María Kristín Gylfadóttir fjallar um samskipti foreldra og barna á jólum: “Á jólunum er gaman að gleðja aðra með góðum gjöfum. En góðar gjafir eru ekki alltaf þær sem kosta mest.”

 

LITADÝRÐ og skarkali einkenna jólamánuðinn. Jólaskraut skríður upp um alla veggi og húsþök og gluggar eru böðuð lituðum ljósum. Jólasöngvar óma á útvarpsstöðvunum á meðan við njótum matar á borðum sem eru að svigna undan krásum. Hjá flestum skortir lítið í desember, þó ekki öllum því miður. Það sem einna helst skortir á mörgum heimilum er tími; til að njóta, til að deila; til að tala; til að gleðjast.

Ég heyrði eitt sinn sögu af föður sem reiddist dóttur sinni ógurlega þegar hún eyddi heilli rúllu af gylltum pappír til að skreyta lítið box til að setja undir jólatréð. Engu að síður færði litla stúlkan föður sínum boxið á aðfangadagskvöld. Við þetta skammaðist faðir stúlkunnar sín fyrir viðbrögð sín. En reiði hans gaus upp aftur þegar hann áttaði sig á því að boxið var tómt. Hann kallaði til dóttur sinnar, “veistu ekki að þegar þú gefur einhverjum gjöf, þá á eitthvað að vera í henni?” Litla stúlkan leit upp til pabba síns með tárin í augunum og sagði: “Ó, pabbi, boxið er ekki tómt. Ég blés fullt af kossum í það. Bara fyrir þig, pabbi.” Faðirinn varð miður sín. Hann tók utan um litlu stúlkuna sína og bað hana að fyrirgefa sér.

Mörgum árum seinna, þegar faðir stúlkunnar lést, og hún fór í gegnum eigur hans fann hún gyllta boxið frá því á jólunum forðum við rúmstokkinn hans, þar hafði hann haft það alla tíð; þegar honum leið ekki vel gat hann tekið upp ímyndaðan koss og minnst allrar ástarinnar sem barnið hans hafði gefið honum og sett í boxið.

Í vissum skilningi höfum við öll tekið á móti gylltum boxum frá börnunum okkar, fjölskyldum og vinum, fullum af skilyrðislausri ást og kossum. Við gleymum hins vegar stundum að gefa okkur augnablik og njóta þessara minninga; leyfa þeim að verma hjarta okkar og bráðna þar, en ekki í höndunum á okkur. Á jólunum er gaman að gleðja aðra með góðum gjöfum. En góðar gjafir eru ekki alltaf þær sem kosta mest. Kannski er tími besta gjöfin sem þú getur gefið barninu þínu á þessari jólahátíð.

Starfsfólk og stjórn Heimilis og skóla óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og notalegra fjölskyldustunda á komandi ári.

María Kristín Gylfadóttir
Höfundur er formaður Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.
mbl.is 21 des 2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0