Draga má verulega í efa að íslensk stjórnvöld hafi virt mannréttindi umgengnisforeldra. Þetta er meðal þess sem fram kemur í kandidatsritgerð Helga Áss Grétarssonar til embættisprófs í lögfræði, sem hann ver á morgun.

Draga má verulega í efa að íslensk stjórnvöld hafi virt mannréttindi umgengnisforeldra. Þetta er meðal þess sem fram kemur í kandidatsritgerð Helga Áss Grétarssonar til embættisprófs í lögfræði, sem hann ver á morgun. Í ritgerðinni kemur fram að árin 2002-2003 tók að meðaltali 9 mánuði hjá sýslumanni að úrskurða í umgengnismálum og 11 mánuði hjá dómsmálaráðuneytinu.

Íslenska stjórnarskráin gerir ráð fyrir að rétturinn til að eiga fjölskyldulíf sé varinn og allir eigi rétt á að fá úrlausn sinna mála innan hæfilegs tíma. Eftir því sem Helgi Áss Grétarsson rekur í kandidatsritgerð sinni til embættisprófs í lögfræði leikur hins vegar í nokkrum umgengnismálum vafi á því að íslensk stjórnvöld hafi hagað aðgerðum sínum í samræmi við þessar grundvallarreglur stjórnarskárinnar og þannig hugsanlega brotið á rétti þess foreldris sem barn bjó ekki hjá.

Helgi Áss mun á morgun verja ritgerð sína, sem ber heitið: “Umgengnisréttur: Framkvæmd umgengnismála hjá sýslumanninum í Reykjavík og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árin 2002-2003”, sem unnin var undir handleiðslu dr. Páls Sigurðssonar, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands.

Við vinnslu kandidatsritgerðarinnar skoðaði Helgi Áss samtals 302 umgengnismál hjá sýslumanninum í Reykjavík á árabilinu 2002-2003 og 41 mál á sama tímabili hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Eftir því sem fram kemur í ritgerðinni tók það sýslumanninn í Reykjavík að jafnaði níu mánuði að fella úrskurð í umgengnismáli og jafnvel enn lengri tíma hjá dómsmálaráðuneytinu, eða að meðaltali ellefu mánuði í átján málum árið 2003.

“Eftir að parsambandi lýkur getur það gerst að það foreldri sem barn býr hjá girði fyrir að hitt foreldrið fái að hitta barn og getur þá umgengnisforeldrinu verið sá kostur nauðugur að leita umgengnisréttar síns hjá stjórnvöldum,” segir Helgi Áss í samtali við Morgunblaðið og tekur fram að stjórnvöld hafa svigrúm til að meta hvað sé barni fyrir bestu og getur verið eðlilegt að komist sé að þeirri niðurstöður að samskipti barns og umgengnisforeldris séu ekki barni fyrir bestu. “Að jafnaði hins vegar hvíla á stjórnvöldum jákvæðar skyldur til að koma samskiptum á milli barns og umgengnisforeldris. Á þessum skyldum getur verið brotið þegar meðferð umgengnismála tekur mörg ár og á meðan eigi engin samskipti sér stað milli barns og umgengnisforeldris. Afleiðingin verður þá sú að engu máli skiptir hvaða efnislegu niðurstöðu menn komast að, því hinn langi málsmeðferðartími hefur haft óbætanleg áhrif á samband barns og foreldris sem það býr ekki hjá,” segir Helgi Áss og bætir við að ein helsta ástæða þess að hann ákvað að skoða þennan málaflokk hafi ekki síst verið sú staðreynd að réttarkerfið virðist ekki vera sér meðvitað um slæm áhrif langs málsmeðferðartíma umgengnismála.

Í þessu sambandi bendir Helgi Áss á að málsmeðferðartíminn skipti miklu máli við mat á því hvort ríkið aðhafist nægilega mikið í einstaka málum til að virða rétt umgengnisforeldra til að eiga fjölskyldulíf, sem og réttarins til að fá fljótvirka málsmeðferð. Styðst hann þar við dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, m.a. dómsins frá 23. september 2003 í máli Sophiu Hansen gegn Tyrklandi. “Af þessum dómi sem og af fleirum dómum Mannréttindadómstólsins má greina hvaða kröfur gerðar eru til aðildarríkja mannréttindasáttmála Evrópu í erfiðum umgengnisdeilum. Þetta er mikilvægt þar sem íslenskir dómstólar hafa tilhneigingu til að ákvarða inntak mannréttindaákvæða íslensku stjórnarskrárinnar til samræmis við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.”

Kallar eftir aukinni samvinnu fagstétta

Aðspurður hvernig skýra megi þann langa tíma sem umgengnismál taki í kerfinu í dag segist Helgi Áss telja að um sé að kenna samblandi af óheppilegum málsmeðferðarreglum og mannlegum breyskleika. “Umgengnismál taka á alla þá sem taka þátt í deilunni, einnig úrlausnaraðila. Það á hins vegar ekki að koma í veg fyrir að ákvörðun sé tekin í máli. Mitt mat er raunar að þessi mál kalli einmitt á skjóta málsmeðferð og liggur á að ákvörðun sé tekin til þess að lágmarksumgengnisréttur sé tryggður,” segir Helgi Áss og bendir á að málsmeðferðarreglur stuðli hins vegar að veruleika sem geri það aðverkum að fólk geti ekki hitt börn sín jafnvel árum saman. “Það er stundum rökrétt afleiðing kerfisins,” segir Helgi Áss og tekur fram að bagalegt sé þegar erfið umgengnismál séu afgreidd eins og hvert annað stjórnsýslumál.

Í lokakafla ritgerðar sinnar kemur Helgi Áss með hugmyndir um umbætur í umgengnismálum. Þar bendir hann á hluti eins og mikilvægi þess að samvinna milli fagstétta sem sinna umgengnismálum verði aukin, bendir hann á fyrirbyggjandi aðgerðir sem feli í sér að foreldrar fái aðstoð við að aðskilja hjóna- og foreldrahlutverk sín, lagt er til að sýslumaður fái almenna lagaheimild til að kveða á um umgengni til bráðabirgða og að slíkur úrskurður sé ekki kæranlegur til ráðuneytis auk þess sem hann leggur til að kærufrestur í umgengnismálum verði styttur og gerðar verði vægari kröfur til rannsóknar í þessum málum, þar sem rannsókn máls megi ekki leiða til þess að hið opinbera geri ekki sitt besta til að tryggja lágmarks umgengnisrétt.

Telur barnaverndarnefndir ekki sinna málaflokkinum

Helgi Áss er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að rannsókn umgengnismála fari ekki út úr starfsstöð sýslumanns, en eins og staðan er í dag eru mál send út úr starfsstöð sýslumanns þegar mál fara til barnaverndarnefndar. “Fullyrða má að barnaverndarnefndir sinni þessum málaflokki ekki nægilega vel og það er í sjálfu sér rökrétt miðað við þá fjármuni sem þær hafa úr að spila, auk þess sem umgengnismál teljast ekki nógu brýn verkefni þar á bæ í samanburði við barnaverndarmál,” segir Helgi Áss og bendir á að ástæða fyrir því að núverandi kerfi hafi verið viðhaldið í núgildandi barnalögum sé aðallega sú að ríkisvaldið vilji ekki þurfa að fjármagna það starf sem barnaverndarnefndir inna nú af hendi. Að mati Helga Áss er hins vegar afar óheppilegt að umgengnismál heyri undir tvo aðila, þ.e. bæði ríki og sveitarfélög þar sem sveitarfélög greiði fyrir starfsemi barnaverndarnefndar sem vinni umsagnir til handa sýslumanni. Að mati Helga Áss væri mun heillavænlegra ef umgengnismál væru ekki send til barnaverndarnefndar heldur væru til umfjöllunar hjá félagsráðgjöfum og/eða sálfræðingum er störfuðu hjá sýslumannsembættum landsins.

“Í þessum málaflokki þarf að huga að aukinni samvinnu lögfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa, vegna þess að aðferðarfræði lögfræðinga á illa við í þessum málum. Með því á ég við að sú hugsun að það sé til ein rétt lögfræðileg niðurstaða getur leitt menn á villigötur í þessum málaflokki,” segir Helgi Áss. “Réttarheimildafræðin kveður á um að skoðun lögfræðinga eigi ekki að skipta máli við afgreiðslu mála. Við eigum í raun ekki að hafa neitt gildismat, sem er að sumu leyti nokkuð vélræn afstaða. Þessi grundvallarhugsun hentar ekki í þessum málaflokki, því þar skiptir máli að komist sé að réttri siðferðislegri niðurstöður og að hún sé studd þeim rökum að við verðum að beita öllum ráðum til þess að foreldranir beri ábyrgð á lífi sínu og sinni þeirri skyldu sinni um að vernda börn sín.”

Birting úrskurða lykilatriði til að auka skilning fagaðila

Síðast en ekki síst er að mati Helga Áss mikilvægt að úrskurðir ráðuneytis um umgengnismál verði birtir opinberlega. “Í dag eru úrskurðir ekki birtir með þeirri röksemd að um viðkvæm mál sé að ræða, en í því sambandi má benda á að Hæstiréttur birtir dóma sína um forsjármál á Netinu þannig að nöfn aðila og barns eru hulin, en slíkt hið sama mætti gera um úrskurði í umgengnismálum.” Spurður hvað væri fengið með slíkri birtingu segir Helgi Áss birtinguna mikilvæga þar sem hún auki heimildir í málaflokknum sem aftur auðveldi fólki að fá dýpri skilning á þessum málum. “Væru úrskurðir birtir yki það líkurnar á því að hægt sé að skilja lagareglurnar eins og þær eru í raunveruleikanum. Þegar grundvallarreglan er sú að taka skuli ákvörðun út frá því sem barninu er fyrir bestu, sem er gríðarlega matskennt, þá verður, líkt og um mjög margar aðrar vísireglur í lögfræði, að vera fyrir hendi fjöldi dæma til þess að hægt sé að skilja hvað umrædd regla þýðir í einstökum tilvikum,” segir Helgi Áss og bendir á að birting úrskurða sé áhrifamesta leiðin til að auka þekkingu og skilning fagaðila á eðli þessara málaflokka öllum til heilla.

Þess má að lokum geta að vörn Helga Áss hefst kl. 12.15 á morgun og fer fram í stofu 101 í Lögbergi, prófdómari er Gunnar Jónsson, hrl. Vörnin er öllum opin á meðan húsrúm leyfir.

mbl.is 29.09.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0