Málefni foreldra með sameiginlega forsjá

Fréttir herma að sumarþingi eigi að ljúka á morgun. Ég var að kíkja á þingmálin og stöðu þeirra. Meðal þeirra mála sem á að ljúka er þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Á heimasíðu Alþingis má sjá að síðari umræða var í dag og að þingnefnd leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt (sjá http://www.althingi.is/altext/134/s/0016.html).

Meðal þess sem gera á skv. tillögunni er að skipa nefnd er fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra. Vonandi mun þessi nefnd vinna fljótt og vel og nefndarálitinu síðan hrundið í framkvæmd í stað þess að verða skúffufóður í ráðuneyti, eins og svo oft verða örlög góðra nefndarálita.

Ennfremur vona ég að verksvið þessarar nefndar verði rýmkað og að henni verði einnig falið að skoða ýmislegt varðandi réttarstöðu foreldra, sem ekki búa saman en sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna. Eins og staðan er í dag telst eingöngu foreldrið sem er með lögheimili barnsins vera einstæða foreldrið. Hitt foreldrið er – ja ég veit eiginlega ekki hvaða hugtak á að nota yfir það. Því hvergi er tekið tillit til þessa foreldris. Það er hvorki forsjárlaust né einstætt en samt með sameiginlega forsjá yfir barninu.

Á fyrsta feðradeginum í nóvember 2006 lofaði félagsmálaráðherra því að tekið yrði til skoðunar að gera foreldrum í þessari stöðu kleift að bæði hefðu lögheimili barna sinna. Í því felst að bæði njóta réttarstöðu sem einstætt foreldri og þar með myndu þau skipta milli sín þeim stuðningi sem hið opinbera veitir einstæðum foreldrum. Þetta er mikilvægt hagsmunamál.

Fleira þarf að skoða í þessu sambandi, s.s. greiðslu meðlags þegar foreldrar með sameiginlega forsjá ákveða að börnin búi til skiptis hjá þeim, jafnt á báðum stöðum. Í slíkum tilvikum er vafasamt að greiðsla meðlags eigi rétt á sér því báðir sinna framfærsluskyldum sínum með jafnri búsetu. En það þarf að tryggja að báðir foreldrar taki jafnan þátt í þeim útgjöldum sem barni fylgja, s.s. dagvistunarkostnaði, skólaskjólskostnaði, fatakostnaði, tómastundakostnaði o.s.frv.

Mikilvægast er þó að drífa í því að breyta barnalögum þannig að dómstólum verði gert kleift að dæma sameiginlega forsjá eins og frændur okkar Danir hafa nú lögfest og gengur í gildi hjá þeim 1. október nk. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að umrædd nefnd geri tillögu um það.

Ef öllu þessu tekst að koma í höfn á næstu misserum þá hafa náðst mikilvægir áfangar fyrir börn og foreldra með sameiginlega forsjá.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0