Ingólfur V. Gíslason félagsfræðingur verður með kvöldnámskeiðið “Karlar og karlmennska” hjá Endurmenntunarstofnun. Hefst námskeiðið 30. janúar og stendur til 20. mars. Fjallað var um námskeiðið í Morgunblaðinu og rætt við Ingólf:

Enn er almennt ríkjandi það viðhorf að karlar geti ekki eða vilji ekki sinna uppeldis- og umönnunarstörfum og þeir hafi lítinn áhuga á eigin börnum. “Allt er þetta að mínu mati hreint bull og ótrúlega lífseigt bull,” segir Ingólfur. “Því er líka viðhaldið á furðulegustu stöðum, svo sem hjá þeim sem tala eins og allir karlar séu ofbeldismenn eða séu sameiginlega sekir um óhæfuverk.”

“Löggjafinn hefur verið að stíga skref í þá átt að ýta undir breytingar hér og koma til móts við óskir karla,” segir hann. “Þar eru náttúrlega fremst nýju lögin um fæðingar- og foreldraorlof. Í mínum huga er enginn vafi á því að íslenskir karlar munu notfæra sér þann möguleika sem þeim býðst þar til að sinna börnum sínum og kynnast þeim. Þessi lög eru stærsta skrefið sem stigið hefur verið í jafnréttisátt áratugum saman. Síðan kvað Hæstiréttur nýlega upp dóm sem einnig er mjög merkur þótt þær breytingar sem hann felur í sér muni ekki snerta marga með beinum hætti. Þetta var þegar rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að það stæðist ekki ákvæði stjórnarskrár eða Mannréttindasáttmála Evrópu að neita körlum um að fara í barnsfaðernismál. Þessi úrskurður er táknrænn fyrir þá breytingu sem smátt og smátt er að verða í íslensku þjóðfélagi til þess að viðurkenna karla sem fullgóð foreldri.”

Umhyggja og hlýja karla

Þessar breytingar skipta bæði karla og konur máli, og eru lykilþáttur í því að ná markmiðinu um jafna stöðu og jafna möguleika karla og kvenna, að mati Ingólfs. “Það hefur verið bæði körlum og konum fjötur um fót að goðsögnin um að konur einar hafi í sér umhyggjuna og hlýjuna hefur orðið svo lífseig sem raun ber vitni. En hún er farin að hopa og hún mun innan fárra ára vera jafnheimskuleg og að konur geti ekki lært verkfræði. Til þess að reka flóttann þætti mér líka skynsamlegt að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að ryðja hindrunum úr vegi þeirra karla sem vilja verða kennarar, leikskólakennarar eða hjúkrunarfræðingar.”

Úr Morgunblaðinu

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0