í berhögg við þarfir barnsins þar sem faðir uppfylli framfærsluskyldu sína gagnvart henni og rúmlega það, þá sé jafnræði með aðilum hvað varðar tekjur og aðstæður aðila hafi í stórum dráttum verið óbreyttar frá skilnaðarsamningi og gerð dómsáttarinnar.

 

Að lokum er þess krafist að ráðuneytið taki afstöðu til þess að viðbótarmeðlag skuli greitt frá 1. febrúar 2004. Sú afturvirkni sé ekki sértaklega rökstudd í úrskurði sýslumanns en væntanlega sé verið að miða við þann tíma er móðir setti upphaflega fram kröfu sína. Málsmeðferðin hafi á hinn bóginn verið löng og faðir telji að ekki sé lagaheimild til að úrskurða hann til greiðslu viðbótarmeðlags svo langt aftur í tímann. Miða eigi við það tímamark er krafan kom aftur til sýslumanns eftir úrskurð ráðuneytisins þann 26. maí 2005, því þá teljist sú krafa hafa verið sett fram sem leyst var úr með úrskurði sýslumanns 16. september 2005.

 

Móður var kynnt kæra föður með ábyrgðarbréfi ráðuneytisins dags. 1. desember 2005 og henni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum í tilefni kærunnar. Ráðuneytinu bárust viðbótargögn frá lögmanni föður þann 19. janúar 2006, þ.e. yfirlit yfir útgjöld sem faðir kveðst hafa staðið straum af vegna framfærslu dóttur sinnar á árinu 2005, samtals kr. 33.190. Þessi gögn voru kynnt móður 4. júlí og henni tilkynnt að úrskurður yrði kveðinn upp eigi síðar en 13. s.m. Í bréfi ráðuneytisins var tekið fram að engar athugasemdir hefðu komið fram af hálfu móður vegna kæru föður á fyrri stigum málsins í ráðuneytinu. Þann 10. júlí sendi lögmaður móður, Guðmundína Ragnarsdóttir, ráðuneytinu tölvupóst og kvað kollega sinn hafa afhent konu í afgreiðslu ráðuneytisins athugasemdir sínar vegna málsins þann 10. janúar og að bréfið hlyti að hafa glatast í ráðuneytinu.  Með sama tölvupósti sendi lögmaðurinn ráðuneytinu athugasemdir, dags. 9. janúar 2006, þar sem þess er krafist að úrskurður sýslumanns verði staðfestur, m.a. með vísan til kröfugerðar  við meðferð málsins á embætti sýslumanns. Þá eru í 8 liðum gerðar athugasemdir við kæru föður en ráðuneytið telur ekki ástæðu til að reifa þær sérstaklega. Athugasemdirnar voru kynntar lögmanni föður þann 14. júlí sl. með símbréfi og í kjölfarið mætti hann til viðtals í ráðuneytinu þar sem hann m.a. mótmælti greinargerð lögmanns móður og ítrekaði að hann teldi sig fullnægja framfærsluskyldu sinni gagnvart barni sínu með mikilli umgengni og greiðslu ýmiss kostnaðar sem félli til vegna framfærslu barnsins.

 

Þann 1. desember 2005 var sýslumanninum í Kópavogi ritað bréf þar sem þess var farið á leit að ráðuneytinu yrðu send öll gögn málsins og ennfremur að embættið gerði grein fyrir athugasemdum sínum, ef einhverjar væru.  Gögn málsins bárust ráðuneytinu þann 21. s.m., án athugasemda af hálfu sýslumanns.


 

III.             Niðurstaða ráðuneytisins

 

Ráðuneytið lítur svo á að af hálfu föður sé þess aðallega krafist að úrskurði sýslumanns verði breytt og kröfu móður um aukið meðlag úr hans hendi verði hafnað en til vara að upphafstími meðlags verði ákveðinn 26. maí 2005.

 

Málið var ekki kært af hálfu móður en í athugasemdum hennar sem ráðuneytinu bárust 10. júlí er óskað eftir að úrskurðurinn verði staðfestur. Ráðuneytið tekur fram vegna fullyrðinga lögmanns hennar um að athugasemdirnar hafi verið afhentar ráðuneytinu á sínum tíma að þess sjást engin merki í ráðuneytinu.

 

Í hinum kærða úrskurði er skilmerkilega gerð grein fyrir þeim ákvæðum barnalaga og sjónarmiðum sem eiga við í málinu. Ráðuneytið vísar til þess sem þar kemur fram.

 

Eins og að framan greinir er meginmálsástæða föður sú að ekki hafi verið heimilt að breyta staðfestum samningi aðila um meðlag þar sem skilyrðum 64. gr. barnalaga hafi ekki verið fullnægt og í því sambandi er skírskotað til ákvæða skilnaðarsamnings aðila um meðlag, þar sem fram kemur að hann eigi að greiða einfalt meðlag með dóttur sinni auk helmings leikskólagjalda. Af þessu tilefni tekur ráðuneytið fram samningar um meðlag eru ekki gildir í skilningi barnalaga nema þeir séu staðfestir af sýslumanni. Við skilnað aðila staðfesti sýslumaður samning þeirra um einfalt meðlag eins og kemur fram í skilnaðarleyfisbréfinu. Við þann samning ber því að miða þegar metið er hvort skilyrði 1. mgr. 64. gr. séu uppfyllt.

 

Eins og kemur fram hér að framan var krafa móður um tvöfalt meðlag sett fram í janúar 2004 en henni hafnað með úrskurði sýslumanns 2. júlí s.á., að því er virðist alfarið með vísun til þess að faðir væri orðinn atvinnulaus. Móðir kærði úrskurðinn til ráðuneytisins með skírskotun til þess að andmælaréttar stjórnsýslulaga hefði ekki verið gætt við meðferð málsins á embætti sýslumanns og þess að faðir væri þegar farinn að starfa á öðrum vinnustað. Ráðuneytið ógilti úrskurðinn í kjölfarið og vísaði málinu til sýslumanns á ný til löglegrar meðferðar. Að lokinni frekari gagnaöflun komst sýslumaður að þeirri niðurstöðu að atvinnumissir föður í stuttan tíma sumarið 2004 hefði ekki haft afgerandi áhrif á tekjur hans og að hann hefði bolmagn til þess að greiða aukið meðlag með dóttur sinni. Við mat á fjárhagsstöðu föður studdist sýslumaður að meginstefnu til við meginregluna um að miða mat á greiðslugetu foreldris við tekjur viðkomandi undanfarandi tvö til þrjú ár en hann tók engu að síður tillit til þess við ákvörðun meðlagsfjárhæðarinnar að tekjur 2004 kynnu að hafa verið hærri en ella vegna þess að faðir fékk greidd laun í uppsagnarfresti en hóf störf á nýjum stað áður en þær greiðslur hættu.

 

Samkvæmt þeim gögnum sem lágu fyrir við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar í september 2005 voru framreiknaðar skattskyldar heildartekjur föður árið 2003 kr. 3.405.795,  árið 2004 alls kr. 3.974.262 og skattskyldar tekjur fyrstu fimm mánuði ársins 2005, samtals kr. 1.346.210, sbr. launaseðil frá Baader Ísland ehf. fyrir maímánuð 2005.  Mánaðarlegar meðaltekjur föður samkvæmt þessu eru kr. 300.905.

 

Í september 2005 var í gildi tekjuviðmiðunartafla ráðuneytisins frá maí s.á. Samkvæmt henni þurfti meðlagsgreiðandi að hafa u.þ.b. 317.000.- kr. í heildartekjur á mánuði til að geta greitt tvöfalt meðlag með einu barni, u.þ.b. 288.00.- kr. til að geta greitt lágmarksmeðlag og 75% af lágmarksmeðlagi að auki, og u.þ.b. 262.000.- til að geta greitt eitt og hálft lágmarksmeðlag með einu barni.

 

Samkvæmt þessu er ljóst að faðir hefur samkvæmt verklagsreglum ráðuneytisins bolmagn til þess að greiða einfalt meðlag og 75% af einföldu meðlagi til viðbótar. Sýslumaður ákvað á hinn bóginn að faðir skyldi greiða eitt og hálft meðlag með dóttur sinni og við þá ákvörðun tók hann m.a. tillit til rúmrar umgengni feðginanna. Vegna þessa tekur ráðuneytið fram að umgengni, þótt rúm sé, hefur almennt ekki áhrif á ákvörðun meðlagsfjárhæðar þegar forsjá er í höndum annars foreldris enda verður ekki talið að umgengni breyti þeim lágmarks og almennt fasta kostnaði sem forsjárforeldri þarf að bera. Aðstæður í máli þessu eru ekki þess eðlis að þær þyki eiga leiða til frávika frá þessu meginsjónarmiði að mati ráðuneytisins. Það kemur þó ekki til álita að hrófla við meðlagsfjárhæðinni til hækkunar þegar af þeirri ástæðu að móðir kærði ekki úrskurð sýslumanns.

 

Eins og fram hefur komið tók sýslumaður sértakt tillit til þess við útreikning tekna föður að tekjur hans voru ívíð hærri 2004 en þær hefðu ella orðið vegna tvöfaldra launa í uppsagnarfresti. Því er ekki rétt, sem haldið er fram í kæru föður, að ákvörðun um að föður bæri að greiða eitt og hálft meðlag hafi grundvallast á því að hann hefði notið tvöfaldra launa.

 

Þá tekur ráðuneytið fram, vegna staðhæfinga föður um að hann standi straum af ýmsum kostnaði vegna framfærslu barnsins umfram meðlagsgreiðslurnar, að forsjálausu foreldri getur að sjálfsögðu verið heimilt að stofna til útgjalda vegna framfærslu barns síns án samráðs við forsjárforeldri en slík útgjöld geta almennt ekki komið í staðinn fyrir meðlagsgreiðslur eða leitt til þess – gegn andmælum forsjárforeldris – að vikið verði frá sjónarmiðinu um að meðlagsfjárhæð eigi að ákvarðast af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum foreldra.

 

Með hliðsjón af öllu framanrituðu er það mat ráðuneytisins að sýslumanni hafi verið heimilt að breyta samningi foreldranna um einfalt meðlag þar sem hann hafi gengið í berhögg við þarfir stúlkunnar, sbr. nánar hinn kærða úrskurð, og að skilyrðum b liðar 1. mgr. 64. gr. barnalaga hafi verið fullnægt.

 

Tekið er fram að af þeim upplýsingum sem lágu fyrir hjá sýslumanni við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar um tekjur föður verður ráðið að tekjur hans hafi lækkað við að skipta um starf.  Gögn um tekjur á hinum nýja vinnustað bera þó með sér að hann hafi bolmagn til greiðslu eins og hálfs meðlags en þær ná aðeins yfir fimm mánaða tímabil. Ráðuneytið vekur athygli á að heimilt er að krefjast endurskoðunar á úrskurði þessum breytist hagir foreldra eða barns.

 

Að lokum er tekið fram vegna kröfu föður um að miðað verði við að krafa móður hafi verið sett fram í maí 2005 við uppkvaðningu ógildingarúrskurðar ráðuneytisins að við ógildinguna var málinu vísað til sýslumanns til löglegrar meðferðar. Ekki hafði verið staðið rétt að úrskurði sýslumanns og er ekki hægt að líta öðru vísi á en að um eina samfellda meðferð hafi verið að ræða. Það þykja því ekki rök til annars en að miða upphaf meðlagsgreiðslnanna við 1. næsta mánaðar eftir að krafan var sett fram svo sem venja er til.

 

Með vísun til alls framangreinds, forsendna hins kærða úrskurðar, eftir því sem við á, og tilvitnaðra lagaákvæða verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

_________________________

 

Úrskurður þessi er undirritaður í tveimur samhljóða eintökum, einu fyrir hvorn aðila, og sendur í ábyrgðarbréfum, sbr. 77. gr. barnalaga.

 

 

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 8. ágúst 2006

 

 

Fyrir hönd ráðherra

 

 

 

Haukur Guðmundsson

/    

 

Jóhanna Gunnarsdóttir

 

 

 

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0