Mánudaginn 9. október, 2006 – Ritstjórnargreinar

Barnvænt þjóðfélag?

Í íslensku þjóðfélagi hefur margt verið gert til þess að auðvelda foreldrum að vinna og ala upp börn sín. Ísland myndi ábyggilega teljast foreldravænt samfélag. En er það barnvænt?

Í íslensku þjóðfélagi hefur margt verið gert til þess að auðvelda foreldrum að vinna og ala upp börn sín. Ísland myndi ábyggilega teljast foreldravænt samfélag. En er það barnvænt? Þessari spurningu hefur verið varpað fram í greinum Helgu Kristínar Einarsdóttur og Orra Páls Ormarssonar í Morgunblaðinu undanfarna þrjá sunnudaga.

“Samfélag okkar er að mínu mati mjög mikið byggt upp í kringum þarfir fullorðna fólksins og oft finnst mér eins og við tökum ekki einu sinni með í reikninginn, hverjar þarfir barnanna okkar kunna að vera,” segir Eva María Jónsdóttir. “Ef við pældum í því, væri kerfið hliðhollara fólki sem vill bera meginþungann af umönnun barna sinna fyrstu árin.”

Enginn vafi leikur á því að Íslendingar hafa það flestir gott og búa við góð lífskjör. Togstreitan milli vinnu og heimilis er hins vegar mikil á okkar tímum og oft virðist vinnan hafa betur. Hverjar eru afleiðingarnar?

Í greinunum komu fram ýmis svör. Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna, er þeirrar hyggju að þegar komi að tilfinningalegu atlæti sé hægt að gera betur við börnin. Hún bendir á að 71% barna dvelji átta klukkustundir eða lengur á leikskóla á hverjum degi og það sé lengri tími að meðaltali en hjá starfsfólkinu og telur að hægt eigi að vera að gefa börnunum meiri tíma. “Þá er ég ekki bara að tala um foreldra barnanna heldur samfélagið allt,” segir hún og bætir við að eðlilegt sé að upphaf þess að taka á málum sé hjá fjölskyldunni, en atvinnulífið og hið opinbera geti ekki skorast undan: “Þá er ég ekki bara að tala um fjárframlög. Þetta er líka spurning um viðhorf og tillitssemi.”

Hrefna Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og sérfræðingur í fjölskyldumeðferð, segir að tilfinningaleg vanræksla barna virðist hafa færst í aukana. Á tuttugu ára starfsferli hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans hefur hún séð miklar breytingar: “Hér áður fyrr komu ekki nokkur einustu börn hingað inn, sem langaði ekki til þess að lifa lengur. Í dag kemur hópur barna sem langar ekki til þess að vera til. Maður heyrir meira að segja eitt og eitt sjö, átta eða níu ára barn, segja að það langi ekki að lifa, og þegar börnin eru komin á unglingsaldur, virðist depurð hreinlega vera eins og faraldur í hinum vestræna heimi.”

Baldur Kristjánsson, dósent í þroskasálfræði og uppeldisgreinum við Kennaraháskóla Íslands, segir að agaleysi sé þjóðarmein á Íslandi. Hann tók á níunda áratugnum þátt í samanburðarrannsókn á högum barna á Norðurlöndum. Niðurstöðurnar sýndu að íslenskir foreldrar gáfu sig almennt minna að börnum sínum en hinir norrænu foreldrarnir. Baldur nefnir að hér þyrfti að koma því á að gerður yrði verksamningur milli foreldra og stofnana um hver eigi að gera hvað. Foreldrar bæru þá tiltekna ábyrgð, samvinna væri milli foreldra og kennara í uppeldinu og enginn geti vísað ábyrgðinni frá sér. Þessi mál eru of brýn til þess að hægt sé að bíða aðgerða. Framtíð íslenskra barna er of dýrmæt til þess. Börn verða fyrir gríðarlegum þrýstingi frá öllum hliðum í samfélaginu og vandinn verður ekki leystur með einu pennastriki. Til að leysa hann þarf breytt hugarfar í þjóðfélaginu öllu, allt frá fjölskyldunni til fyrirtækja og stjórnkerfisins. Vandinn verður ekki leystur með peningum einum saman. Það kostar tíma að leysa hann. Íslendingar verða að gefa sér þann tíma eigi Ísland að verða barnvænt land.

www.mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0