Þegar talað er um jafnrétti á vinnumarkaðnum viljum við vera á 21. öldinni en þegar kemur að forræðismálum eða því sem snýr að börnum hverfum við 50-60 ár aftur í tímann.
Eiga börn ekki rétt á jafnrétti? Er ekki kominn tími til að endurskoða þessi mál? Er ekki sameiginlegt forræði hugsun nútímans?

Um áramótin var sagt að aukin áhersla á fjölskylduna myndi ýta konunni aftur inn á heimilið. Ég spyr er fjölskyldan bara konan? Eru feður og börn ekki líka fjölskylda? Ef karlmaðurinn fengi að sjá meira um börnin sín, hvort sem hann er giftur eða ekki þá hafa konur meiri tíma til að sinna öðrum málum.

Í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands stendur í sjöunda kafla, 65. grein: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Afhverju er þá konunni dæmt forræðið yfir börnunum ef maðurinn er talinn jafn hæfur? Er það ekki mannréttindabrot? Jú, og ráðið við þeim er að lögfesta sameiginlegt forræði sem meginreglu við skilnað – eins og forsjárnefnd og dómsmálaráðherra hafa núna boðað.

Að svipta foreldri forræði yfir barni sínu er hreint mannréttindabrot – hvort sem um er að ræða móður eða föður. Það stendur ekkert um það í Barnalögunum að það megi svipta foreldri forræði. Barnalögin segja hins vegar að barnið skuli eiga heimili hjá móður eða föður. Því tel ég það bæði mannréttindabrot og lögbrot þegar annað foreldrið er svipt forræði yfir barni sínu.

Þurfum við ekki að hlúa meira að börnunum og virða rétt þeirra? Móðir meinar barni sínu að hitta jafn hæfan föður þess og fær sér jafnvel lögfræðing til að fyrirbyggja að hann geti séð barnið nema á einhverjum pabbahelgum – og jafnvel ekki einu sinni það. Það er meira en lítið að hjá svona móður. Samt er þetta látið viðgangast í þjóðfélaginu núna á 21. öldinni. Er ekki kominn tími til að svona móðir fái svipaðan dóm og faðir sem misnotar börnin sín? Umgengnistálmun er ekkert annað en barnamisnotkun.

Konur, vitið þið að ef þið farið einar með forræðið þá berið þið einar ábyrgð ef börnin ykkar valda tjóni, hvort sem þau eru hjá ykkur eða föður þeirra? Föðurnum ber heldur engin skylda til að taka þátt í kostnaði eins og tómstundagjöldum eða fatakaupum. Og í raun ættuð þið að senda allt sem börnin þurfa með þeim þegar þau fara í dvöl hjá föður sínum.

Væri ekki betra að báðir foreldrarnir væru með forræðið? Eru það ekki jafnréttindi? Eða viljið þið kannski ekki jafnrétti í raun? Eru meðlögin kannski meira virði en framtíð barnanna? Finnst ykkur réttlátt að feður borgi meðlag þá daga sem þeir hafa börnin? Sumir feður fá að hafa börnin nánast eins marga daga í mánuði og móðirin, en þurfa samt að borga meðlög án þess að fá nokkra skýringu á því ef spurt er.

Það er skrítið að faðirinn fái ekki að taka þátt í að ala barnið sitt upp. Nái hann sér í konu með barn er hann hins vegar talinn hæfari til að ala upp hennar barn en sitt eigið. Ef konan fellur frá þá fær faðirinn að hafa börnin og þá styðja öll yfirvöld hann. Er ekki eitthvað bogið við þetta? Konur tala um að þær fái engu að ráða í samfélaginu, en stjórnum við ekki ansi miklu í rauninni? Alla bernskuna fyrirhittir barnið aðeins konur við völd; það er fyrst á unglingsárunum sem það hittir karlmann og þá er það því miður lögregluna.

Ég vil skora á yfirvöld að láta á að kanna hvort eins foreldris forsjá feli ekki í sér mannréttindabrot gagnvart börnum og forræðislausum foreldrum. Börnin okkar eru framtíð þjóðarinnar. Er þetta kannski ekki nóu gott mál til þess að taka upp á þingi? Ekki eins gott og málið með Bobby Fischer sem tók bara einn dag? Við erum þó að tala um börnin okkar, framtíð þjóðarinnar, eru þau ekki nógu krassandi fyrir þingið?

Afar og ömmur og aðrir sem bera hag barna fyrir brjósti – látið í ykkur heyra. Mæður sem virða rétt barna sinna við skilnað – stöndum saman og látum í okkur heyra. Virðum rétt barna á Íslandi.

Guðrún H. Friðriksdóttir

Grein úr Fréttablaðinu 10.07.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0