Leikskólagjöld á höfuðborgarsvæðinu lækkuðu nú um áramótin sem nemur tveggja stunda gjaldfrjálsri vistun. Er þetta samkvæmt samþykkt borgarstjórnarinnar frá 7. desember síðastliðinn. Samkvæmt fréttatilkynningu frá skrifstofu borgarstjóra mun almennt leikskólagjald fyrir átta stunda vistun lækka um tæpar 5.000 kr. á mánuði, eða um 55.000 krónur á ári sé miðað við ellefu mánaða skólagöngu á ári.

Einnig var samþykkt að hækka til muna niðurgreiðslur til dagforeldra. Hækkunin nemur á bilinu 43-59% eftir félagslegri stöðu foreldra. Í tilkynningunni segir að lækkun leikskólagjaldanna sé annað skrefið í átt til gjaldfrjáls leikskóla í höfuðborginni, en Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri kynnti þá stefnumótun síðast liðið vor. Í fyrsta skrefinu, sem stigið var haustið 2004, fólst að fimm ára gömlum börnum stóðu til boða þrjár gjaldfrjálsar stundir á dag.

Lækkunin nú kemur fimm ára börnunum einnig til góða. Fram kom hjá borgarstjóra, þegar áformin voru kynnt í mars sl., að árlegur sparnaður hjóna með eitt barn í átta stundir á leikskóla á dag, muni nema ríflega 200 þúsund krónum á ári, þegar öll skrefin hafa verið stigin í átt til gjaldfrjáls leikskóla.

Innlent | mbl.is | 2.1.2006 | 09:46

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0