Fundur kvenna, sem gegna starfi menningarmálaráðherra, og ýmissa annarra kvenleiðtoga stendur nú yfir hér á landi. Fundurinn er meðal annars haldinn til að heiðra Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, í tilefni af 75 ára afmæli hennar fyrr á árinu og að 25 ár eru liðin frá því hún varð fyrsta konan, sem hlaut kjör í embætti forseta í lýðræðislegu þjóðkjöri.

Kjör Vigdísar á sínum tíma var merkilegur viðburður í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og jók mörgum bjartsýni. Eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og gestgjafi fundar kvenleiðtoganna, sagði í ræðu sinni við setningu fundarins í gær, hefur Vigdís orðið ótal ungum stúlkum fyrirmynd; sönnun þess að konur geta náð langt og staðið jafnfætis körlum. Engu að síður hefur að margra mati miðað hægar í átt til jafnréttis hér á landi undanfarin 25 ár en margir vonuðu eftir kjör Vigdísar Finnbogadóttur. Gömul viðhorf til hlutverka kynjanna eru lífseig.

Á fundi ráðherranna er sjónum m.a. beint að stöðu kvenna og ástandi jafnréttismála í heiminum. Cherie Booth, lögmaður og eiginkona Tonys Blair, forsætisráðherra Bretlands, kynnti í gær niðurstöður skýrslu, sem World Economic Forum lét vinna fyrr á árinu um stöðu kvenna í 58 ríkjum. Ísland kemur þar vel út, er í 3. sæti, m.a. vegna mikillar atvinnuþátttöku kvenna og framsækinnar löggjafar um fæðingar- og foreldraorlof. Þá stuðlar löng forsetatíð Vigdísar að því að hækka Ísland á listanum. Engu að síður fylgja þessu þriðja sæti engin verðlaun, eins og Morgunblaðið sagði er það fjallaði um skýrsluna í leiðara í maí síðastliðnum. Við erum ekki komin í mark; enn er mikið starf óunnið. Konur standa körlum ekki jafnfætis hvað varðar völd og áhrif á þróun samfélagsins hér á Íslandi frekar en nokkurs staðar annars staðar í heiminum.

Lykillinn að frekari árangri í jafnréttismálum er án nokkurs vafa að jafnréttisbaráttan hætti að vera það einkamál kvenna, sem hún hefur því miður oft verið, og að karlar og konur taki höndum saman um að breyta gömlum og úreltum viðhorfum. Vigdís Finnbogadóttir hefur kallað eftir því að karlar fari að láta sjá sig á fundum um jafnréttismál. Í Morgunblaðinu í dag segir hún að því miður gangi illa að koma þessu á. Cherie Booth tekur í samtali við Morgunblaðið í dag undir með Vigdísi.

Booth hefur augljóslega skilning á því að til þess að ná árangri í jafnréttisbaráttunni þarf að útskýra fyrir körlum hvað þeir græði á henni. “Við þurfum að tryggja að jafnréttismál séu nokkuð sem varði samfélagið allt, jafnt konur og karla,” segir Booth. “Því það gera þau auðvitað, ekki bara þannig að konur eigi að njóta réttinda á vinnumarkaði á við karla. Karlar vilja ekki alltaf vera fastir í vinnu, heldur vilja þeir njóta tíma inni á heimilunum og með fjölskyldum sínum. Ég held að þeir sækist ekki sérstaklega eftir því að vera fyrirvinnur.”

Cherie Booth segir sömuleiðis: “Við þurfum að koma jafnréttisumræðunni inn í almenna umræðu. Það má ekki vera þannig að konur ræði jafnréttismál í lokuðum hópum sín á milli.” Það er kannski ögn kaldhæðnislegt að Booth láti þessi orð falla þegar hún er stödd á fundi, þar sem konur einar ræða um stöðu jafnréttismála, en þau eru jafnrétt fyrir því. Ætla verður að kvenleiðtogarnir, sem ljúka fundi sínum í Reykjavík í dag, finni leiðir til að miðla til starfsbræðra sinna niðurstöðum fundarins og fái þá í lið með sér að ræða jafnréttismál út frá forsendum og hagsmunum bæði karla og kvenna.

Þeirri tillögu er hér með komið á framfæri við ráðherrafundinn á Nordica-hóteli, að hver og einn kvenráðherra skori á karlráðherra í sinni eigin ríkisstjórn að mæta á fund, þar sem karlar ræða út frá sínum forsendum stöðu jafnréttismála og leiðir til að jafna rétt og stöðu kynjanna. Það er löngu orðið tímabært að karlar kveðji sér hljóðs í jafnréttisumræðunni. Og karlráðherrar rétt eins og kvenráðherrar hljóta að þurfa að standa öllum kjósendum sínum, körlum og konum, dætrum og sonum, reikningsskil gerða sinna eða aðgerðaleysis í jafnréttismálum.

mbl.is 30.08.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0