Gísli Gíslason fjallar um meðlagsgreiðslur og forsjárlausa foreldra: “Vandi meðlagsgreiðenda er mikill og full þörf á úrbótum.” Fyrir skömmu var á hinu háa Alþingi fjallað um bága stöðu meðlagsgreiðenda. Þetta virtist koma þingmönnum í opna skjöldu. Það er gott ef þingheimur opnar augun fyrir þessum vanda og gerir úrbætur.

Framfærsla, meðlag og aðrar greiðslur

Samkvæmt Barnalögum er foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, skylt að framfæra barni sínu. Einnig segir að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sitt sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Við skilnað hefur barnið lögheimili hjá öðru foreldri en býr einnig í lengri eða skemmri tíma hjá hinu. Báðir foreldrar þurfa því að kosta húsnæði fyrir sig og barn sitt og er þar enginn munur á þó barn dvelji skemur á öðrum staðnum.

Á Íslandi eru um 12.000 meðlagsgreiðendur, af þeim eru um 53% í vanskilum og um 4.000 manns í alvarlegum greiðsluvanda. Þetta er ógnvænlega hátt hlutfall og segir sig sjálft að hér er eitthvað að.

Mánaðarlegt lágmarksmeðlag á Íslandi er 16.586 kr. með einu barni. Í Danmörku er meðlag 1.018 danskar kr. eða sem svarar 11.454 íslenskum kr. Í Svíþjóð er meðlag 1.173 sænskar kr. á mánuði með barni eða um 10.658 íslenskar kr. Lágmarksmeðlag í Svíþjóð og Danmörku er því um 65%-70% af því sem íslenskir meðlagsgreiðendur þurfa að greiða. Í báðum löndum er hægt að fá þessa upphæð lækkaða ef greiðandi hefur lakar tekjur. Slíkt er ekki hægt hér á landi.

Í Noregi skiptist framfærslukostnaður barna eftir tekjum foreldra að teknu tilliti til greiðslu barnabóta og umfangs umgengni. Við háar tekjur forsjárforeldris og lágar tekjur forsjárlausa foreldrisins verða mánaðarlegar meðlagsgreiðslur í Noregi mun lægri en á Íslandi og geta jafnvel verið felldar niður. Í Bretlandi eru meðlagsgreiðslur hlutfall af ráðstöfunarlaunum forsjárlausra að teknu tilliti til umgengni. Í Kanada er það svipað. Í Bandaríkjunum er reglur mismunandi eftir fylkjum en almennt verður meðlag mun lægra en hér á landi ef greiðslugeta hins forsjárlausa er veik. Þar er einnig tekið tillit til tekna forsjáraðilans, umfang umgengni, og kostnað við umgengni. Í öllum þessum nágrannalöndum okkar eru lágmarksmeðlög þannig mun lægri en hér á landi.

Hinn forsjárlausi greiðir lágmarksmeðlag óháð hve mikil umgengni á sér stað. Ef forsjárlaus hefur sæmileg laun þá er auðvelt að úrskurða viðkomandi í aukin meðlög og er þá nær eingöngu horft á heildarlaunatölu meðlagsgreiðanda. Að auki má úrskurða forsjárlaust foreldri til að greiðslu vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar barns. Það er því auðvelt fyrir forsjárforeldrið að fá auknar greiðslur frá forsjárlausa foreldrinu.

Ef staðan er aftur á móti þannig að lögheimili forsjáraðilans er með mjög há laun og forsjárlausi aðilinn með lág laun, þá hefur viðkomandi engin tök á að sækja um lækkun meðlagsgreiðslna.

Forsjárforeldri getur flutt með barn innanlands eða jafnvel til útlanda. Forsjárlaust foreldri hefur nánast ekkert um það að segja en ber allan kostnað vegna hugsanlegrar umgengni. Félag ábyrgra feðra veit dæmi þess að feður hafa hætt að greiða meðlög til að getað kostað börn sín heim frá útlöndum.

Forsjárforeldrar geta hamlað umgengni í skemmri eða jafnvel lengri tíma. Úrræði eru fá og fórnarlömbin eru börnin. Fái forsjárlausa foreldrið enga umgengni, þá er sama framfærsluskylda. Fái foreldrið ríka umgengni og barnið dvelst stóran hluta úr ári hjá því, þá hefur það engin áhrif til lækkunar á meðlagsgreiðslum.

Staða forsjárlausa gagnvart ríkinu

Einhleypt forsjárlaust foreldri, með eða án sameiginlegrar forsjár, flokkast skattalega sem barnlaus einstaklingur. Forsjárlausir njóta þannig ekki sömu vaxtabóta, húsaleigubóta, mæðralauna eða barnabóta eins og einstæðir foreldrar. Forsjárlausir foreldrar hafa eftir sem áður sömu framfærsluskyldu gagnvart börnum sínum. Það má færa sterk rök fyrir því að þetta sé stjórnarskrárbundið brot, þar sem að einum hópi framfærenda, þ.e. forsjárlausum, er mismunað gróflega með tilliti til ofangreindra þátta samanborið við annan hóp framfærenda, þ.e. forsjárforeldra.

Það er ánægjulegt að Alþingi skuli opna augun fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem margir meðlagsgreiðendur eru í. Það er full ástæða til að skora á stjórnvöld að skilgreina forsjárlausa foreldra eins og einstæða foreldra í skattalegu tilliti og með tilliti til opinberra bóta. Báðir foreldrar hafa nákvæmlega sömu framfærsluskyldu og ættu því að hafa nákvæmlega sömu stöðu gagnvart hinu opinbera. Slíkt myndi bæta stöðu margra forsjárlausra foreldra. Bætt staða þeirra bætir sjálfsmynd þeirra og verða þeir þ.a.l. betri fyrirmyndir barna sinna. Slíku er ekki vanþörf á fyrir börn, sem mörg hver hafa brotna sjálfsmynd þar sem “mamma og pabbi” búa ekki saman.

Það er einnig geysilega mikilvægt að endurskoða fyrirkomulag meðlags, þar sem umfang umgengni, ferðakostnaður og tekjur beggja aðila hafa áhrif á upphæð meðlagsgreiðslna. Núverandi kerfi siglir í strand.

Höfundur er ritari Félags ábyrgra feðra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0