Ríkisstjórnin hefur samþykkt að stofnaður verði rannsóknarsjóður, jafnréttissjóður í tilefni kvennafrídagsins á mánudaginn. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að markmið sjóðsins sé að stuðla að meira jafnrétti í landinu, sérstaklega hvað varðar laun. Með stofnun sjóðsins er ríkisstjórnin að undirstrika samstöðu með konum um allt land á kvennafrídaginn.

Sjóðurinn verður vistaður í forsætisráðuneytinu og mun ríkisstjórnin leggja til 10 miljónir króna við stofnun hans. Nota á féð til rannsókna á grundvelli umsókna á sjálfum kvennafrídeginum á hverju ári og verður fyrst úthlutað úr honum 24. október á næsta ári. Markmiðið er að unnar verði vandaðar kynjarannsóknir.

Halldór segir að í fyrstu verði lög áhersla á að veita fé til rannsókna á stöðu kvenna á vinnumarkaði að því er varðar bæði laun og áhrif. Hann segir mikilvægt að stofna sjóðinn til að sinna þessum rannsóknum.

Í minnisblaði forsætisráðherra er bent á að árið í ár sé að ýmsu leyti sögulegt í ljósi jafnréttisbaráttunnar. 30 ár séu frá því að konur fjölmenntu á Lækjartorgi á kvennafrídegi, 90 ár frá því að konur fengu kosningarétt til Alþings, 85 ár frá því að þær fengu fullan kosningarétt, 70 ár frá því að Auður Auðuns lauk embættisprófi í lögfræði og 35 ár frá því að hún varð fyrst kvenna ráðherra.

ruv.is
Síðast uppfærð: 21.10.2005 14:23

Sjá nánar: http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=115354&e342DataStoreID=2213589

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0