Garðar Baldvinsson fjallar um forsjármál: “Forsjárlausa foreldrið hefur réttarstöðu einhleyps (barnlauss) manns, er ekki talinn framfærandi.”

DÓMSMÁLARÁÐHERRA boðaði sl. vor verulegar breytingar á forsjármálum hér á landi. Hefur hann ákveðið að beita sér fyrir því að sameiginleg forsjá verði lögfest sem meginregla við skilnað eða sambúðarslit foreldra. Félag ábyrgra feðra fagnar heilshugar þessari yfirlýsingu ráðherra. Félagið telur nauðsynlegt að breyta viðhorfum samfélagsins, stjórnsýslunnar og löggjafans til umgengnismála ekki síður en til forsjármála.
FÁF telur að stefna skuli að því að umönnun foreldra sé sem jöfnust eftir skilnað. Orðið “umgengni” er arfur frá þeim tíma þegar sjálfsagt var talið að annað foreldrið, móðirin, annaðist barnið og hitt foreldrið, faðirinn, umgengist það með heimsóknum. Það er krafa nýrra tíma að litið sé á uppeldishlutverkið sem sameiginlegt verkefni beggja foreldra og því sé ekki um “umgengni” að ræða eftir skilnað eða sambúðarslit heldur áframhaldandi sameiginlega umönnun foreldranna. Nauðsynlegt er að skilgreina öðruvísi en nú er í lögum hlutverk umönnunar.

Löggjafinn setur fram ákveðna skilgreiningu á umgengni og réttarstöðu umgengnisforeldris. Ég vil nefna hér nokkur atriði sem FÁF telur nauðsynlegt að breyta:

Skilgreining á umgengni – við setningu barnalaga 2003 taldi löggjafinn ekki ástæðu til að skilgreina lágmarksumgengni þar eð það væru of mikil afskipti af einkalífi fólks. Hins vegar eru í lögunum nákvæmlega skilgreindar aðferðir til að reikna út meðlagsauka hins forsjárlausa svo og aðferðir og úrræði við innheimtu meðlags og meðlagsauka. Löggjafinn telur að á aðfangadag eigi barn t.d. að vera hjá forsjárforeldri sínu vegna þess að barnið eigi þá að vera heima hjá sér. Með þessari yfirlýsingu er samband barns við forsjárlaust foreldri sett miklu lægra en samband þess við forsjárforeldri. Umönnun viðheldur og býr sífellt til fjölskyldusamband barns og foreldris þótt foreldrar séu skildir að skiptum. Friðhelgi fjölskyldulífsins er vernduð í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Í frumvarpi sem lagt hefur verið fyrir þing Pennsylvaníufylkis í Bandaríkjunum er nákvæmlega skilgreint hvenær barn skuli flytja milli heimila sinna, hvaða daga, klukkan hvað og hvernig foreldrar skuli standa að þessum tilfæringum. Á sama hátt er skilgreint hvaða dagar teljast hátíðis- eða frídagar sem beri að skipta milli foreldranna. Nauðsynlegt er að líta svo á að þegar foreldrarnir búa ekki á sama stað þá búi barnið á báðum stöðum og flytjist á milli þeirra og heimilin séu fullkomlega jafnrétthá. Hér á landi er lögheimilið rétt heimili en hitt heimilið réttlaust – barnið er talið búa á öðru heimilinu en heimsækja hitt.

Skattameðferð meðlagsgreiðenda – forsjárforeldri hefur réttarstöðu einstæðs foreldris, er talið framfærandi, fær allar bætur hins opinbera og aðgang að styrkjum og bótum í félagslega kerfinu. Forsjárlausa foreldrið hefur réttarstöðu einhleyps (barnlauss) manns, er ekki talinn framfærandi, og hefur engan aðgang að bótum eða aðstoð hins opinbera vegna uppeldis- og framfærsluskyldna sinna. Meðlag er skv. barnalögum framfærsla sem forsjárlausa foreldrið innir af hendi.

Upplýsingagjöf til forsjárlausra – þar er forsjárforeldrinu veitt algert vald yfir því hvaða upplýsingar eru gefnar hvernig og hvenær. Skilgreina þarf þessa þætti og ganga út frá því að báðir foreldrar eigi rétt á upplýsingum um barn sitt.

Ráðgjöf til feðra – hjá sýslumönnum, lögfræðingum og félagsráðgjöfum, er feðrum ráðlagt að storka ekki valdi móðurinnar því þeir muni tapa stríði sem muni einungis kosta þá erfiðleika og fjárútlát.

Tímalengd málsmeðferðar – skv. nýlegri rannsókn tekur umgengnismál að meðaltali 9 mánuði hjá sýslumönnum og upp í 2-3 ár. Meðlagsmál taka sjaldan meira en 2-3 mánuði. Umgengnistálmun er brot á friðhelgi fjölskyldulífsins og því mannréttindabrot. Þessi langi afgreiðslutími kerfisins er stuðningur við mannréttindabrot.

Fjölskyldudómstóll – taki við verkefnum sýslumanna, dómstóla og dómsmálaráðuneytis. Fjölskyldudómstóllinn sinni forsjár-, umönnunar- og meðlagsmálum. Við hann starfi sérfræðingar í málefnum barna og fjölskyldna í lögfræði, sálfræði og félagsráðgjöf. Úrskurðum verði hægt að áfrýja til æðra dómstigs.

Slíkar breytingar eru nauðsynlegar til að verja mannréttindi barna og forsjárlausra foreldra á Íslandi. Foreldrajafnrétti er leið til launajafnréttis.

Höfundur er formaður Félags ábyrgra feðra.
Grein birtist í Morgunblaðinu 19 október 2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0