Körlum verður boðið á lokafundinn.
Um áttatíu konur – og einn karlmaður – sóttu ráðstefnuna “Konur, starfsframi og fjölskyldan”, sem haldin var í Listasafni Reykjanesbæjar síðastliðinn fimmtudag. Hópur kvenna stóð að ráðstefnunni, eins og sambærilegri ráðstefnu á síðasta ári, og aðsóknin nú var mun meiri.
“Við höfum unnið að þessu verkefni í þrjú ár nokkrar konur sem gegna stjórnunarstöðum hjá Reykjanesbæ. Tilgangurinn er að reyna að efla aðrar konur til að takast á við ábyrgðarstörf, hjálpast að við að ná árangri og hafa áhrif á þróun samfélagsins,” segir Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar. Hópurinn hefur síðan verið víkkaður út og fleiri tekið þátt í starfinu.

Í fyrravetur hélt hópurinn ráðstefnuna “Konur, aukin áhrif á vinnumarkaði” og þótti hún takast vel. Í framhaldi af henni var sett upp tengslanet kvenna sem haldið hefur verið gangandi síðan.

Lýkur með nýrri ráðstefnu
Fjöldi góðra framsögumanna hélt erindi á ráðstefnunni í Listasafni Reykjanesbæjar. Guðbjörg Jóhannsdóttir, einn skipuleggjenda, telur, að gestir ráðstefnunnar hafi kunnað að meta þær ráðleggingar sem fram komu í erindum framsögumanna. Hún nefnir að mikilvægt sé að konur sem einbeiti sér að starfsframa skapi svigrúm til að aðrir geti tekið til hendinni á heimilinu, annað hvort að makinn komi í auknu mæli inn í störfin og þá á sínum forsendum eða þá að keypt sé aðstoð. Þá segir hún að skýrt hafi komið fram að konur og karlar séu með ólíkan stjórnunarstíl. Í sumum tilvikum mætti velta því fyrir sér hvort ímynd tiltekinna stjórnunarstarfa væri karllæg, án þess að það eigi sér stoð í starfinu sjálfu. Þetta þurfi að athuga. “Ég held að niðurstaðan sé sú, að við erum komnar áleiðis en allt tekur þetta tíma. Markmiðið er að allir, sem búa að sérþekkingu, fái jöfn tækifæri, jafnt konur sem karlar,” segir Guðbjörg.
Hjördís Árnadóttir segir fyrirhugað að ljúka þessu verkefni með ráðstefnu að ári og til hennar verði boðið jafnt konum sem körlum. “Það er markmiðið að við getum unnið saman að þessu. Við gerum okkur vonir um að þá taki aðrir við þessu hlutverki, að efla okkur jafnt til góðra verka,” segir Hjördís.

mbl.is, Laugardaginn 18. mars, 2006 – Innlendar fréttir
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0