Foreldrum ber skylda til að framfæra börn sín. Þessi skylda er ótvíræð samkvæmt íslenskum lögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Félag ábyrgra feðra telur enga skyldu foreldra jafn sjálfsagða.

Framfærslukostnaður er reiknaður út af ýmsum aðilum í landinu. Hagstofa Íslands gerði neyslukönnun 1995 sem uppfærð til vísitölu í feb. 2003 virðist reikna kr. 107.000 á mánuði sem meðalframfærslukostnað barns. Við greiðslumat vegna íbúðakaupa miðar Íbúðalánasjóður við tölur frá Ráðgjafaþjónustu fyrir heimili sem reyndar hefur reiknað framfærslukostnað á grundvelli talna úr fyrrnefndri neyslukönnun Hagstofunnar.

Engu að síður er framfærslukostnaður eins barns skv. Íbúðalánasjóði mun minni en könnunin virðist gefa, eða um kr. 21.000 á mánuði. Hér á eftir er miðað við tölur Íbúðalánasjóðs. Hér erum við eingöngu að tala um framfærslukostnað barna, ekki fullorðinna. Meðlag dugir því fyrir 74% af framfærslukostnaði barns (kr. 15.558 sem hlutfall af kr. 21.000) skv. tölum Íbúðalánasjóðs. Forsjárlaust foreldri sem gegnir umgengnisskyldu sinni og ábyrgð með því að hafa börn sín hjá sér í lágmarksumgengni (t.d. skv. stefnu Félags ábyrgra feðra) og greiðir meðlag, leggur því af mörkum meira en sem nemur helmingi framfærslukostnaðar.

Meðlag er hins vegar oft talið eiga að duga fyrir helmingi alls kostnaðar við uppeldi barna. Félag ábyrgra feðra tekur ekki afstöðu til þess hvort meðlag eins og Tryggingastofnun ríkisins reiknar það sé eðlilegt eða ekki. Núna í janúar 2004 er slíkt meðlag kr. 15.558 á mánuði. Þetta meðlag er hugsað sem eðlilegt framlag forsjárlauss foreldris til almennrar framfærslu barnsins. Þá er ekki tekið tillit til ýmiss kostnaðar sem telst annað hvort sérstakur vegna aðstæðna eins og fermingar eða vegna þess að barnið er t.d. í tónlistarskóla eða þarf sérkennslu við. Tónlistarnám, íþróttaiðkun og venjulegar tannlækningar falla undir meðlagsgreiðslur. Meðlag eru hins vegar ekki hugsað til greiðslu kostnaðar vegna fermingar, gleraugna, tannréttinga og slíks. Sjá „Sérstakar greiðslur“ vegna slíkra greiðslna.

Í greinargerð með frumvarpi til nýrra barnalaga (sem tóku gildi 1. nóvember 2003) er augljóst að meðlag á að duga fyrir almennri framfærslu barns, enda segir þar um 60. gr. (sem kemur í stað 15. gr. gömlu laganna frá 1992) sem fjallar um sérstakar greiðslur eins og fermingu, gleraugu, tannréttingar og slíkt:

„reglubundnum meðlagsgreiðslum með barni er ætlað að standa straum af almennri framfærslu þess. Meðal þess sem rétt er að telja almenna framfærslu má nefna kostnað vegna tónlistarnáms barns eða íþróttaiðkunar svo og kostnað vegna almennra tannviðgerða. Kostnaður vegna tannviðgerða sem væru sérstaks eðlis mundi á hinn bóginn geta fallið undir ákvæðið, auk kostnaðar vegna sérkennslu vegna sérstakra námserfiðleika hjá barni o.s.frv.“ (bls. 81 í frumvarpinu).

Af þessu er ljóst að löggjafinn telur að forsjárlausa foreldrið fullnægi framfærsluskyldu sinni með greiðslu meðlags.

Almenna reglan er hins vegar sú að skipta til helminga milli foreldra þeim kostnaði sem fellur undir ofangreint ákvæði laganna, t.d. vegna gleraugna, sérkennslu eða námserfiðleika. Sjá þó „Sérstakar greiðslur“ vegna annarra greiðslna.

Forsjárforeldri (oftast mæður) beita gjarnan þeirri aðferð að hóta umgengnistálmun ef forsjárlausa foreldrið (faðirinn) kaupi ekki þennan eða hinn hlutinn (föt, leikföng, skóladót) eða borgi ekki þennan kostnað eða hinn (t.d. öll leikskólagjöldin, gleraugu og þess háttar). Þessi hótun er augljóst ofbeldi gagnvart föðurnum – og sem föðursvipting ekki síður gagnvart barninu – en auk þess er þetta beinlínis lögbrot því forsjárforeldrið (móðirin) á enga lögmæta kröfu um að faðirinn/meðlagsgreiðandinn greiði það sem þarna er krafist.

Af þessum sökum er ráðlegt að halda bókhald yfir það sem keypt er handa barninu, t.d. föt, skóladót, leikföng og slíkt. Því bókhaldi er ætlað að mati Félags ábyrgra feðra að sýna hversu vel forsjárlausa foreldrið sinnir ábyrgð sinni og skyldum gagnvart barninu. Sumum finnst að með slíku bókhaldi séu þeir að telja eftir sér að kaupa á barnið eða fyrir það. Ef samskipti foreldranna ganga eðlilega og umgengni er ekki tálmuð eða slíkar kröfur settar fram eða í þessu samhengi ógnunar þá er engin ástæða til að fara í þessar aðgerðir.

En ef samskiptin eru stirð, svo ekki sé minnst á ef slíkar ógnanir eru orðaðar eða liggja í loftinu, þá er slíkt bókhald nauðsynleg varnaraðgerð. Með henni sýnir faðirinn að hann leggur sig fram, sannanir eins og afrit af bankareikningum (kreditkortareikningum) eru plús, en aðalatriðið er að sýna að maður leggi sig fram. Félag ábyrgra feðra leggur áherslu á þá ábyrgð sem fylgir því að ala upp barn og bæði forsjárforeldrið og það forsjárlausa (í flestum tilfellum, faðirinn) bera ábyrgð á velferð barnsins. Sú ábyrgð getur stundum krafist þess að maður segi frá því hvernig maður leggur sig fram.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0