Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um breytingar á sifjalögum. Á meðal helztu breytinganna er að sameiginleg forsjá foreldra við skilnað eða sambúðarslit verði meginreglan í lögum, en sérstaklega þurfi hins vegar að semja um að annað foreldra fari með forsjá barna.
 
Í frumvarpi dómsmálaráðherra er ennfremur lagt til að barnalögum verði breytt þannig að heimilt verði að beita þvingunarúrræðum laganna í þeim tilfellum sem ekki er framfylgt ákvörðun sýslumanns um umgengni við börn. Björn Bjarnason sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að talin væri þörf á þessari breytingu þar sem borið hefði á því að foreldrar færu ekki eftir úrskurði sýslumanns meðan mál væru til meðferðar í ráðuneytinu.

Þessar lagabreytingar eru bæði í þágu barna og foreldra. Reynslan af sameiginlegri forsjá er jákvæð. Samstarf foreldra um uppeldi barnsins gengur betur, það foreldri sem barnið býr ekki hjá – ef þannig háttar til – er í mun nánari tengslum við barnið, afar og ömmur úr báðum fjölskyldum sömuleiðis. Börnunum líður betur og foreldrunum líka. Það eru gallar á fyrirkomulaginu, en kostirnir virðast miklu fleiri.

Þeim fer hratt fjölgandi, sem velja sameiginlega forsjá er til sambúðarslita eða skilnaðar kemur. Árið 2003 kusu yfir 60% barnafólks, sem sleit samvistir, að hafa sameiginlega forsjá með börnum sínum. Í flestum tilfellum, þar sem foreldrar ákveða að hafa ekki sameiginlega forsjá, gengur samstarfið um uppeldi barnsins þó nokkuð áfallalaust. Hins vegar eru til skelfilega sorgleg dæmi, og því miður alltof mörg, um að forsjárlausum foreldrum, aðallega feðrum, sé meinað að hafa samskipti við börn sín. Þetta kemur niður á sálar- og tilfinningalífi foreldranna og ekki síður, jafnvel miklu frekar, á börnunum sem eru svipt samvistum við annað foreldri sitt. Þetta eru erfið og viðkvæm mál, en úrræðaleysi stjórnvalda þegar að því kemur að koma á eðlilegri umgengni barns og forsjárlauss foreldris hefur oft verið hróplegt. Það er því tvímælalaust skref í rétta átt að dómsmálaráðherra leggur nú til að hægt verði að beita t.d. dagsektum til að fá forsjárforeldra, sem tálma umgengni foreldris og barns, til að virða rétt beggja.

Með þeirri breytingu, að sameiginleg forsjá verði meginreglan við skilnað eða sambúðarslit, er vonandi stuðlað að því að þessum málum fækki. Löggjafinn gefur þá skýrt til kynna, að uppeldi barna sé sameiginlegt verkefni foreldra, bæði í hjónabandi og sambúð og eftir að sambandi foreldra er slitið. Það eru ótvíræð skilaboð, bæði til þeirra sem líta svo á að annað foreldrið geti útilokað hitt frá samskiptum við barnið sitt, og til hinna sem telja að annað foreldrið geti látið sig hverfa og ekki sinnt skyldum sínum. Allt frá getnaði bera báðir foreldrar ábyrgð á börnunum sínum, sem er jöfn, sameiginleg og þeir geta ekki hlaupizt undan.

Mbl.is, Föstudaginn 21. október, 2005 – Ritstjórnargreinar

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0