sjá:  http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=B200600014&Domur=2&type=2&Serial=1&Words=

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2006 í máli nr. B-14/2006:

A

(Hjördís Edda Harðardóttir hdl.)

gegn

B

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

I

Mál þetta sem þingfest var 24. nóvember 2006 var tekið til úrskurðar 15. desember 2006. Sóknaraðili er A, […], Reykjavík, og höfðaði hann forsjármál á hendur varnaraðila 15. nóvember 2006 og var það þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. nóvember 2006.

Varnaraðili er B, […], Reykjavík.

Sóknaraðili krefst úrskurðar um að honum verði forsjá dætra aðila, C, […], og D, […], til bráðabirgða, þar til endanlegur dómur gengur um forsjá þeirra.  Til vara krefst hann þess að úrskurðað verði að lögheimili telpnanna verði hjá sóknaraðila.  Jafnframt krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði úrskurðaður til að greiða sóknaraðila mánaðarlegt einfalt meðlag með hvorri telpu fyrir sig frá uppkvaðningu úrskurðar fram að dómsuppsögu í forsjármáli því sem rekið er fyrir dóminum.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili gerir þær kröfur að henni verði falin forsjá dætra aðila til bráðabirgða meðan á rekstri forsjármáls aðila stendur en til vara krefst hún þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.  Þá krefst hún málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

 

II

Málsaðilar hófu sambúð á árinu 1996.  Á sambúðartíma fæddust dætur þeirra, C […] 1997 og D […] 1999.  Á árinu 2000 slitu aðilar málsins samvistir og gengu þau frá samkomulagi hjá Sýslumanninum í Reykjavík þess efnis að þau færu sameiginlega með forsjá dætranna og að þær ættu lögheimili hjá varnaraðila. Var samkomulag um að sóknaraðili greiddi einfalt meðalmeðlag með hvorri telpu til átján ára aldurs þeirra og var umgengni ákveðin aðra hvora helgi.

Í maí 2004 gengu aðilar frá nýjum umgengnissamningi þess efnis að dæturnar skyldu búa hjá foreldrum sínum til skiptis eina viku í senn.

Varnaraðili hefur fest kaup á húsnæði í Mosfellsbæ og liggur fyrir að dætur aðila koma til með að ganga í skóla þar frá og með næstu áramótum.  Það er sóknaraðili ósáttur við og því hefur hann höfðað mál þetta.

 

III

 

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um bráðabirgðaforsjá dætra aðila og meðlag til bráðabirgða á 35. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Fari aðilar sameiginlega með forsjá og sé umgengninni þannig háttað að dæturnar dvelji til skiptis hjá aðilum eina viku í senn.  Búi aðilar í sama hverfi í […] þar sem dæturnar hafi sótt leikskóla og grunnskóla.  Í því hverfi stundi þær íþróttir og aðrar tómstundir og eigi vini og kunningja.  Nú hafi varnaraðili án samráðs við sóknaraðila ákveðið að flytja til Mosfellsbæjar.  Þar sem aðstæður móður séu óviðunandi fyrir dæturnar og fyrirséð að hún muni rífa þær fyrirvaralaust úr skóla og sínu örugga umhverfi í […] og flytja í annað byggðarlag telji sóknaraðili brýna þörf vera á því að skorið verði úr því fyrir dómi að sóknaraðili fái forsjá telpnanna til bráðabirgða.

 

IV

 

Varnaraðili kveðst byggja kröfur sínar á 35. gr. laga nr. 76/2003 enda væri það andstætt hagsmunum telpnanna ef fallist yrði á kröfu sóknaraðila.  Sérstaklega sé vísað til þess að ekkert liggi fyrir í málinu um forsjárhæfni sóknaraðila en í málinu liggi fyrir vottorð læknis varnaraðila þar sem fram komi að enginn sem komið hafi nálægt meðferðarvinnu með varnaraðila hafi nokkurn tímann efast um forsjárhæfni hennar.  Þá sé enn fremur vísað til yfirlýsingar barnsföður varnaraðila, E.

Telpurnar hafi búið hjá varnaraðila frá sambúðarslitum og hafi þær dafnað vel í hennar umsjá.  Sé ekkert í málinu sem leitt geti til að fallist verði á kröfu sóknaraðila enda í engu sýnt fram á að brýna nauðsyn beri til að breyta búsetu telpnanna.  Séu engin gögn lögð fram sem staðfest geti að flutningur milli skólahverfa sé andstæður hagsmunum telpnanna en svo virðist sem það sé aðalmálsástæða sóknaraðila í þessum hluta málsins.  Sé það eitt og sér ekki nægjanlegt til þess að breytingar verði gerðar á forsjá eða búsetu telpnanna meðan á rekstri málsins standi.  Fram sé lagt söluyfirlit fasteignar þar sem varnaraðili og telpurnar búi og því upplýst um hvernig aðstæður á heimilinu séu.

Varnaraðili kveðst rökstyðja aðalkröfu sína með því aðallega að eftir að stefna hafi komið fram um forsjá til bráðabirgða hafi grundvöll í reynd brostið fyrir sameiginlegri forsjá.  Því henti sú forsjárskipan ekki lengur telpunum.  Varakrafa varnaraðila byggi á því að ekki sé sýnt fram á að brýna nauðsyn beri til þess að telpurnar verði áfram búsettar í […] og ekkert í málinu sem geti grundvallað kröfu sóknaraðila og forsjá til bráðabirgða.  Lagalega beri varnaraðila engin skylda til að hafa samráð við sóknaraðila þegar hún flytji lögheimili sitt og barnanna milli skólahverfa.

Telur varnaraðili aðalatriðið vera það að telpurnar séu búsettar hjá henni meðan á rekstri málsins standi enda hafi þær búið hjá henni allt frá fæðingu og hún verið aðalumönnunaraðili.  Mikið þurfi að koma til að vikið sé frá þeirri skipan meðan á rekstri forsjármáls standi og könnun fari fram á aðstæðum aðila og forsjárhæfni.

 

V

 

Samkvæmt 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 getur dómstóll ákveðið til bráðabirgða hvernig fara skuli um forsjá barns eftir því sem er barni fyrir bestu.  Engin könnun hefur farið fram í máli þessu á forsjárhæfni aðila máls þessa.  Dætur aðila eru ungar að árum, C nýlega orðin 9 ára og D tæplega sex ára.  Vegna ungs aldurs þeirra var ekki leitað eftir afstöðu þeirra í þessum þætti málsins. 

Tilgangur úrræðisins um bráðabirgðaforsjá er fyrst og fremst að skapa festu um forsjá í forsjárdeilum meðan könnun og frekari gagnaöflun fer fram.  Mikilvægt er að sem minnst röskun verði á högum barns og dvalarstað á meðan deilur foreldra hafa ekki verið endanlega ráðnar til lykta.

Heimilisaðstæður aðila hafa ekki verið kannaðar á þessu stigi málsins.  Fyrir liggur að varnaraðili hyggst flytja í Mosfellsbæ með dæturnar og að þær muni frá áramótum fara í skóla í því hverfi.  Ekki liggur annað fyrir en að aðstæður þar séu góðar og af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að báðir foreldrar hafi góðar aðstæður til að hafa börnin hjá sér.

Þegar foreldrar deila um forsjá barna sinna leiðir ágreiningur þeirra oft til þess að samstarf milli þeirra um önnun barnanna verður ekki gott þótt ekki sé það einhlítt.  Af gögnum máls þessa verður ekki annað ráðið en að báðir aðilar hafa tekið þátt í að annast börn sín og ekkert annað fyrirliggjandi en að vel sé hugsað um þau.  

Má gera ráð fyrir því að í því forsjármáli sem sóknaraðili hefur höfðað fyrir dóminum fari fram frekari könnun á högum barnanna og að leitað verði sérfræðiálits um forsjárhæfni aðila.  Slík gagnaöflun hefur ekki farið fram í máli þessu og engin haldbær gögn fyrirliggjandi um það hvað sé börnunum fyrir bestu.  Í þessu máli virðist sem eina ástæðan fyrir kröfu sóknaraðila sé sú að varnaraðili hyggist flytja úr því hverfi sem hún hefur búið í undanfarið með telpurnar og að hún hafi tekið þá ákvörðun án samráðs við hann.  Ákvörðun sem þessa gat varnaraðili tekið án samráðs við sóknaraðila enda hefur ekki verið sýnt fram á það í máli þessu að flutningur frá […] yfir til Mosfellsbæjar, sem er nærliggjandi sveitarfélag, hafi slíka röskun í för með sér fyrir telpurnar að hann sé andstæður hagsmunum telpnanna. 

Þegar allt framangreint er virt þykir ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að brýna nauðsyn beri til að ákveða öðrum hvorum aðilum forsjá telpnanna til bráðabirgða og fella niður sameiginlega forsjá þeirra.  Telur dómurinn því varlegast að hafna kröfum aðila þess efnis, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 76/2003. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að taka til greina varakröfu sóknaraðila um að lögheimili dætranna flytjist frá varnaraðila yfir til sóknaraðila.  Að framangreindu virtu verður hafnað kröfu sóknaraðila um greiðslu meðlags til bráðabirgða.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Hjördís E. Harðardóttir hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Valborg Snævarr hrl.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfum sóknaraðila, A og varnaraðila, B, hvors um sig, um að fá forsjá dætra sinna, C og D, til bráðabirgða, er hafnað.

Börnin skulu hafa áfram lögheimili hjá varnaraðila.

Kröfum sóknaraðila um greiðslu meðlags til bráðabirgða er hafnað.

        Málskostnaður fellur niður.

                                                                        Hervör Þorvaldsdóttir

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0