Í greinargerð með frumvarpi til barnalaga 2002 (sem tóku gildi 1. nóvember 2003) bendir sifjalaganefnd á að til sé ákveðin lágmarksumgengni, en vildi samt ekki setja slíkt í lög á þeirri forsendu að „með því væri gengið lengra í afskiptum yfirvalda af einkalífi fólks en nauðsynlegt er og að slíkar reglur gætu gengið gegn hagsmunum barna“.

Lágmarksumgengni er svo í samræmi við þetta skilgreind mjög losaralega: „að barn dveljist aðra hverja helgi hjá því foreldri sínu sem það býr ekki hjá . . . um jól, áramót og páska og í sumarleyfi“ (s. 66). Hvort umgengni hefst á fimmtudegi, föstudegi eða laugardegi verður að ráðast af hagsmunum barns. Vilji forsjárforeldri minnka umgengni hins foreldrisins „verður sú krafa almennt gerð að foreldrið færi fram viðhlítandi rök máli sínu til stuðnings og sýni fram á að sérstakar aðstæður sem réttlætt geti að umgengni verði skert miðað við það sem venjulegt getur talist.“ (s. 66)

Af þessari óljósu reglu má ljóst vera að sifjalaganefnd telur eðlilegt að barnið sé að lágmarki um það bil 86 daga á ári hjá forsjárlausa foreldrinu. Félag ábyrgra feðra getur ekki fallist á svo lítinn tíma til að byggja upp traust og gott samband forjárlauss foreldris (föður) og barns, og má hér benda á bæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Hvíta pappír Evrópusambandsins því til áréttingar að sem mest samskipti séu það eina sem dugi til að treysta það samband. Sifjalagaefnd gengur þannig að því sem gefnu að til sé óskráð meginregla, eða hefð fyrir einhverri lágmarksumgengni. Þetta kver Alþingis, Frumvarp til barnalaga, býr til skráða meginreglu um lágmarksumgengni.

Tillögur Félags ábyrgra feðra 2002 – 118 dagar á ári

Í nóvember 2002 lagði Félag ábyrgra feðra þá tillögu fyrir allsherjarnefnd Alþingis að lágmarksumgengni yrði skilgreind í lögunum (frekar en í greinargerð) sem 118 dagar á ári og miðaði þá við aðra hverja helgi, fjórar vikur að sumri, viku um stórhátíðir (páska, jól og áramót) til skiptir. Félag ábyrgra feðra telur eðlilegt að koma þessum dagafjölda að sem oftast og má kalla hann óskráða meginreglu eða sanngirnisreglu. Þannig stuðlum við að því að rýmka regluna og reyndar, eins og nefndin segir, einnig að auknum afskiptum af einkalífi fólks.

Ársskýrsla ráðgjafa sýslumannsembættanna 2001 – 123 dagar á ári

Loks má benda á að í Ársskýrslu ráðgjafaþjónustu í umgengnis- og forsjármálum hjá sýslumannsembættunum á suð-vesturhluta Íslands, árið 2001 eftir sálfræðingana Jóhann B. Loftsson og Gunnar H. Birgisson segja þeir að eftirfarandi sé „grunnviðmið um lágmarksumgengni“:

Í stórum dráttum má segja að í dag séu grunnviðmið um lág-marksumgengni þessi: Miðað er við að barn fari til forræðislauss foreldris aðra hverja helgi frá föstudags-eftirmiðdegi til mánu-dagsmorguns. Barnið fari auk þess til þess foreldris einn eftir-miðdag á virkum degi aðra hverja viku. Það dvelji samfellt í 4 vikur í sumarfríi hjá forræðislausa foreldrinu og að auki eina viku á haustmisseri og eina viku á vormisseri. Á jólum er oftast miðað við að barnið dvelji á lögheimili sínu á aðfangadagskvöld en fari til hins foreldrisins í heimsókn á Þorláksmessu og jóladag. Almenna reglan er að börnin séu til skiptis hjá foreldrum sínum um áramót.

Samkvæmt þessari útlistun ráðgjafa sýslumannsembættanna er lágmarksumgengni skilgreind í minnsta lagi sem 123 dagar á ári.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0