Fréttatilkynning

Félag um foreldrajafnrétti vill koma eftirfarandi á framfæri í tengslum við fréttir frá Innheimtustofnun sveitarfélaga um hertar innheimtuaðgerðir.

Félag um foreldrajafnrétti vill árétta að meðlagsgreiðendur eru foreldrar sem flestir hverjir annast börn sín með umönnun og framfærslu með beinum hætti auk meðlagsgreiðslna.

Það sem aðgreinir þessa foreldra frá öðrum foreldrum er að lögheimili barna er ekki skráð á heimili þeirra. Þannig njóta heimili þeirra ekki opinbers stuðnings eins og aðrar barnafjölskyldur gera auk þess sem Hagstofa Íslands heldur ekki utan um hagtölur þessara barnafjölskyldna.

Félag um foreldrajafnrétti skorar á stjórnvöld að taka upp tvöfalda búsetu barns svo koma megi til móts við þarfir beggja heimila barns þegar foreldrar búa ekki saman eins og gert er í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og víðar.

Félagið bendir á BA verkefni um framfærsluskyldur foreldra sem ekki búa saman og opinberan stuðning við barnafjölskyldur þar sem niðurstöður eru afgerandi:

Opinber stuðningur við barnafjölskyldur þegar foreldrar búa ekki saman miðast fyrst og fremst við svokallaða fyrirvinnuskipan þar sem konur bera ábyrgð á umönnun barna og karlar bera ábyrgð á framfærslu.

Lög og reglur um opinberan stuðning við barnafjölskyldur eru því í ósamræmi við megin áherslur hjúskapar- og barnaréttar og þingsályktunnar um fjölskyldustefnu sem leggur áherslu á ábyrgð beggja foreldra á umönnun og framfærslu barna.

Niðurstöðurnar sýna ennfremur að ákveðin hópur umgengnisforeldra hefur ekki möguleika á að afla tekna sem duga til að mæta framfærslukostnaði samkvæmt dæmigerðu neysluviðmiði Velferðarráðuneytis.

Verkefnið, sem unnið er af formanni félagsins, er að finna hér en þar er að finna áhugaverðar og gagnlegar upplýsingar um þá fjárhagslegu stöðu sem foreldrar eru settir í þegar þeir búa ekki saman. http://hdl.handle.net/1946/11629

Nauðsynlegt er að Hagstofa Íslands haldi utan um hagtölur fyrir barnafjölskyldur þar sem börn eru ekki með skráð lögheimili.

Velferðarvaktin hefur sett fram tillögur um að sérstaklega verði komið til móts við einstæða foreldra og efnalitlar fjölskyldur svo og að miðlægum gagnagrunni verði komið upp til að halda utan um fjárhagsstöðu heimila. Í því sambandi bendir velferðarvaktin á að einstæðir barnlausir karlmenn voru í vanskilum í 74% tilfella árið 2010 sem er mun meira hlutfall en hjá konum. Einstæðir barnlausir karlar geta verið feður sem ekki deila lögheimili með börnum sínum og greiða með þeim meðlag eins og lesa má út úr rannsókn Hagstofu Íslands um tekjur og efnahag barnafjölskyldna.

Í janúar 2008 voru tæplega 8.000 feður með börn yngri en 18 ára skráðir sem einhleypir barnlausir karlmenn. Konur í sömu stöðu voru um 500 en þessir tveir hópar foreldra voru verst staddir fjárhagslega af þeim foreldrum sem skoðaðir voru í rannsókn Hagstofu Íslands sem gerð var sérstaklega fyrir nefnd um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum.

Forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga vísar til Noregs varðandi víðtækari heimildir til skuldajöfnunar í bótakerfinu en lætur hjá líða að nefna þá staðreynd að meðlagsgreiðendur í Noregi fá í mörgum tilfellum barnabætur með þeim börnum sem þeir greiða meðlag með, auk þess sem meðlag í Noregi tekur ríkt tillit til umgengni.

Fyrir hönd Félags um foreldrajafnrétti

Heimir Hilmarsson

formaður

http://www.facebook.com/Foreldrajafnretti

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0