Fimm þingmenn, einn úr hverjum flokki, hafa lagt fram frumvarp til lögfestingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Lögfesting sáttmálans hefur þá þýðingu að einstaklingar geta leitað réttar síns samkvæmt samningnum fyrir dómstólum. Þannig mun þessi 23 ára samningur sem staðfestur var á Alþingi Íslendinga fyrir 20 árum loksins öðlast raunverulegt gildi fyrir íslensk börn.

Flutningsmenn frumvarpsins eru:

1. Helgi Hjörvar 4. þm. RN, Sf
2. Ólöf Nordal 2. þm. RS, S
3. Birkir Jón Jónsson 2. þm. NA, F
4. Álfheiður Ingadóttir 10. þm. RN, Vg
5. Margrét Tryggvadóttir 10. þm. SU, Hr

Vissulega eru það gleðitíðindi að frumvarp þessa eðlis skuli vera lagt fram á Alþingi og flutningsmenn þess eiga heiður skilinn, en þó ber að hafa það í huga að þingmannafrumvörp verða sjaldan að lögum.

Frumvarp um sama efni var lagt fyrir Alþingi á síðasta vorþingi eða 16.4.2012. Frumvarpið komst aldrei á dagskrá Alþingis.

Flutningsmenn þá voru:

1. Helgi Hjörvar 4. þm. RN, Sf
2. Ásta R. Jóhannesdóttir 10. þm. RS, Sf
3. Árni Þór Sigurðsson 5. þm. RN, Vg
4. Álfheiður Ingadóttir 10. þm. RN, Vg
5. Eygló Harðardóttir 7. þm. SU, F
6. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir 4. þm. RS, Sf
7. Ólína Þorvarðardóttir 7. þm. NV, Sf
8. Jónína Rós Guðmundsdóttir 10. þm. NA, Sf
9. Skúli Helgason 7. þm. RS, Sf
10. Árni Páll Árnason 1. þm. SV, Sf
11. Magnús Orri Schram 7. þm. SV, Sf

Íslendingar hafa státað sig af því í tuttugu ár að hafa staðfest Barnasáttmálann ásamt 192 öðrum þjóðum og vísa iðulega í að einungis Bandaríkin og Sómalía hafi ekki staðfest samninginn. Í mörgum og jafnvel meirihluta þessara landa öðlaðist samningurinn lagalegt gildi strax við staðfestingu en ekki á Íslandi. Einstaklingar á Íslandi geta ekki frekar en einstaklingar í Bandaríkjunum eða Sómalíu leitað réttar síns fyrir dómstólum og byggt kröfur sínar á Barnasáttmálanum. Það getur því flokkast sem hræsni að hefja Ísland yfir Bandaríkin og Sómalíu vegna staðfestingar á þessum góða samningi.

Íslensk stjórnvöld lofa að framfylgja samningnum við staðfestingu hans. En ætli stjórnvöld að standa við loforðið, þá væri hægur leikur að lögleiða samninginn og í rauninni eina leiðin til þess að tryggja að Ísland efni loforðið. Tregða stjórnvalda undanfarinn 20 ár við að gera einstaklingum kleyft að leita réttar síns út frá þessum samningi setur Íslendinga nær Bandaríkjunum og Sómalíu en þeim löndum sem lögleiddu samninginn undanbragðalaust.

Árið 2009 var fyrst lagt fram frumvarp til lögfestingar á Barnasáttmálanum. Enn eru frumvörp til lögleiðingar á sáttmálanum á höndum þingmanna en ekki ríkisstjórnar. Á sama tíma og ég vonast til þess að þetta þingmannafrumvarp nái fram að ganga þá skora ég á ríkisstjórnina að taka málið til sín og lögfesta samninginn.

Það er til skammar fyrir Ísland að íslensk börn njóti ekki verndar samkvæmt Barnasáttmálanum í dómsölum landsins.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0