Meðlag er oft álitið eiga að duga fyrir helmingi alls kostnaðar við uppeldi barna. Félag ábyrgra feðra telur eðlilegt að fráskildir foreldrar taki sem jafnastan þátt í lífi barna sinna og þar með talið að bera kostnaðinn af uppeldi þeirra. Félag ábyrgra feðra telur jafn eðlilegt að foreldrar beri kostnaðinn að veigamiklu leyti eftir umgengni barnsins hjá þeim. Félagið vill vinna að því jafnréttismáli að foreldrar annist börn sín á sem jafnastan hátt, hvort heldur þau eru í hjónabandi, sambúð eða skilin. Á sama hátt telur Félag ábyrgra feðra eðlilegt að hið opinbera vinni að því að jafna sem mest aðstöðu foreldra eftir skilnað til að gera þeim kleift að sinna börnum sínum á sem jafnastan hátt. Það er augljósasta skrefið sem hið opinbera getur tekið til að auka velsæld þeirra barna sem eiga fráskilda foreldra.

Félag ábyrgra feðra tekur að sinni ekki afstöðu til þess hvort meðlag eins og Trygginga-stofnun ríkisins reiknar það sé eðlilegt eða ekki. Núna í maí 2003 er slíkt meðlag kr. 15.558 á mánuði. Í umræðu um meðlagið vill það hins vegar oft gleymast að forsjárlausa foreldrið sinnir að sjálfsögðu framfærsluskyldu gagnvart börnum sínum á meðan þau dvelja hjá honum. Félag ábyrgra feðra hefur gert þá tillögu til Alþingis að umgengni sé sem jöfnust en lágmarksumgengni barns og forsjárlauss foreldris sé 118 dagar á ári (32,3% ársins). Löggjafinn hefur ekki viljað gefa neitt út um það hver sé eðlileg umgengni eða lágmarksumgengni og varð því ekki við þessari ósk. Meðlag er hugsað sem eðlilegt framlag forsjárlauss foreldris til almennrar framfærslu barnsins.

Í greinargerð með frumvarpi því til nýrra barnalaga sem tóku gildi í nóvember 2003 er skýrt tekið fram að með meðlagsgreiðslu sinni fullnægi forsjárlaust foreldri framfærsluskyldunni. Um réttmæti þess má deila, en þó liggur fyrir þessi skilningur löggjafans. Félag ábyrgra feðra telur þennan skilning löggjafans á sambandi meðlags og framfærslu meingallaðan vegna þess að hann er arfur frá þeim tíma þegar forsjárlausir foreldrar/feður höfðu engan rétt til umgengni við börn sín og tíðarandinn bauð þeim að láta sig hverfa úr lífi barna sinna eftir skilnað. Samkvæmt þessum skilningi gengur löggjafinn útfrá ábyrgðarleysi forsjárlausra foreldra/feðra.

Samkvæmt löggjafanum telst tónlistarnám, íþróttaiðkun og venjulegar tannlækningar falla undir venjulega framfærslu og þarmeð innifaldar í meðlagsgreiðslum. Kostnaður vegna náms í sérskóla, sérstakra tannlækninga (einkum tannréttinga), gleraugna og sérstakra atburða eins og fermingar, skírnar eða greftrunar barns telst hins vegar óvenjulegur og um hann gilda sérstakar reglur, sbr. „Sérstakar greiðslur“. Gert er ráð fyrir að foreldrar deili þeim kostnaði til helminga.

Því miður ber talsvert á því að forsjárforeldri (mæður) hóta forsjárlausa foreldrinu (föðurnum) að tálma umgengni hans við barn sitt ef hann kaupi ekki þennan eða hinn hlutinn vegna barnsins (föt, leikföng, skóladót) eða borgi ekki þennan kostnað eða hinn (t.d. öll leikskólagjöldin, gleraugu og þess háttar). Þessi hótun er augljóst ofbeldi gagnvart föðurnum – og barninu ekki síður – en auk þess er hún beinlínis lögbrot því móðirin (forsjárforeldrið) á enga lögmæta kröfu um að faðirinn/meðlagsgreiðandinn greiði það sem krafist er. Um það hvernig best er að bregðast við slíkri hótun, sjá Dagbók v. meðlagsgreiðslna. Hins vegar má það ekki gleymast að forsjárlausir foreldrar (feður) greiða mjög gjarnan ýmislegt eins og föt, leikföng, tómstundavörur og fleira fyrir börn sín og leggja þannig fram verulegan skerf til framfærslu og uppeldis auk þess skerfs sem lögskipaður er með meðlagi.

Dæmi um kjör fráskilinna foreldra með jafnar launatekjur.

Framfærsla
Foreldrar A og B eru skilin og eiga saman þrjú börn sem öll eru skráð með lögheimili hjá foreldri A (móðurinni) sem hefur forsjána. Þau leigja hvort um sig íbúð á kr. 85.000 á mánuði. Þau hafa bæði jafnar árstekjur, kr. 2.500.000 hvort, sem þau greiða af skatta og skyldur. Þau hafa gert með sér samning um forsjá og umgengni þannig að móðirin hefur forsjána, börnin búa hjá henni en eru 12 daga í mánuði hjá foreldri B (föðurnum). Að öðru leyti er samningur þeirra eins og algengt er, sjá Samning um sameiginlega forsjá. Börnin eru öll í grunnskóla, 7, 9 og 12 ára.

Foreldri A annast framfærslu barnsins hjá sér og foreldri B þegar það er hjá því. Foreldri B hefur rúman umgengnisrétt og eru börnin þrjú 12 daga hjá honum í mánuði og einn mánuð í sumarfríi auk þess sem hátíðum er skipt milli ára, vika og vika í senn hjá hvoru foreldri. Börnin skipta því tíma þannig að 40% tímans eru þau hjá föður sínum en 60% hjá móður sinni. Kostnaður þessara foreldra vegna framfærslu barna sinna er í mjög góðu samræmi við umgengni, eða nálega 40% hjá foreldri B en 60% hjá foreldri A. Rétt er að ítreka að hér er um ábyrga foreldra að ræða sem sinna forsjá og umgengni en ekki þá ábyrgðarlausu foreldra sem sinna ekki skyldum sínum. Mótbára um slíkt ábyrgðarleysi á allt eins við um aðrar bætur því alltaf eru til einstaklingar sem ekki sinna sínum skyldum eða svindla jafnvel á kerfinu. Félag ábyrgra feðra ræðir ekki um málefni forsjárlausra, ábyrgra feðra á þeim forsendum.

Framfærslukostnaður er reiknaður út af ýmsum aðilum í landinu. Hagstofa Íslands gerði neyslukönnun 1995 sem uppfærð til vísitölu í feb. 2003 virðist reikna kr. 107.000 á mánuði sem meðalframfærslukostnað barns. Hér er þó ekki miðað við þá tölu. Við greiðslumat vegna íbúðakaupa miðar Íbúðalánasjóður við tölur frá Ráðgjafaþjónustu fyrir heimili sem reyndar hefur reiknað framfærslukostnað á grundvelli talna úr fyrrnefndri neyslukönnun Hagstofunnar. Engu að síður er framfærslukostnaður eins barns skv. Íbúðalánasjóði mun minni en könnunin virðist gefa, eða um kr. 21.000 á mánuði. Hér á eftir er miðað við tölur Íbúðalánasjóðs. Og við erum eingöngu að tala um framfærslukostnað barna, ekki fullorðinna.

Ef gengið er út frá tölum Íbúðalánasjóðs dugir meðlag fyrir 74% af framfærslukostnaði barns (kr. 15.558 sem hlutfall af kr. 21.000). Forsjárlaust foreldri sem gegnir umgengnisskyldu sinni og ábyrgð með því að hafa börn sín hjá sér í lágmarksumgengni (t.d. skv. stefnu Félags ábyrgra feðra) og greiðir meðlag, leggur því af mörkum meira en sem nemur framfærslukostnaðinum. Í dæminu sem við höfum til umræðu er umgengni 40% hjá forsjárlausa foreldrinu og má því segja að framlag hans sé samtals: meðlag kr. 15.558 + framfærsla kr. 21.000 x 40% = samtals kr. 23.958. Hér er ekkert tillit tekið til þess sem forsjárlausa foreldrið kaupir aukalega, eins og fatnaður, leikföng og tómstundavörur (bækur, geisladiskar, tölvuleikir o.fl.). Slík innkaup eru viðbót við allar þær tölur sem hér eru ræddar.

Bætur og meðlag til foreldra
Í gildandi kerfi eru allar bætur hins opinbera vegna barna miðaðar við lögheimili barnsins. Í slíkum bótum teljast barnabætur, húsnæðisbætur, tryggingabætur vegna lyfja og lækniskostnaðar, svo og atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð félagsmálakerfisins. Lítum á aðstoðina sem hið opinbera veitir þessum foreldrum (A og B) en bæði hafa jafn miklar árstekjur að öðru leyti, kr. 2.500.000 hvort um sig, sem fyrr segir.

A) Forsjárforeldri m. 3 börn sem öll hafa lögheimili hjá viðkomandi.
B) Forsjárlaust foreldri m. 3 börn sem öll hafa lögheimili hjá hinu foreldrinu.

Bætur Foreldri A Foreldri B
Barnabætur* 449.578 0
Húsaleigubætur** 295.200 90.000
Mæðra-/feðralaun*** 141.384 0
Meðlag**** 560.088 -560.088
SAMTALS 1.446.250 -470.088

* Barnabætur reiknaðar út miðað við tekjur og barnafjölda á reiknivél á vef Ríkisskattstjóra.
** Húsaleigubætur, skv. upplýsingum Félagsþjónustunnar í Reykjavík (bætur sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir eru ekki teknar með í útreikningi húsaleigubóta).
*** Mæðra-/feðralaun eru aðeins greidd með tveimur börnum eða fleirum; sjá vef TR og auglýsingar í Morgunblaðinu.
**** Meðlag er kr. 15.558 á mán. m. hverju barni, skv. auglýsingum Tryggingastofnunar í Morgunblaðinu og á vef TR.

Forsjárforeldrið þiggur kr. 560.088 í meðlag sem forsjárlausa foreldrið greiðir. Auk þess þiggur forsjárforeldrið barnabætur, húsaleigubætur og mæðralaun. Forsjárlausa foreldrið þiggur aðeins smávægilegar húsaleigubætur sem aðstoð frá hinu opinbera (kr. 7.500 á mán.).
Mismunurinn á foreldrum A og B hvað snertir bætur og meðlög er kr.1.916.218 forsjárforeldrinu í hag.

Samantekt um laun, framfærslu og bætur
Laun, kostnað og bætur má taka saman í eftirfarandi töflu til skýringar:

Tekjur /kostn Foreldri A Foreldri B
Árslaun 2.500.000 2.500.000
Skattar að frádr. pers.afls 641.850 641.850
Ráðst.tekjur 1.858.150 1.858.150
Barnabætur 449.578 0
Húsaleigubætur* 295.200 90.000
Mæðra-/Feðralaun** 141.384 0
Meðlag (15.558 pr barn) 560.088 -560.088
Ráðst.tekjur. m. bótum og meðlagi 3.304.400 1388.062
Framf.kostn. barna -453.600 -302.400
Til eigin þarfa 2.850.800 1.085.662
Mism. til hagsbóta forsjárforeldris 1.765.018

* Húsaleigubætur, skv. upplýsingum Félagsþjónustunnar í Reykjavík.
** Mæðra-/feðralaun eru aðeins greidd með tveimur börnum eða fleirum, kr. 11.782 á mán. m. þremur börnum.

Af þessu fé, kr. 1.085.662, þarf forsjárlausa foreldrið (B) að greiða húsnæðiskostnað, eigin framfærslu þegar börnin eru hjá hinu foreldrinu, bílakostnað (ef viðkomandi á bíl), lífeyrisgreiðslur, eigin fatnað, skemmtanir ofl. Miðað við leigukostnað upp á kr. 85.000 á mánuði er ljóst að foreldri B ræður einfaldlega ekki við eigin húsnæðiskostnað (85.000 x 12 = kr. 1.020.000), hvað þá framfærslu sína, með kr. 1.085.662 til ráðstöfunar eftir að börnin hafa fengið sitt. Það er sjálfsagt að benda á að feður og forsjárlausir foreldrar telja vitaskuld ekki eftir sér að framfleyta börnum sínum, ekki einu sinni að kaupa föt eða leikföng aukalega. Forsjárlausir foreldrar með meðaltekjur hafa þvert á móti ekki efni á slíkum munaði!

Til að bæta stöðu sína þarf því forsjárlausa foreldrið að bæta við sig vinnu. Tekjuaukningin sem af því sprettur verður hins vegar í mörgum tilfellum að ástæðu til að íþyngja hinum forsjárlausa (B) enn meira með því að úrskurða hann til greiðslu meðlagsauka (sbr. Meðlagsauka).

Þær bætur sem forsjárforeldrið fær, kr. 1.446.250, eru skattfrjálsar og jafngilda því kr. 1.945.658 í launatekjur. Heildartekjur forsjárforeldrisins og greiðslur vegna barnanna jafngilda því launatekjum að upphæð kr. 4.445.658 á ári.

Munurinn á fjárhagslegri stöðu þessara foreldra sömu barnanna er hróplegur, hvernig sem á er litið. Þessi ógnvænlegi munur getur með engu móti talist eðlilegur eða sanngjarn í nútímasamfélagi sem leggur svo ríka áherslu á jafnrétti kynjanna. Á síðustu áratugum hafa feður tekið að sér æ stærra hlutverk í starfi fjölskyldunnar og heimilisins en konur sótt á sama hátt út á vinnumarkaðinn. Þessi breytta staða kallar á breytingar á viðhorfum hins opinbera til stöðu foreldra, ekki síst í ljósi kynjajafnréttis. Félag ábyrgra feðra hlýtur að spyrja hvort jafnréttisstefna íslenska ríkisins birtist í tölunum hér að ofan.

Hér er ennfremur rétt að minna á að samkvæmt greinargerð með frumvarpi til nýrra barnalaga 2002 er sérstaklega tekið fram að meðan á umgengni stendur er forsjárlaust foreldri í stöðu forsjárforeldris. Það á ekki aðeins við um lagalega stöðu, heldur ekki síður í andlegu, félagslegu, sálrænu og fjárhagslegu tilliti: þegar barn býr hjá forsjárlausu foreldri sínu sér hann fyrir öllum þörfum barnsins.

Jöfnun eykur velferð barna
Í opinberum gögnum er ekki litið á forsjárlausa foreldra sem framfærendur barna sinna. T.d. er þeim ekki leyft að telja börn sín fram á skattframtali á þann hátt að börnin séu á framfæri þeirra. Það sama á við um foreldra með sameiginlega forsjá, eins og t.d þegar börnin dvelja jafnlengi hjá báðum foreldrum en lögheimilið er hjá öðru foreldrinu. Hið opinbera miðar allar bætur og aðstoð við lögheimili og tekur einfaldlega ekkert tillit til annarra þátta.

Í mörgum sveitarfélögum er ekkert gert til að aðstoða forsjárlausa foreldrið við að afla sér húsnæðis svo hann geti boðið börnunum viðunandi aðstæður, haft þau heima hjá sér og boðið þeim aðstöðu eða jafnvel sérherbergi heima við. Reyndar má þó geta þess að Húsnæðisnefnd Reykjavíkurborgar hefur haft þá stefnu um nokkurra ára skeið að ívilna forsjárlausum foreldrum ofurlítið við húsnæðiskaup, einkum með því að taka tillit til þessara aðstæða við afgreiðslu viðbótarlána (90% lána). Almenna reglan er þó að taka ekki tillit til aðstæðna forsjárlausra foreldra.

Félag ábyrgra feðra telur nauðsynlegt að breyta núverandi kerfi þar sem hið opinbera miðar allar bætur og greiðslur við lögheimili. Félagið telur nauðsynlegt að laga það ranglæti sem forsjárlausir foreldrar eru berlega beittir í núverandi kerfi. Nauðsynlegt er að taka tillit til raunverulegrar búsetu barnanna og þarmeð raunverulegs framlags foreldra til uppeldis barnanna. Með leiðréttingu í þessum efnum næst meiri ró í samskipti foreldranna og jafnvægi sem leiðir til meira öryggis barnanna. Réttlát skipting þeirra fjármuna sem eru til skiptanna eflir velferð barnanna.

Heimildir:
Félagsþjónustan í Reykjavík (símtal 21. maí 2003).
Reiknivél á vef Ríkisskattstjóra, slóðir:
http://www.rsk.is/birta_sidu.asp?vefslod=skattar/barnabaetur.asp&val=2.0
http://www.rsk.is/birta_sidu.asp?vefslod=/skattar/husaleigubaetur.asp&val=2.0
Vefur Tryggingastofnunar ríksins.
Morgunblaðið.

Garðar Baldvinsson
formaður Félags ábyrgra feðra

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0