Frammistaða stráka í skóla batnar ekki þótt þeir hafi karlkyns kennara, segir í niðurstöðum nýrrar breskrar rannsóknar. Í allmörgum löndum hefur verið gengið út frá því að karlkennarar, sem eru fáir, myndu bæta gengi drengja í skóla. Aftur á móti leiddi rannsóknin í ljós, að kvenkennarar höfðu jákvæð áhrif á viðhorf skólabarna til skólans.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC. Rannsóknin var gerð við Durham-háskóla í Bretlandi. Markmiðið með rannsókninni var að kanna hvort það sé í rauninni rétt, sem talið hefur verið, að fjölgun karlkennara myndi bæta frammistöðu drengja.

Könnuð voru gögn um 8.978 ellefu ára drengi og stúlkur í enskum grunnskólum. Í ljós kom að kyn kennarans hafði engin áhrif á frammistöðu barnanna í námi, en aftur á móti fór ekki milli mála að þau börn, af báðum kynjum, sem höfðu kvenkyns kennara höfðu jákvæðara viðhorf til skólanáms. Var munurinn tölfræðilega marktækur.

Höfundar rannsóknarinnar segja niðurstöðurnar benda til þess að engar áþreifanlegar vísbendingar sé að finna um að karlkyns kennarar geri drengjum auðveldara um vik að ná meiri árangri í námi.

mbl.is 19.09.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0