“Mér finnst vera kominn tími til þess að karlar komi um borð,” segir Árni Magnússon félagsmálaráðherra, sem á fundi jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins í gær kynnti hugmynd um karlaráðstefnu. Aðspurður sagði Árni vonast til þess að hægt verði að fara af stað með innlenda karlaráðstefnu nú í haust og í framhaldinu alþjóðlega karlaráðstefnu vorið 2006.

“Ég tel að það sé mjög mikilvægt að karlar ræði þessi mál, því jafnréttismál eru ekkert síður okkar mál en kvenna. Sem betur fer höfum við verið að ná góðum árangri hérlendis, en við getum gert betur,” sagði Árni í samtali við Morgunblaðið. Aðspurður sagði hann hugmyndina að karlaráðstefnu ekki vera sína, heldur frá Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, en í ávarpi sínu á málþingi um jafnrétti í Borgarleikhúsinu fyrir ári gagnrýndi Vigdís það að alltaf væru það aðeins konur sem mættu þegar ræða ætti jafnréttismál. “Þá kviknaði ljós hjá mér og ég hef síðan rætt þessa hugmynd um karlaráðstefnu bæði við hana og fleiri aðila og er sannfærður um að þetta sé það sem við eigum að gera,” segir Árni og upplýsir að hann vonist til þess að í framhaldi af innlendu ráðstefnunni verði hægt að halda hérlendis alþjóðlega karlaráðstefnu. “Því ég vil meina að við Íslendingar séum í ákveðnum fararbroddi í jafnréttismálum og höfum einhverju að miðla.”

Aðspurður segist Árni búast við því að meginviðfangsefni innlendu ráðstefnunnar verði að fara yfir það hvað hafi áunnist á umliðnum árum og eins verði rætt með hvaða hætti karlmenn geti orðið virkari og haft meiri áhrif á jafnréttisbaráttuna. “Og hvernig við getum tryggt að árangur verði meiri.”

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að jafnréttisumræðan verði öðruvísi þegar aðeins karlar taki þátt í umræðunni svarar Árni því játandi. “Ég er eiginlega alveg viss um að umræðan verði svolítið öðruvísi og ég held að jafnréttisbaráttan hafi gott af því. Með því er ég ekki að gagnrýna hvernig hún er, heldur miklu frekar að segja að við getum útvíkkað hana,” segir Árni og tekur fram að hann telji að til þess að hægt verði að ná næstu áföngum í jafnréttisbaráttunni þá þurfi karlar að verða miklu virkari en þeir eru í dag.

mbl 14.09.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0