Ásta Möller fjallar um fæðingarorlofsrétt: “Skilaboð stjórnar KEA til fólks á barneignaraldri eru dapurleg.” Viðhorf meirihluta stjórnar KEA til fæðingarorlofs æðstu stjórnenda fyrirtækja og til málefna fjölskyldunnar yfirleitt hafa vakið mikla umræðu og orðið mörgum umhugsunarefni.

Það liggur fyrir að framkvæmdastjóri fyrirtækisins hætti störfum í kjölfar þess að hann óskaði eftir að nýta sér lögbundinn rétt sinn til fæðingarorlofs. Það staðfestir m.a. bókun minnihluta stjórnar á stjórnarfundi þar sem gerðar voru athugasemdir við forsendur starfsloka framkvæmdastjórans. Starfslokin eru nú skýrð með því að ekki hafi ríkt trúnaður milli stjórnar og framkvæmdastjóra. Þeirri spurningu er hins vegar ósvarað hvort framkvæmdastjórinn væri enn í starfi hefði hann ákveðið að nýta ekki fæðingarorlofsrétt sinn.

Skilaboð stjórnar KEA til fólks á barneignaraldri eru dapurleg. Ef fæðingarorlof á eingöngu við fólk í almennum störfum og á venjulegum launum en ekki um karlmenn í æðstu stöðum á “alvörulaunum” hlýtur hið sama að gilda um konur í æðstu stöðum. Skilaboðin eru því þau að konur á barneignaraldri eigi ekki að ómaka sig að sækja um slíkar stöður, hafi þær hug á að eignast börn og standa undir fjölskylduábyrgð. Augljóst er að þessi viðhorf fela jafnframt í sér að þeir sem gegna æðstu stöðum þurfi að eiga heimavinnandi maka til að geta staðið undir atvinnuábyrgð.

Á síðustu áratugum hafa íslenskir foreldrar haldið því að börnum sínum að afli þau sér menntunar og axli ábyrgð á þeim verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur geti þau vænst þess að njóta afraksturs þess, án tillits til kynferðis. Markmið fæðingarorlofslaga um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs er að auka jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og stuðla að jafnari fjölskylduábyrgð í barnauppeldi og á heimilum. Flestir eru sammála um vel hafi tekist til. Það er augljóst á viðbrögðum í samfélaginu að þau viðhorf sem endurspeglast í ákvörðun stjórnar KEA eiga ekki upp á pallborðið meðal fólks. Það er hins vegar gott að þau koma fram, til að hægt sé að ræða þau og taka afstöðu til þeirra. Mín skoðun er sú að umræðan hafi styrkt stöðu karla sem kvenna, jafnt þeirra sem eru á almennum launum og “alvörulaunum”, gagnvart rétti sínum til fæðingarorlofs.

Ásta Möller
Höfundur er varaþingmaður og formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0