Best félagslega að búa hjá báðum lífforeldrum
Um 2/3 hlutar barnanna búa hjá báðum foreldrum. 15,9% búa hjá einstæðri móður, 11,8% hjá móður og stjúpföður, 2,1% hjá öðrum en foreldrum, 1,6% hjá einstæðum föður og 1,0% hjá föður og stjúpmóður. Almennt mælist líðan barnanna góð. Þó segja þau sem búa hjá einstæðum föður sjaldnar að þeim líði vel en 81,8% þeirra sögðu sér líða vel á móti 91,6% barna sem búa hjá báðum foreldrum.
Benedikt segir raunar að í þessari könnun hafi tengsl líðunar barna verið einna sterkust við það hvernig börnunum gekk í samskiptum við jafnaldra. Því skipti miklu að við skilnað setji foreldrar í forgang að stuðla að samfellu í tengslum barna við félaga.
Þegar samskipti barnanna við jafnaldra eru skoðuð í tengslum við fjölskylduaðstæður kemur í ljós að þeim sem búa hjá báðum lífforeldrum vegnar félagslega best en þau sem búa hjá einstæðum feðrum eiga undir högg að sækja. Þau sem búa hjá móður lenda þarna á milli en nær þeim sem búa hjá báðum foreldrum.
Hlutfall barna sem eiga enga eða fáa vini er helmingi hærra hjá þeim sem búa hjá einstæðum föður en hjá þeim sem búa hjá báðum foreldrum, eða 15,5% á móti 8,0%, sbr. meðfylgjandi töflu. Hlutfall barna sem oft eða stundum eru skilin útundan er 17,1% hjá þeim sem búa hjá einstæðum feðrum en 7,0% hjá þeim sem búa hjá báðum foreldrum og 8,9% hjá þeim sem búa hjá einstæðum mæðrum.
Hafa skyldi í huga að orsakir erfiðari félagslegra aðstæðna þeirra barna sem búa hjá feðrum má líklega rekja til margs og ekki endilega þess að feðurnir standi sig illa.
mbl.is Fimmtudaginn 8. júní, 2006 – Innlendar fréttir
Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur aps@mbl.is
Leave A Comment
You must be logged in to post a comment.