Frá Guðvarði Jónssyni: “ÞEGAR ákveðnum aðila eða aðilum eru færð aukin mannréttindi með lögum er þess oft ekki gætt að í lögunum felist ekki skert réttindi annarra sem tengjast aðilanum eða hópnum.”

ÞEGAR ákveðnum aðila eða aðilum eru færð aukin mannréttindi með lögum er þess oft ekki gætt að í lögunum felist ekki skert réttindi annarra sem tengjast aðilanum eða hópnum. Mannréttindi byggjast á jafngildisreglu til ákveðinna réttinda, sé út fyrir þann ramma farið verður lagasetningin valdbeiting sem stangast á við mannréttindi og því ógild.

Nýlega voru sett lög á alþingi um réttindi sérstöðuhópa til ættleiðingar og tæknifrjóvgunar. Í þessum lögum var ekki, fremur en í eldri lögum, minnst einu orði á rétt tilvonandi einstaklinga. Ættleidd börn hafa ekki haft þau mannréttindi að mega þekkja til uppruna síns, þó eru þessi lög sett af mönnum sem sjálfir hafa þau mannréttindi sem þeir taka af þessum einstaklingum með valdbeitingu. Ástæðan er sérhagsmunir annarra en barnsins.

Börn, getin með tæknifrjóvgun, hafa heldur ekki haft rétt til að þekkja föðurinn. Þó svo að sæðisgjafinn sé leystur frá framfærsluskyldu hefur hvorki hann né alþingismenn heimild til að afnema mannréttindi sem lífsneistinn hefur. Hann er ekki dauður hlutur eða gæludýr heldur lífsneisti manns.

Þó að barninu líði vel í uppeldinu og elski sína uppalendur býr þráin eftir tengslum við upprunann í sálinni og sú taug hefur teygjanleika fyrir óendanlegar fjarlægðir. Þeir einstaklingar sem búa við þessa leynd á uppruna sínum ættu að fá leyndinni aflétt gagnvart sér persónulega er þeir hafa náð lögaldri og gætu þá ákveðið sjálfir hvort þeir leituðu eftir tengslum eða ekki.

Kona sem átti foreldra úti í Bandaríkjunum og þekkti þau aðeins af mynd þráði að geta heimsótt þau. Það gerðist svo þegar hún var komin á fimmtugsaldur. Er hún kom til baka var hún spurð um ferðalagið. Svar hennar var. “Ég fékk að faðma mömmu.” Annað í ferðalaginu skipti ekki máli. Þetta er innsta þrá allra þeirra sem ekki geta notið tengslanna. Við státum okkur af að virða mannréttindi. Oft er það aðeins í orði.

GUÐVARÐUR JÓNSSON,
Hamrabergi 5,
111 Reykjavík.
mbl.is Miðvikudaginn 14. desember, 2005 – Bréf til blaðsins

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0