Karlafundurinn Karlar um borð fjallaði um jafnréttismál út frá sjónarhóli karlmanna
Eftir Svavar Knút Kristinsson Svavar@mbl.is

Karlmenn vilja vera virkari í fjölskyldulífinu
Efla verður hlut karlmanna í fræðslu- og umönnunarstörfum
FJÖLSKYLDULÍFIÐ brann á fundargestum ráðstefnunnar Karlar um borð, sem haldin var í Salnum í Kópavogi í gær. Sérstakur andi einkenndi ráðstefnuna, enda sátu hana einungis karlar sem höfðu áhuga á jafnréttismálum, á þriðja hundrað talsins. Til umræðu var jafnrétti í launum, þýðing fæðingarorlofs, mikilvægi jafnvægis í atvinnulífinu og ekki síst löngun og þörf karlmanna til að taka virkari þátt í fjölskyldulífi sínu.
Það var félagsmálaráðuneytið sem blés til ráðstefnunnar, en hún var hugmynd Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Í ávarpi sínu sagði Vigdís, sem var heiðursgestur ráðstefnunnar og eini fulltrúi kvenna, fyrir utan eina sjö mánaða snót í fylgd föður síns, að vandamál heimsins yrðu ekki leyst fyrr en þeir sem völdin hefðu kæmu saman og ræddu lausnir. Þannig hefðu stóru iðnþjóðirnar sjö komið saman á sínum tíma til að vinna að lausnum. Það sama yrðu karlar að gera, því allt of lengi hefðu konur staðið næstum einar í baráttunni og talað fyrir eyrum kynsystra sinna. Með því ynnist takmarkaður árangur. Vigdís sagðist ekki vita hvers vegna karlar væru svo tregir við að koma á ráðstefnur kvenna um jafnrétti, en leiddi að því líkur að þar væri á ferðinni einhvers konar feimni og óframfærni þeirra gagnvart þessum málaflokki, þótt þeir væru allir af vilja gerðir til að vinna í honum.

Í setningarávarpi sínu sagði Árni Magnússon félagsmálaráðherra að ljóst væri að karlar hefðu metnað fyrir hönd jafnréttisbaráttunnar, en kannski hefðu þeir ekki kunnað við að mæta á ráðstefnur þar sem þær hefðu hingað til mestmegnis höfðað til kvenna. Árni talaði einnig um nauðsyn þess að útrýma launamun kynjanna og nefndi þar m.a. hugmyndir um gæðavottun fyrirtækja á því sviði. Sagði hann mörg fyrirtæki hafa haft samband við ráðuneytið og lýst yfir áhuga á slíkri vottun. Þá greindi hann frá því að hann hefði sett á stofn hóp til þess að hrinda í framkvæmd vottun jafnra launa. “Hópnum er ætlað að móta verklag og kerfi til þess að gera úttekt á launakerfi fyrirtækja og stofnana,” sagði Árni. Markmiðið er að með kerfinu verði unnt að kanna hvort kynbundinn launamunur sé fyrir hendi og reynist svo ekki vera hljóti fyrirtækið eða stofnunin umrædda vottun.” Þá sagði Árni í lokaávarpi sínu að alþjóðleg karlaráðstefna væri áformuð haustið 2006.

Jafna þarf fjölskylduábyrgð
Í fyrirlestri sínum kvað Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, atvinnulífið hagnast á jafnrétti. Sagði hann umræðuefnið snúast fyrst og fremst um launamun og aðstöðumun. Það væri mikilvægt hagsmunamál að kynin ættu í reynd jafna möguleika til starfa, starfsþróunar og launa, en mismunum fæli alltaf í sér sóun. “Ef karli eru borguð meiri laun en konu fyrir sömu vinnu er verið að ráðstafa fjármunum frá hluthöfum án þess að neitt fáist fyrir þá,” sagði Ari. “Þau fyrirtæki sem eru að huga að jafnréttismálum eru að ná betri árangri í rekstri, en auk þess skapar fjölbreytnin verðmæti.” Kvað Ari ennfremur hugmyndina um gæðavottun á laun mjög spennandi útspil.
Ari bætti því við að þegar sömu laun væru tryggð fyrir sömu vinnu yrði jafnréttisbaráttan fyrst spennandi. “Það þarf að skoða verkaskiptingu og starfsval í samfélaginu,” sagði Ari. “Atvinnulífið ber ekki ábyrgð á því að konur velji sér önnur störf og aðra vinnutíma. Hvers vegna vinna karlar lengri vinnudag og hvers vegna sækja konur frekar í uppeldis- og heilbrigðisgreinar en karlar í iðn- og tæknigreinar?”

Ari sagði að greina þyrfti þá þætti í uppbyggingu samfélagsins sem spornuðu gegn jafnri atvinnuþátttöku karla og kvenna. Fæðingarorlof karla og hið gullna jafnvægi, sem felst í samþættingu vinnu og einkalífs væru gríðarlega mikilvæg. Langstærsta hindrunin fyrir jafnrétti væri ójöfn skipting fjölskylduábyrgðar.

Karlar áhættusæknari og viljugri að færa Mammoni fórnir
Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, benti á þá staðreynd að menntunarstig kvenna væri nú á vel flestum sviðum að fara fram úr eða komið fram úr menntunarstigi karla. “Konur ættu því almennt séð að vera betur í stakk búnar til að takast á við verkefni framtíðarinnar og hasla sér völl,” sagði Bjarni. “En á sama tíma hafa konur ekki haslað sér völl á því sviði sem felst í áhættu og nýsköpun. Sá geiri er fyrst og fremst drifinn áfram af körlum.”
Bjarni velti því fyrir sér að flestir sem væru að mennta sig á því sviði væru konur, en þó virtust karlar mun áhættusæknari. Benti hann á að þó nokkurt jafnrétti væri komið á í stjórnunarstöðum í viðskiptabankastarfsemi, en karlar væru nánast allsráðandi í fjárfestingabankastarfsemi. “Þar er gríðarlega hörð samkeppni um gríðarlega vel launuð störf,” sagði Bjarni. “Fólk verður því að vera tilbúið að færa gríðarlegar fórnir. Í þau störf veljast því gjarnan ungir karlmenn sem eru til í að fórna öllu á altari Mammons. Það eina sem spurt er um er árangur sem felst í fjárhagslegum ávinningi.”

“Ég held að við séum að verða komin mjög langt í því að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu, en það er alls ekki nóg,” sagði Bjarni. “Við þurfum að endurhugsa okkar hugarfar. Eðli atvinnugreinanna breytum við trauðla, en viðhorf okkar karla til uppeldis barna og reksturs heimila þurfa að breytast. Þrátt fyrir að við karlar séum mótsagnakenndar verur er það að koma upp börnum og ala þau upp mikilvægasti drifkrafturinn í lífi okkar.”

Þá sagði Bjarni feðraorlof án efa mikilvægasta skrefið sem stigið hefði verið í langan tíma, en með því öðluðust karlar hlutdeild í versta óvini kvenna, “sem er samviskubitið og sektarkenndin. Með aukinni nálægð við börnin eykst vilji okkar til að eyða meiri tíma með þeim.”

Átján þúsund pabbar í orlof
Í máli Ólafs Þ. Stephensen kom fram að um 18.000 íslenskir feður hefðu nú nýtt sér feðraorlofið sem sett var í lög 2001. Sagði hann aðeins níu karla hafa farið í fæðingarorlof árið 1995, en í fyrra hefðu þeir verið 5.600. “Þetta er ótrúleg breyting á skömmum tíma og sýnir að nýju fæðingarorlofslögin, sem allir flokkar sameinuðust um að koma á árið 2000, voru vel heppnuð og skiluðu tilætluðum árangri,” sagði Ólafur. “Stundum heyrast raddir um að pabbarnir líti frekar á fæðingarorlofið sem tækifæri til að laga hjá sér forgjöfina í golfinu eða frí til að dytta að heima við á meðan mömmurnar halda áfram að sinna smábörnunum. Það geta verið einhver dæmi um slíkt, en ef ég á að dæma út frá mínum vinum, kunningjum og vinnufélögum, er það alveg á hreinu að pabbar nota fæðingarorlofið sitt eins og til var ætlast.”
Ólafur sagði þessa breytingu geta átt stóran þátt í að rjúfa þann vítahring sem felst í launamun kynjanna og ójafnri verkaskiptingu á heimilunum. “Nú eiga allir nýbakaðir pabbar þess kost að helga sig börnunum sínum um einhvern tíma og 85% þeirra taka þann kost,” sagði Ólafur. “Það sem karlar græða ekki síst á jafnréttisbaráttunni er þetta tækifæri til að mynda nánari tilfinningatengsl við börnin sín, möguleiki á að láta til sín taka heima fyrir og ekki síst ákveðið frelsi frá fyrirvinnuhlutverkinu sem karlmenn hafa verið læstir inni í meira og minna undanfarna áratugi og aldir.”

Ólafur sagðist líta svo á að jafnari verkaskipting í kjarnafjölskyldunni væri lykillinn að því að ná jafnrétti á vinnumarkaði, í stjórnunarstöðum í atvinnulífi, stjórnsýslu og stjórnmálum. “Meginástæða þess að sókn kvenna inn á vinnumarkaðinn, í pólitíkina og valdastöður í samfélaginu, sem er löngu hafin, hefur ekki heppnast til fulls, er að sókn karla inn á heimilin er ekki hafin að neinu teljandi marki,” sagði Ólafur. “Eitt af því sem konur verða að átta sig á, er að eigi karlar að búa til svigrúm fyrir þær á vinnumarkaðnum, geta þær þurft að gefa körlum svigrúm á heimilinu. Hvorki taka ákvarðana í stjórnum fyrirtækja né ákvarðanataka um stofugardínur eða fataval á börnin á að vera óvinnandi vígi annars hvors kynsins.”

Ójafnvægi í menntakerfinu
Nokkurs konar aðskilnaðarstefna í atvinnulífinu var umræðuefni Runólfs Ágústssonar, rektors viðskiptaháskólans á Bifröst, en hann benti á þá staðreynd að 95% leikskólakennara, 80% grunnskólakennara, um helmingur framhaldsskólakennara og 40% háskólakennara væru konur og þeim færi sífellt fjölgandi á efri skólastigum. Þannig vantaði tilfinnanlega áherslur karla og fyrirmyndir fyrir drengi í gegnum menntakerfið. Benti Runólfur á að um 80% íslenskra háskólanema væru konur og brottfall karla væri mjög mikið.
Benti Runólfur á það í erindi sínu að einungis 18% nemenda Kennaraháskólans væru karlar en engu að síður vísaði skólinn 100 karlkyns umsækjendum frá á hverju ári. Spurði hann hvort allir þessir umsækjendur teldust vanhæfir og þá hvort skólanum bæri ekki að leggja sitt af mörkum til að jafna hlutfall kynjanna í kennarastéttinni.

Runólfur sagði í raun tvær þjóðir búa í einu landi, annars vegar kvenþjóð sem starfaði í skólum og heilbrigðis- og umönnunarstörfum og hins vegar karlþjóð sem ynni við stjórnun, fjármálastarfsemi og iðnað. Sagði hann aðgengi karla að vinnustað þar sem 96% vinnufélaga væru konur afar takmarkað, auk þess sem aðrir hlutir eins og laun spiluðu þar inn í. Nauðsynlegt væri að bæta úr því svo þessi störf yrðu aðlaðandi fyrir karla. “Breið og fjölbreytt viðhorf skipta máli í rekstri, stjórnun og í skólastarfi,” sagði Runólfur. “Einhæfir vinnustaðir með einsleit viðhorf standast síður samkeppni í flóknu og fjölbreytilegu alþjóðlegu umhverfi. Kynbundin aðskilnaðarstefna á vinnumarkaði skaðar því samfélagið og atvinnulífið.”

Í öðrum fyrirlestrum og pallborðsumræðum var rík áhersla að sama skapi lögð á vilja karla til að taka virkari þátt í heimilislífi og uppeldi barna sinna, enda væri það lykillinn að meira frelsi kvenna til þátttöku í atvinnulífinu og betri líðan karla. Þá undirstrikuðu mælendur nauðsyn fjölbreytileika í öllum geirum atvinnulífsins og þátttöku beggja kynja í þeim.

Að lokum var borin undir fundinn ályktun þar sem m.a. kom fram að nauðsynlegt væri að karlar öxluðu aukna ábyrgð á jafnrétti kynjanna. Jafnréttismál ættu ekki eingöngu að vera kvennamál, heldur væru þau mannréttindamál sem karlmenn þyrftu að ræða og berjast fyrir af fullum krafti.

“Jafnrétti kynjanna stuðlar að betri nýtingu mannauðs. Jafnrétti kynjanna eykur verðmætasköpun. Jafnrétti kynjanna skapar afkomendum okkar öruggari framtíð. Jafnrétti kynjanna er mikilvæg forsenda fyrir farsæld og hamingju og þess vegna allra hagur,” segir m.a. í ályktuninni.

Mikil ánægja var meðal ráðstefnugesta við lok ráðstefnunnar en heyra mátti á mönnum að hún hefði verið fullstutt. Kváðust menn hafa vel getað hugsað sér opnar umræður og spurningar úr sal auk þess sem pallborðsumræðurnar hefðu verið afar stuttar. Þá sögðu margir ráðstefnugestir það vera mikinn létti að geta rætt málefni jafnréttis óþvingað og án þess að eiga það á hættu að “segja eitthvað vitlaust,” eða að konur “tækju yfir umræðuna.” Þá fannst þátttakendum það gott að fá að ræða málið út frá eigin forsendum og greinilegt væri að það brynni á karlmönnum að vilja vera betri feður og makar.

Umhyggjuhæfileiki karla vannýtt auðlind
HAGSÆLD Norðurlandanna er ekki “þrátt fyrir” öflug velferðarkerfi, eins og tímaritið Newsweek fullyrðir, heldur “vegna þeirra.” Þetta er mat Ingólfs V. Gíslasonar, sviðsstjóra á Jafnréttisstofu, sem flutti erindi á ráðstefnunni Karlar um borð. Sagði Ingólfur áhersluna á velferð allra sem hefur einkennt norræna módelið meginskýringu þeirrar hagsældar og hamingju sem ríkir á Norðurlöndunum.
“Ríkur þáttur í því módeli felst í að stuðla að jafnrétti karla og kvenna,” sagði Ingólfur. “Jafnrétti kynja felur í sér að rutt er burt hindrunum. Jafnréttið felur í sér að unnið er að því að opna dyr og ryðja burt fordómum þannig að hver og einn fái að njóta sín án þess að þurfa að takast á við fyrirfram gefnar staðalmyndir um karla og konur.”

Ingólfur sagði stærstan hluta jafnréttisstarfsins fram að þessu hafa falið það í sér að opna dyr fyrir konur. “Það býr engin stúlka lengur við það að kennarinn segi henni að konur geti ekki lært stærðfræði,” sagði Ingólfur. “Og hvað gerist þegar þessar dyr eru opnaðar. Konur streyma inn á öll svið mannlífsins, auðga þau og bæta, ekki vegna þess að þær séu betri en karlarnir sem fyrir voru heldur vegna þess að fleirum gefast færi á að nýta raunverulega hæfileika sína og gera það sem áhuginn beinist að.”

Ingólfur sagði umhyggjuhæfileika karla verulega vannýtta auðlind. Nefndi hann dæmi um unglingsdrengi sem gæta yngri bekkinga í grunnskólum af mikilli alúð. “Umhyggju og alúð þarf ekki að kenna, hún er okkur í blóð borin, það þarf að kæfa hana til að hún njóti sín ekki,” sagði Ingólfur. “Þess vegna þurfum við að ekki að kenna drengjum og körlum eitthvað sem þeir ekki vilja eða ekki geta. Við þurfum bara að opna dyr og ryðja burt hindrunum og fordómum þannig að enginn drengur þurfi að búa við það að honum sé sagt að karlar geti ekki orðið leikskólakennarar, hjúkrunarfræðingar eða umhyggjusamir feður.”

Ingólfur varaði ennfremur við heimskulegum glósum þar sem karlar séu málaðir sem hættulegir eða barnalegir. “Það vinnur gegn jafnrétti, ýtir undir fordóma, lokar dyrum. Hver vill fá ofbeldisfulla kjána til að sinna uppeldi og umhyggju?”

Ingólfur sagði það sem fram að þessu hefði áunnist í jafnréttismálum vissulega hafa skilað konum miklu. “Það hefur líka skilað körlum miklu,” sagði Ingólfur. Það hefur skilað okkur betri heilsu, létt af okkur skaffarabyrðinni og opnað okkur stóraukna möguleika til gefandi samskipta við fjölskyldu okkar, börnin okkar.”
Leiðrétta þarf gildismat umönnunarstarfa til að laða að karlmenn
Árni Magnússon félagsmálaráðherra segir ljóst að laun fæli karlmenn frá störfum við umönnun, félagsþjónustu og menntun. Hann tók undir að ljóst væri að margir karlmenn vildu vinna við þessi störf en fældust frá sökum þeirra lélegu launa sem í boði væru.
“Það sem er til ráða er ekki síst að við ræðum þessi mál á þessum nótum og viðurkennum það, fyrst í orði kveðnu og síðan í verki, að þessi störf séu okkur ekki minna virði en önnur. Mér fannst það koma skýrt fram að það verður að bregðast við þessu til þess í fyrsta lagi að mennta karla til kennslu. Við sjáum það að karlar eru í miklum minnihluta í þessum störfum og meðan það er svoleiðis skortir okkur fyrirmyndirnar og einnig ákveðið afl og kraft til að fylgja eftir kröfunni um hærri laun og um það að þessi störf séu ekki sett skörinni lægra en önnur.”

Árni segist hafa haft vissan ugg yfir því að hafa ráðstefnuna aðeins fyrir karla en kveðst sannfærður um það eftir ráðstefnuna að það hafi verið rétt ákvörðun. “Hér komu karlar til að ræða þessi mál út frá sínum sjónarhóli, með sínum áherslum og sínu orðfæri og leyfðu sér að gera það án þess að hafa áhyggjur af því að þeir væru annaðhvort að segja einhverja vitleysu eða ættu von á því að fá harkaleg viðbrögð kvenna úr salnum. Við þurftum á þessu að halda. Umræðan fór líka í allt aðrar áttir en við áttum von á. Hún fór yfir í það að það er mjög rík krafa frá þessum fundi að karlar taki sér betri stöðu á heimilinu og ríkari ábyrgð á uppeldi barna sinna.”

Eftir Svavar Knút Kristinsson Svavar@mbl.is FJÖLSKYLDULÍFIÐ brann á fundargestum ráðstefnunnar Karlar um borð, sem haldin var í Salnum í Kópavogi í gær.

Sjá nánar: http://www.mbl.is/

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0