Garðar Baldvinsson fjallar um hjónaskilnað og breytingar, sem verða við hann: “Í forsjármálum velur hið opinbera fyrir fjöldann.” FORSJÁRNEFND hefur nýlega sent frá sér lokaskýrslu þar sem lagt er til að við skilnað og sambúðarslit verði sameiginleg forsjá barnanna meginregla. Félag ábyrgra feðra fagnar þessari skýrslu og þeim tillögum sem í henni felast.

Þegar hjón skilja eða fólk slítur samvistir klofnar tilvera barnanna í tvennt. Annar hluti tilverunnar tilheyrir pabba og hinn mömmu. Við skilnað óska börn þess að foreldrarnir hætti við að skilja og verði saman á ný, en einnig að geta átt sem allra best samband við þá báða. Algengt er að börn huggi sig og sætti sig við skilnaðinn með þeirri vissu að þau eigi sér vísan samastað hjá báðum foreldrum sínum.

Eftir skilnað vita börn að þau búa á tveimur stöðum, hjá pabba og hjá mömmu.
En þá kemur ríkið og heimtar eitt heimili. Segir að eftir skilnað búi barn hjá öðru foreldra sinna – og umgangist hitt. Segir að barnið geti bara átt eitt lögheimili. Ríkið veitir þannig fullorðna fólkinu frábært tækifæri til að deila og berjast og slást um það sem skiptir börnin nákvæmlega ekki nokkru einasta máli. Af því að börnin vita betur en ríkið að eftir skilnað búa börnin á tveimur stöðum, eiga tvö heimili.

Af hverju ryðst ríkið þá með þessum hætti inn í heim barnanna og hvetur foreldrana til að berjast um eitthvað sem er fáránlegt í heimi barnanna?
Ástæðan er bara ein: Það er miklu einfaldara fyrir ríkið og allt apparat þess, skattheimtuna, bótakerfið, hagstofuna, allar skrár í öllu ríkinu, að hvert barn sé skráð á einum stað. En þetta er líka gert undir því yfirskini að þetta hljóti að auðvelda barninu einnig að sætta sig við skilnaðinn.

Félag ábyrgra feðra telur að ágreiningur um forsjá í þessu kerfi snúist gjarnan upp í valdabaráttu svo að foreldrarnir ruglast á velsæld barnsins og innbyrðis valdabaráttu sinni. Í núverandi kerfi – eins foreldris forsjá – fylgir forsjá margvíslegt vald. Forsjárforeldri ræður lögheimili barns, getur flutt með það hvert sem er innanlands sem utan, ræður menntun barnsins, tómstundaiðkun þess, og almennt hugmyndafræðinni sem barnið elst upp í. Með þessu mikla valdi sem fylgir forsjárákvörðun ýtir ríkið undir rugling foreldranna. Um leið býr það til þann skilning í samfélaginu að eftir skilnað eigi barn eitt heimili og gisti á heimili forsjárlausa foreldrisins. Niðurstaða forsjárákvörðunar verður þar með sú að annað foreldrið hefur öll völd og hitt er valdalaust.

Félag ábyrgra feðra telur að samfélagið eigi að fylgja hyggjuviti barnanna hvað varðar búsetu, heimili og lögheimili. Því eigi að gera sameiginlega forsjá og jafna umönnun að meginreglu og viðurkenna að börn búi á tveimur stöðum eftir skilnað. Margar viðamiklar langtímarannsóknir í Bandaríkjunum sýna einnig augljósa kosti þessa fyrirkomulags. Má hér nefna rannsóknir sérfræðinga eins og Jay Folberg, Judith Wallerstein, Carol B. Stack, Muriel Brotsky og Jeffery M. Leving sem segja okkur að börn á öllum aldri læra ótrúlega fljótt að lifa ánægð við þær aðstæður að búa jafnt hjá báðum foreldrum sínum.

Í þessum rannsóknum er gjarnan skoðaður hópur foreldra sem deila hart um forsjá og umgengni eftir skilnað, foreldrum sem ráðgjöfum hefur samt tekist að telja á að prófa sameiginlega forsjá og jafna umönnun. Er skemmst frá að segja að þremur árum eftir ákvörðunina una langflest barnanna – og foreldranna – glöð við sitt. Hlutfall þeirra barna sem hafa aðlagast skilnaðinum vel er verulega hærra en þar sem annað foreldrið fær forsjána og barnið “umgengst” hitt foreldrið. Þannig benda þessar erlendu langtímarannsóknir eindregið til að sameiginleg forsjá og jöfn umönnun virki mun betur en eins foreldris forsjá hjá talsvert stórum hópi.

Félag ábyrgra feðra telur að ef ríkið legði þá línu að við skilnað sé forsjá sameiginleg og börnin búi jafnt hjá báðum foreldrum þá færi fólk almennt að hugsa þessi mál öðruvísi en í dag. Ruglingurinn við valdabaráttuna myndi minnka, forsjárágreiningurinn væri úr sögunni, og fólk hefði í huga þá skyldu sína að vernda börnin og treysta velsæld þeirra. Ofangreindar rannsóknir benda ótvírætt til þess að það dragi úr ágreiningi þegar fólk velur þetta fyrirkomulag.

Félagið bendir á að hér er á ferðinni kerfisbreyting í líkingu við breytingu úr vinstri í hægri umferð eða lögleiðingu bílbelta. Strax við framkvæmd þeirra laga hegðaði fólk sér almennt í samræmi við lögin. Hið opinbera hafði nefnilega valið fyrir fjöldann.

Í forsjármálum velur hið opinbera fyrir fjöldann. Félag ábyrgra feðra telur að það hafi valið rangt með kerfi eins foreldris forsjár með mikilli umönnun annars foreldris en lítilli sem engri umönnun hins foreldrisins, og eigi að breyta yfir í sameiginlega forsjá og jafna umönnun þar sem barnið nýtur umönnunar og stuðnings beggja foreldra. Félag ábyrgra feðra telur að hið opinbera eigi að skipta út kerfi sem ýtir undir ágreining og vanlíðan foreldra jafnt sem barna og velja kerfi sem reynsla og rannsóknir sýna að er börnunum miklu betra, er foreldrunum miklu betra og er samfélaginu miklu
betra: veljum sameiginlega forsjá og jafna umönnun.

Höfundur er formaður Félags ábyrgra feðra.

mbl.is 17.05.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0