Stór hópur karla situr nú og ræðir jafnrétti í Salnum í Kópavogi. Um er að ræða ráðstefnu sem Árni Magnússon félagsmálaráðherra boðaði til og sitja hana aðeins karlar að Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands, undanskilinni. Ummæli hennar á síðasta ári, að aldrei muni gerast neitt í jafnréttismálum fyrr en karlar setjist saman á lokuðum fundi og ræði málin, urðu kveikjan að ráðstefnunni.

Vigdís sagði í ávarpi að hún vonaðist til þess að fréttir af ráðstefnunni bærust út í heim. Hún sagði að á langri ævi þættist hún hafa komist að ýmsum sannleikskornum og ítrekað orðið vitni að því, að konur væru settar í sérhólf í þjóðfélögum; málefni kvenna virtust vera sérmál þeirra. Hún sagðist hins vegar viss um, að í hjarta karla væri vilji til að standa sig í jafnréttismálum og sá dagur muni á endanum renna upp að markmiðin náist. Hins vegar væri það staðreynd, að jafnréttisumræður fælust einkum í því að konur væru að hlusta á aðrar konur en karlar væru feimnir og hefðu sig ekki upp í það að sýna sig með kvenréttindabaráttunni.

Vigdís sagði, að þátttakendur í ráðstefnunni í dag væru brautryðjendur og um leið væru þeir fyrirmynd annarra.

Árni Magnússon sagði að einnig að þessi dagur markaði upphaf að kröftugri baráttu karla í jafnréttismálum og kominn væri tími til að karlar sýndu í verki að jafnréttismál skipti þá máli. Árni sagði að karlar hefðu metnað fyrir hönd jafnréttisbaráttunnar en fram til þessa hefðu jafnréttismál verið álitin kvennamál og að konur þurfi að feta í fótspor kvenna.

„Við þurfum að brjótast út úr því fari að við karlar lítum að okkur sem fórnarlömb jafnréttisbaráttunnar og hún beinist gegn okkur,” sagði Árni og bætti við að karlar þyrftu ekki síður en konur að færa fórnir sem bitnuðu á þeim og fjölskyldum þeirra. Jafnréttisbaráttan snérist um að bæta samfélagið og auka lífsgæði og hún væri því ekki síður mál karla en kvenna.

Árni sagði að launamunur kynjanna skæri hvað mest í sín eyru en en menn hefðu viljann að vopni væri hægt að útrýma honum. Sagðist Árni hafa hafið vinnu í félagsmálaráðuneytinu til að útrýma þessum mun þar væri hann fyrir hendi. Einnig hefði verið skipaður hópur, undir forustu Orra Hlöðverssonar, bæjarstjóra í Hveragerði, til að móta svonefnda vottun jafnra launa og sagðist Árni gera sér vonir um að slík vottun yrði að veruleika næsta sumar.

Ráðstefnan stendur til hádegis. Þórhallur Gunnarsson, sjónvarpsmaður, er ráðstefnustjóri en Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, Gunnar Páll Pálsson, formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri á Jafnréttisstofu, Ólafur Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, og Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst flytja framsöguerindi. Einnig mun Þráinn Bertelsson rithöfundur flytja erindi og Egill Helgason, sjónvarpsmaður, stýrir pallborðsumræðum.

Innlent | mbl.is | 1.12.2005 | 10:17

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0