Ráðstefna sú, sem Árni Magnússon félagsmálaráðherra gekkst fyrir í gær undir yfirskriftinni “Karlar um borð”, getur, ef rétt er á haldið, markað nokkur tímamót í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.

Ráðstefna sú, sem Árni Magnússon félagsmálaráðherra gekkst fyrir í gær undir yfirskriftinni “Karlar um borð”, getur, ef rétt er á haldið, markað nokkur tímamót í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Það er nýlunda að jafnmargir karlar komi saman og ræði jafnréttismál á eigin forsendum. Vonandi er ráðstefnan í Salnum í Kópavogi upphafið að því að karlar sjáist og heyrist miklu meira í umræðum um jafnréttismál. Svo mikið er víst að margir karlar fóru innblásnir af ráðstefnunni og vafalaust reiðubúnir að halda umræðunum áfram í sínum hópi.
Á ráðstefnunni í gær stóð ekki sízt upp úr umræðum sú sterka krafa að karlar helgi sig í auknum mæli heimili og fjölskyldu og hafi til þess tækifæri og svigrúm. Það liggur enda í augum uppi að jafnrétti næst ekki á vinnumarkaðnum eða í áhrifa- og valdastöðum þjóðfélagsins nema karlar axli ábyrgð á börnum og heimilisrekstri til jafns við konur. Þeir, sem efast um vilja karla til að láta meira til sín taka inni á heimilunum, ættu að velta fyrir sér hvers vegna um 18.000 íslenzkir feður hafa nýtt – og flestir að fullu – þann rétt til fæðingarorlofs, sem þeim hefur sérstaklega verið ætlaður undanfarin fimm ár.

Það er orðin viðtekin skoðun að mannauður kvenna sé vannýttur í atvinnulífinu og í stjórnmálum. Á ráðstefnunni í gær benti Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri á Jafnréttisstofu, hins vegar á að það sama ætti við um karlana. Hæfileikar þeirra til að annast um börn sín væru vannýtt auðlind.

Þetta hljóta stjórnmálamenn að hafa í huga við mótun stefnu í jafnréttismálum á komandi árum. Það þarf að halda áfram að ýta undir tækifæri kvenna í atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnsýslu. En það þarf ekki síður að auka tækifæri karla til að sinna föðurhlutverki sínu og leggja fyrir sig umönnunarstörf.

Frumkvæðið að karlaráðstefnunni kemur frá Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem hefur ítrekað vakið athygli á þeirri staðreynd, að jafnrétti næst ekki fram nema karlar líti á jafnréttisbaráttuna sem sína baráttu, ekki síður en konur. Vigdís hefur talað fyrir því að karlleiðtogar frá ýmsum ríkjum heims komi saman og ræði jafnréttismálin. Til þessa hefur hugmynd hennar ekki komizt í framkvæmd, en nú hefur Árni Magnússon félagsmálaráðherra ákveðið að efna til alþjóðlegrar karlaráðstefnu hér á landi næsta haust. Hann hvatti til þess í gær að íslenzkir karlar tækju sér forystuhlutverk á heimsvísu í umræðum um jafnréttismálin.

Íslenzkar konur hafa vakið heimsathygli fyrir baráttu sína fyrir jafnrétti. Þar standa kvennafrídagurinn 1975 og kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta árið 1980 upp úr. Íslenzkir karlmenn hafa minna talað um jafnréttismál en konur, en það að 85% íslenzkra feðra skuli nú taka sér þriggja mánaða fæðingarorlof er staðreynd, sem vekur nú athygli víða um heim. Og af hverju ættu íslenzkir karlar að vilja vera eftirbátar kvenna í því að hafa frumkvæði að umræðum um jafnréttismál á alþjóðlegum vettvangi?

mbl.is Föstudaginn 2. desember, 2005 – Ritstjórnargreinar

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0